Margrét Katrín Guttormsdóttir ráðin verkefnisstjóri TextílLabs
Nýr starfsmaður, Margrét Katrín Guttormsdóttir, tekur til starfa hjá Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi sem verkefnisstjóri TextílLabs þann 1. október. Samkvæmt tilkynningu frá Textílmiðstöð flytur hún úr borginni á Blönduós til að leggja sitt af mörkun við uppbyggingu og þróun hjá Textílmiðstöðinni.
„Margrét Katrín lauk námi í vöruhönnun síðastliðið vor af hönnunarbraut við Listaháskóla Íslands og jafnframt stundaði hún nám í textílhönnun við Myndlistarskólann í Reykjavík. Þar tók hún þátt í verkefninu Nývinnsla í Textíl árið 2019 sem var samstarfsverkefni Textílmiðstöðvar Íslands og Myndlistarskólans í Reykjavík styrkt af Nýsköpunarsjóði Námsmanna og tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Í tengslum við verkefnið sótti hún m.a. námskeið fyrir TC2 stafrænan vefstól og kynntist um leið starfsemi Textílmiðstöðvarinnar. Við hlökkum til að vinna með Margréti og bjóðum hana velkomna til starfa!“