Háskólinn á Hólum hlýtur þrjá styrki úr Rannsóknasjóði

Háskólinn á Hólum. Mynd:FE
Háskólinn á Hólum. Mynd:FE

Rannsóknasjóður úthlutaði nýlega styrkjum til nýrra rannsóknaverkefna fyrir árið 2019. Að þessu sinni bárust 359 gildar umsóknir í Rannsóknasjóð og var 61 verkefni styrkt eða um 17%. Verkefni á vegum Háskólans á Hólum hlutu þrjá styrki sem nema samtals rúmum 93 milljónum króna.

Hæsta styrkinn sem úthlutað var, rúma 51 millljón króna, hlaut verkefni sem dr. Bjarni Kristófer Kristjánsson, deildarstjóri og prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum, leiðir. Yfirskrift verkefnisins er Samþætting vist-, þróunar- og þroskunarfræðilegra þátta til mótunar á líffræðilegri fjölbreytni: Hornsíli í Mývatni sem líkan. Styrkur þessi flokkast sem öndvegisstyrkur en þeir eru ætlaðir til umfangsmikilla rannsóknarverkefna sem eru líkleg til að skila íslenskum rannsóknum í fremstu röð á alþjóðavettvangi, að því er segir á vef Rannís.

Tvö verkefni sem leidd eru af starfsmönnum Háskólans á Hólum hlutu verkefnisstyrki en þeir eru veittir til rannsóknarverkefna. Voru það annars vegar verkefnið Þróun vitsmuna: Rannsókn á samsvæða afbrigðum bleikju (Salvelinus alpinus), sem dr. David Roger Ben Haim, dósent við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild, stýrir. Það hlaut styrk að upphæð 19,5 milljónir. Hitt verkefnið ber titilinn Þróun og stjórn litabreytileika sjávarsnigilsins (Buccinum undatum) og nam styrkupphæðin til þess 22,5 milljónum króna. Því verkefni er stýrt af dr. Erlu Björk Örnólfsdóttur, rektor skólans.

Rannsóknasjóður hefur það hlutverk að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi og styrkir í því skyni nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. 

Styrkirnir sem sjóðurinn veitir skiptast í verkefnisstyrki, öndvegisstyrki, rannsóknastöðustyrki og doktorsnemastyrki og eru þeir veittir í allt að 36 mánuði.

Nánar má lesa um úthlutunina á vef Rannís.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir