Heima - Áskorandi Ágústa Rós Ingibjörnsdóttir Blönduósi

Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir áskorunina. Nú þegar ég er að flytja aftur heim á Blönduós fór ég að velta því fyrir mér, hvað er það sem dregur mann aftur „heim“? Þá kom upp í hugann texti Ólafs Ragnarssonar og Huldu Ragnarsdóttur „Er það hafið eða fjöllin sem að laða mig hér að, eða er það kannski fólkið á þessum stað“.

Ég hef búið í Reykjavík síðastliðin fjögur ár en alltaf hefur Blönduós verið heima fyrir mér. Hugtökin staðarkennd og staðartengsl hafa verið notuð til að lýsa þeim tilfinningalegu tengslum sem við myndum við staði. Staðarkennd hefur verið skilgreind sem samansafn merkinga og tilfinninga sem einstaklingar og hópar tengja við ákveðna staði. Þessi tengsl geta verið margþætt og flókin. Við getum myndað tengsl við staði því þar erum við fædd og uppalin, við eigum góðar minningar frá þessum stað og okkur líður vel á staðnum. Staðarkennd hefur einnig verið lýst sem tilfinningunni „að vera heima“, því það er sá staður sem við tengjumst hvað mest.

Við getum myndað staðartengsl út frá fólkinu sem við tengjumst á tilteknum stað, s.s. fjölskylda, vinir eða samstarfsfélagar. Einnig getum við myndað staðartengsl út frá umhverfinu, hvort sem það sé náttúrulegt umhverfi eða mannvirki. Það eru ótal þættir sem verða til þess að við myndum þessi tilfinningalegu tengsl. Það má því segja að það sé samspil fjallanna, hafsins og fólksins sem laðar mig aftur heim á Blönduós.

Ég skora á Þórhöllu Guðbjartsdóttur að taka við keflinu.

Áður birst í 16. tbl. Feykis 2021

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir