Óvitar eru kannski ekki svo miklir óvitar | Kristín S. Einarsdóttir kíkti í leikhús

Leikhópurinn á sviði Bifrastar. MYNDIR: KSE
Leikhópurinn á sviði Bifrastar. MYNDIR: KSE

Það er einhver sérstök tilfinning að láta sig síga niður í bíósætin i Bifröst, bíða eftir að ljósin slokkni og láta töfra leikhússins yfirtaka allt annað um stund. Ég veit ekki hvor okkar var spenntari, rúmlega fimmtuga amman eða rétt að verða sjö ára ömmustelpan, þegar okkur bauðst að fara í leikhús á mánudaginn. Alla vega varð hvorug okkar fyrir vonbrigðum. Í tæpa tvo tíma lifðum við okkur inn í heim Gumma, Finns, Dagnýjar og allra hinna í leikritinu Óvitum, eftir Guðrún Helgadóttur, í leikstjórn Eysteins Ívars Guðbrandssonar.

Í svona mannmargri sýningu er ekki nokkur leið að taka einhvern leikaranna framyfir hina, það væri beinlínis ósanngjarnt. Sýningin er borin uppi af ungmennum og krökkum, mörgum hverjum á grunnskólaaldri. Formið er líka afar óvenjulegt, þar sem fullorðnir leika börn og öfugt. Það skilaði sér vel. En auk leikstjórans má þakka það búningafólki, hárgreiðslu og förðun að gera gervin það trúverðug að jafnvel barnungar stelpur urðu kerlingalegar og fullorðnir menn strákslegir. Elsti leikarinn og mesti reynsluboltinn birtist svo í skemmtilegu aukahlutverki sem ofvaxið smábarn, svo ekki sé meiru spillt fyrir þeim sem eiga eftir að fara á sýninguna.

Reyndar er það svo, talandi um reynslu, að mér finnst oft að unga fólkið sem ég sé á fjölunum hér í Skagafirði sé hokið af reynslu. Oft hefur maður séð þau stíga sín fyrstu skref í upplestrarkeppni eða skólaleikriti og skila sér svo á fjalirnar í Bifröst á Sauðárkróki, í Miðgarði eða Höfðaborg á Hofsósi. Þarna skilar sér klárlega áhersla á sviðslistir í grunnskólastarfi, tónlist og fleiri tækifæri til tjáningar. Uppbrot í skólastarfi sem hentar alls ekki öllum en er frábært fyrir þá sem blómstra og jafnvel koma út úr skelinni og skína sem óvæntar stjörnur.

Leikstjórinn er einn af þeim sem hafa alist upp í Bifröst og mér finnst sá svipur sem hann setur á sýninguna meðal annars skila sér í leikgleði og skemmtilegri tjáningu með hreyfingum og svipbrigðum. Söngnum skiluðu leikararnir líka vel og höfðu þar notið þjálfara sem einnig hefur alist upp í Bifröst. Kóreógrafían í hópatriðunum er skemmtileg og sviðið, sem ekki er stórt í fermetrum talið, vel nýtt.

Skiptingar á sviðsmynd voru í lágmarki en gengu greiðlega. Leikmyndin er einföld og skemmtileg og lausnir þar sem Finnur fer í felur og finnst ekki skemmtilegar. Raunar voru það þær sem vöktu einna mesta kátínu sjö ára rökhugsandi ömmustelpunni, sem var hæstánægð með að fá að skoða sviðsmyndina að sýningu lokinni, ekki síður en að fá að hitta leikarana.

Ég verð líka að nefna boðskap verksins, sem í mínum huga er kannski fyrst og fremst sá að Óvitar eru alls engir óvitar. Börnin mótast af því sem fyrir þeim er haft. Við drögum öll lærdóm af lífsreynslunni, þó ég hafi reyndar grun um að faðir Finns hefði haft gott af reiðistjórnunarnámskeiði, ekki síður en ósýnilega aukapersóna Sigurbjörn rakari. Söguþráðurinn minnir okkur líka á að gæta þess sem börn eru látin hlusta á og að hafa í huga hvað fólk hefur í bakpokanum sínum áður en við berum út slúður og ástundum illt umtal um náungann.

Fyrst og fremst hafa þó kvöldstundir sem þessar skemmtanagildi. Að standa upp frá skjánotkun eða hversdagslegu amstri eina dagsstund og njóta með sínu fólki. Njóta afraksturs þeirra sem hafa varið frítíma sínum vikum saman til þess að skemmta okkur hinum. Það er fátt í menningarlegu tilliti sem ég ber jafn mikla virðingu fyrir og óeigingjarnt starf áhugaleikfélaga. Það hlýtur því að vera tilhlökkunarefni að njóta fjölbreytilegrar menningar í nýju Menningarhúsi á Sauðárkróki innan fárra missera.

Ég vil enda þessi skrif þar sem þau hófust, í bíósætinu í Bifröst. Þar sem greint hefur verið frá að núverandi rekstraraðilar hússins, Sigurbjörn, Bára og fjölskylda, muni ekki endurnýja samning sinn um áramót, langar mig að nota tækifærið og þakka þeim fyrir ómetanlegt framlag í þágu skagfirskrar menningar. Ég hef notið ófárra gleðistunda í Bifröst síðustu áratugi og vona að þær verði enn fleiri.

Kristín Sigurrós Einarsdóttir

 

Ömmustelpan Heiðrún Emma hittir einn af leikurunum í sýningunni, Emmu Dallilju sem leikur Helgu.

Fleiri fréttir