Ætli ég myndi ekki byrja að kveikja á Herra Hnetusmjör / ANNA LÓA

Anna Lóa mundar nikkuna. AÐSEND MYND
Anna Lóa mundar nikkuna. AÐSEND MYND

Það er Anna Lóa Guðmundsdóttir (1988) sem svarar Tón-lystinni að þessu sinni. Hún býr í Hafnarfirðinum (fagra) um þessar mundir en er nánast hreinræktaður Skagfirðingur, dóttir Guðmundar Sveinssonar og Auðar Steingrímsdóttur hrossaræktenda með meiru. Starf Önnu Lóu felst í því að svæfa fólk í Fossvogi en hún er svæfingahjúkrunarfræðingur. 

Anna Lóa segist spila og gítar og hljómborð en bætir við: „Fékk harmonikku í þrítugsafmælisgjöf frá betri helmingnum, stefni á að verða „ættarmótsfær“ á hana.“ Hún segir helsta afrek sitt á tónlistarsviðinu hafa verið að taka þátt í uppsetningu á Jesus Christ Superstar „...sem við árgangurinn settum upp í 10. bekk, sælla minninga.“ Þá má geta þess að Anna Lóa er bróðurdóttir skagfirsku Eurovision-hetjunnar, Óskars Páls, sem samdi Is It True sem Jóhanna Guðrún söng svo eftirminnilega í Moskvu.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Síðasta lag sem ég kveikti á var lagið Enginn eins og þú með tónlistarmanni sem kallar sig Auður.

Uppáhalds tónlistartímabil? Öll tímbil hafa sinn sjarma.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Mikið af íslensku ungu tónlistarfólki sem er að gera góða hluti. Annars er ég voða mikið hrifin af einföldu núna, góður kassagítar og söngur.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var mikil tónlistarmenning á mínu heimili og er ég þakklát foreldrum mínum fyrir að hafa kynnt mig fyrir allskonar tónlist.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Það var diskur með Ellý Vilhjálms, ætli ég hafi ekki verið 9-10 ára. Á ennþá alla diskana sem hafa verið gefnir út með henni

Hvaða græjur varstu þá með? Fyrstu alvöru græjurnar voru Sony græjur frá afa.

Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Bohemian Rhapsody með Queen. Besta lag sem hefur verið samið!

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Eina lagið sem ég hef aldrei þolað er lagið Eyjafjallajökull sem var í undankeppni Eurovision eitthvert árið. 

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ætli ég myndi ekki byrja að kveikja á Herra Hnetusmjör.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Einhverja góða acoustic tónlist, Sara Bareilles kemur þar sterk inn. 

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég myndi fara á tónleika með Elton John, tæki Heiðu mína með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf?  My Chemical Romance, KT Tunstall, Lauryn Hill og  Avril Lavigne

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Allar þessar frábæru söngkonur með kassagítar, finnst fátt flottara en það.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Það er ekki hægt að velja bestu plötuna en þær sem koma fyrst upp í hugann eru The Miseduction of Lauryn Hill og Neil Young – The Best Of. 

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
When I’m Alone  - Lissie
Landslide – Fleetwood Mac
Goodbye Yellow Brick Road – Elton John en í flutningi Sara Bareilles
Chandelier – Sia
Love me like you do – Ellie Goulding
Perfect – Ed Sheeran

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir