Borgari á launum :: Leiðari Feykis

Árið 1797 lagði heimspekingurinn og rithöfundurinn Thomas Paine fram hugmyndir sínar um borgaralaun í bæklingnum „Agrarian Justice“.
Árið 1797 lagði heimspekingurinn og rithöfundurinn Thomas Paine fram hugmyndir sínar um borgaralaun í bæklingnum „Agrarian Justice“.

Þegar þessi pistill er í smíðum er að minnsta kosti 15 stiga hiti úti og líklega besta veður sumarsins hingað til. Það er nú ekki fallegt að bölva góðu veðri en ég nefndi það við prentarann að þetta væri alveg glatað að sitja inni á skrifstofu og rembast við að klára blaðið þegar hægt væri að vera á borgaralaunum eins og Píratar hafa hafa gert að tillögu sinni og lagt fram þingsályktun á Alþingi og notið blíðunnar úti.

En hver á þá að skrifa blaðið, setja það upp, prenta eða dreifa, ef allir hugsuðu líkt og ritstjórinn? Og hvernig virkar þetta eiginlega? „Skilyrðislaus grunnframfærsla – eða borgaralaun – greiðist af ríkinu til allra borgara óháð búsetu, stöðu heimilis, aldri, tekjum og án kröfu um að einstaklingur hafi verið í vinnu eða sé viljugur að taka þá vinnu sem býðst. Þessi hugmynd gjörbyltir þeirri félagslegu stefnu sem viðtekin er í velferðarríkjum þar sem grunnframfærsla er bundin ákveðnum, misströngum skilyrðum sem þarf að hafa virkt og afar kostnaðarsamt eftirlit með,“ segir m.a. í grein Halldóru Mogensen, formanns þingflokks Pírata á heimasíðu flokksins.

Hugmyndin að borgaralaunum er ekki ný af nálinni og má lesa það á WikiPedia að hún eigi sér reyndar mjög langa sögu innan heimspekinnar og hagfræðinnar en upphafið má rekja til ársins 1516 þegar enski heimspekingurinn og lögfræðingurinn Thomas More skrifaði bókina Útópíu. Í þeirri bók lýsir More hugmynd sinni að eins konar fyrirmyndarsamfélagi þar sem áhersla er lögð á að fyrirbyggja glæpi með útrýmingu fátæktar frekar en að notast við refsikerfi í samfélagi þar sem beinlínis er stuðlað að glæpum með gífurlegum ójöfnuði. More bendir á að þar sem maður sem er að verða hungurmorða lætur ekki hugsanlega refsingu stöðva sig í því að stela til að fæða sig og fjölskyldu sína, væri farsælla að skapa samfélag þar sem enginn væri neyddur til þess að stela sér til matar. Í gegnum árin hafa margir hugsuðir tekið hugmyndir Thomas More og þróað þær áfram í nútímalegri mynd.“

Finnar ákváðu að fara í tveggja ára tilraunaverkefni um borgaralaun sem hófst í byrjun árs 2017 og í frétt á Mbl.is segir í maí 2020 að þeim sem þáðu borgaralaun þar í landi hafi liðið betur og þau hvöttu fólk til að leita sér að vinnu. Tvö þúsund atvinnulausir Finnar tóku þátt.

Þrátt fyrir þessi tíðindi töldu Finnar að tilraunin hafi misheppnast og létu kyrrt liggja eftir að tilrauninni lauk og tóku aftur upp fyrra velferðarkerfi, líklega talið þetta frekar vera þorparalaun.

Samkvæmt áreiðanlegri spá Veðurstofunnar gengur í stífa norðanátt á sunnudag með slyddu norðantil, og hratt kólnandi veður. Þá er nú gott að vera í þægilegri innivinnu

Góðar stundir.
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir