Umhverfisakademía? Hvað er það? :: Einar Kristján Jónsson skrifar

Í tengslum við sameiningarviðræður Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps hefur verið hrundið af stað verkefni til undirbúnings stofnunar umhverfisakademíu á Húnavöllum með fyrirhuguðum stuðningi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Hugmyndin hafði áður verið rædd í tengslum við sameiningarviðræður sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu.

Starfshópur sem skipaður var í nóvember 2021 skilaði nýlega af sér skýrslu þar sem niðurstaðan er að stofnun umhverfisakademíu á Húnavöllum sé vænlegur kostur fyrir sveitarfélögin sem að sameiningarviðræðunum standa. Ekkert nám í umhverfisfræðum er í boði á framhaldsskólastigi á Íslandi þótt víða sé hægt að finna greinar á sviði umhverfisfræða í námskrám háskólanna. Umhverfisakademían myndi því fylla í eyðu í skólakerfinu á sviði sem ætti að vera eftirspurn eftir. Góð aðstaða er fyrir starfsemina á Húnavöllum. Verði af sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps má gera ráð fyrir að nýr grunnskóli verði stofnaður og kennt verði á Blönduósi eftir árið 2024. Að síðustu horfði starfshópurinn til þess að í tengslum við undirbúning sameiningar ættu að vera sóknarfæri til að afla stuðnings ríkisins við nýjar og áhugaverðar hugmyndir og fá fjárhagslegan og pólitískan stuðning til að hrinda þeim í framkvæmd.

Umhverfisakademían er hugsuð sem lýðskóli, en með því er átt við skóla fyrir 18 ára og eldri sem hefur það að markmiði að veita almenna menntun og uppfræðslu og undirbúa nemendur fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Nám í skólanum er ekki metið til eininga, en getur orðið nemendum til framdráttar í frekara námi eða starfi. Starfsemi skólans þarf að uppfylla ýmis skilyrði til að hljóta viðurkenningu fræðsluyfirvalda, s.s skilyrði um húsnæðisaðstöðu, menntun skólastjórnenda og viðurkennda starfshætti. Starfstími með nemendum í Lýðskóla á að lágmarki vera 12 vikur á skólaárinu og gert er ráð fyrir að nemendur myndu búa á staðnum á námstímanum. Starfsemin gæti því fallið vel að rekstri ferðaþjónustu á Húnavöllum utan háannatímans.

Skóli fyrir eldri nemendur en grunnskóla hefur ótvíræða kosti fyrir héraðið allt. Með rekstri skóla á framhaldsskólastigi felast ótal tækifæri eins og sannast hefur með tilkomu dreifnáms FNV í A-Hún. Nýting fasteigna sem að öðrum kosti myndu vera í takmörkuðum notum nema sem hótel er ótvíræður kostur. Með umhverfisnámi getur A-Hún markað sér ákveðna sérstöðu á sviði umhverfismála og skapað sér jákvætt orðspor sem gæti leitt til meiri áhuga til búsetu í héraðinu.

Einar Kristján Jónsson,
sveitarstjóri Húnavatnshrepps og formaður starfshóps um stofnun umhverfisakademíu að Húnavöllum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir