Rabb-a-babb 200: Guðbjörg Óskars

Fjölskyldan í fótboltaferðalagi í Eyjum. Frá vinstri: Guðbjörg Óskarsdóttir, Óðinn Freyr Gunnarsson, Óskar Logi Gunnarsson, Gunnar Páll Ólafsson, Ómar Þorri Gunnarsson.
Fjölskyldan í fótboltaferðalagi í Eyjum. Frá vinstri: Guðbjörg Óskarsdóttir, Óðinn Freyr Gunnarsson, Óskar Logi Gunnarsson, Gunnar Páll Ólafsson, Ómar Þorri Gunnarsson.

Nafn: Guðbjörg Óskarsdóttir.
Árgangur: 1983.
Fjölskylduhagir: Gift Gunnari Páli Ólafssyni og saman eigum við þrjá stráka, Óskar Loga, Óðin Frey og Ómar Þorra.
Búseta: Sauðárkrókur.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Faðir minn hét Óskar Stefán Óskarsson og var slökkviðliðsstjóri á Sauðárkróki, móðir mín heitir Olga Alexandersdóttir. Fyrstu níu árin bjó ég í Innri-Njarðvík en hef búið á Sauðárkróki frá þeim tíma.
Starf / nám: Sérfræðingur á Fyrirtækjasviði hjá Byggðastofnun.
Hvað er í deiglunni: Fótboltamót – bæði krakkamótin hér heima á Krók og með strákunum mínum. Ég hef verið að undirbúa Steinullarmótið og Króksmótið síðustu vikur og er ný komin af Norðurálsmótinu á Akranesinu með miðjustrákinn og var að koma af Orkumótinu í Vestmannaeyjum með þessum elsta.

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Ég held að það hafi farið voða lítið fyrir mér, svona rólegur meðalnemandi myndi ég segja.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Fram að fermingardeginum mínum þá hafði ekki verið til geilsaspilari á heimilinu, ég hlustaði því bara á vinyl og kasettur sem þótti heldur hallærislegt á þeim tíma. Ég var því himinlifandi að fá loks geislaspilara og diskurinn Drullumall með Botnleðju átti heiðurinn af því að hljóma fyrstur á heimilinu. Ég af-fermdist síðan nokkrum árum seinna og reyndi að skila gömlu græjunum og túbusjónvarpinu en eihverra hluta vegna gekk það ekki.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Þegar ég bjó í Njarðvíkunum lá beinast við að vilja verða flugfreyja. Seinna tók ég þó stefnuna á heilaskurðlækningar sem gekk þó ekki eftir einhverra hluta vegna.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Barbí en svo var alltaf gaman að drullumalla, það var fátt eins skemmtilegt og að henda í nokkrar drullukökur.

Besti ilmurinn? Af blómagarði rétt eftir rigningu

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Uppi á golfvelli í desember 1999. Við höfum þó hvorugt spilað golf en þarna var ég farþegi í bíl sem festi sig og Gunni kom til bjargar.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Heimaskrifaðir geilsadiskar vinkonu minnar sem fengu nöfn eins og “Pottþétt vinkona” eða “Pjúra píkupopp” innihéldu öll bestu lög þess tíma. Britney Spears átti þau mörg en þar voru líka lög eins og Mysterous girl, Smooth criminal og fleiri sem maður þarf nú að fara að rifja upp.

Hvernig slakarðu á? Með kaldan í pottinum og hljóðbók á fóninum.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi mjög takmarkað á sjónvarpið en umbreytist í júróvisjon-bullu einu sinni á ári.

Besta bíómyndin? Þar er sama sagan, ég horfi ekki heldur mikið á bíómyndir, hef einfaldlega ekki næga þolinmæði í það.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Sonum mínum, hefði aldrei trúað því að ég myndi hafa gaman að því að horfa á fótbolta þar til börnin mín fóru að stunda þá íþrótt.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ætli ég sé ekki best í að finna hluti, jahh nema mína eigin hluti, finn þá yfirleitt ekki.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég held að fáum hafi tekist jafn oft og snilldarlega og mér að brenna mig. Hef til að mynda brennt á mér tærnar við að sjóða pylsur og andlitið við að útbúa brauð.

Hættulegasta helgarnammið? Er til eitthvað sem heitir helgarnammi? Súkkulaði á í það minnsta við alla daga

Hvernig er eggið best? Egg eru alltaf góð nema hrá, jahh nema súkkulaðiegg, þau eru best óelduð.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvað ég treð alltaf á mig verkefnum, er oftast með aðeins of mörg járn í eldinum.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki og fólk sem tekur ekki þátt í samfélaginu, sérstaklega í minni samfélögum eins og hér á Sauðárkróki, við þurfum öll að láta eitthvað af okkur leiða.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Ekki trúa öllu sem þú hugsar.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar við pabbi fórum saman í útilegu og veiðiferð stuttu eftir að systir mín fæddist. Þar veiddi ég fyrsta fiskinn minn og við áttum gæðastundir saman.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ætli ég myndi ekki breytast í Putin eða Kim Jon un og eyða deginum í að endurskrifa lög og reglur….

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ragnar Jónasson, Viveca Sten, Camilla Låckberg og B.A. Paris eru efst á lista núna. Ég hlusta mikið á hljóðbækur og mér þykir voða gott að hlusta á Þórunni Ernu Clausen og Þorvald Davíð þannig að ég elti þau stundum í því sem þau lesa.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ekkert sérstakt en ég mætti minnka blótsyrðin.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? 
Stelpukvöld með Rachel, Monicu og Phoebe (allar í karakter) hljómar vel.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Það er auðvitað hellingur sem maður myndi vilja breyta með tímaflakki en ég held að það sé betra að horfa fram á við og læra af reynslunni

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? „Hvað var ég aftur að fara að gera?”

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... í eitthvað lítið sveitaþorp á Ítalíu

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Ferðast til allra heimsálfanna, læra nýtt tungumál og fara í fallhífarstökk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir