Aðventan og JólaFeykir framundan | Leiðari 45. tölublaðs Feykis

Strákarnir í WHAM! voru alltaf hressir og kátir. Þeir skreyta enn jólin okkar með jólalaginu sem George samdi á meðan Andy horfði á sjónvarpið. MYND AF NETINU
Strákarnir í WHAM! voru alltaf hressir og kátir. Þeir skreyta enn jólin okkar með jólalaginu sem George samdi á meðan Andy horfði á sjónvarpið. MYND AF NETINU

Árið hefur flogið hjá á ógnarhraða og nú þegar 45. tölublað Feykis kemur út eru rétt tæpar fjórar vikur til jóla. Nú er það auðvitað þannig að margir þurfa að keyra sig í jólagírinn löngu áður en aðventan hefst eins og t.d. kaupmenn og verslunarfólk. Þannig er það líka á Feyki.

Undirritaður fór að nefna útgáfu JólaFeykis, sem berst til áskrifenda í næstu viku, við samstarfsfólkið seinni partinn í september. Ekki virtist það nú kæta mannskapinn sem bað mig að vera rólegan. Sem ég auðvitað gerði því ekki vil ég raska ró þessara kjarnorkukvenna sem starfa með mér. Það var síðan tekinn óformlegur fundur um síðustu mánaðamót þar sem hugmyndir voru settar fram varðandi efni og verkefnum skipt milli okkar en JólaFeykir er mikið samvinnuverkefni okkar fjögurra starfsmanna Nýprents.

Að venju var planið þannig að síðasta blað fyrir JólaFeyki yrði átta blaðsíður svo við gætum einbeitt okkur að jólablaðinu. Það er líka venjan að þetta plan fer fljótt út um gluggann því Feykir á það til að fyllast af efni fyrirvaralaust. Það er bara alltaf eitthvað sem kemur upp í hendurnar á okkur, sem er auðvitað lúxusvandamál, en á bak við allar greinar og viðtöl liggur talsverð vinna. Svekkelsið liggur helst í því að geta ekki sinnt fleiri verkefnum en það eru bara visst margir tímar í sólarhringnum – 24 hjá flestum að minnsta kosti.

Fjölmiðlafulltrúi Trumps sagði reyndar um daginn að Trump væri að vinna fyrir þjóðina allan daginn, alla daga, 20 tíma á sólarhring. Margt skrítið fyrir vestan.

Eitt af því sem fylgir útgáfu JólaFeykis er að um leið og viðtöl eru unnin og uppsetning hefst þá skelli ég jólalagalistunum í gang í tölvunni. Það eru auðvitað ekkert allir hrifnir af því enda finnst sumum það synd að byrja á jólatónlistinni fyrir desember. En ég viðurkenni að ég elska jólalög og þeim fylgir oft á tíðum róandi andi.

Svo er það nú þannig að tímarnir breytast. Mér finnst eins og að þegar ég var krakki þá skreytti enginn fyrr en í fyrsta lagi um miðjan desember en nú er jafnvel farið að skreyta fyrir miðjan nóvember og þá kannski aðallega með jólaljósum. Í gamla daga (!) biðu margir spenntir eftir því að sjá hversu margar seríur Gunna Hreinsa kæmi í gluggana hjá sér og sömuleiðis var hraustlega tekið á því í ljósagleðinni á Stöðinni. Í mínu hálfdanska uppeldi voru seríur ekki til siðs nema á jólatrénu sem var aldrei sett upp fyrr en á þorláksmessukvöldi en stóð fram á þrettándann.

Og fyrstu jólaplöturnar sem ég man eftir voru Jólastjörnur Gunna Þórðar þar sem strákarnir í Ríó Tríó sungu um Jón okkar granna og Glámur og Skrámur plötuðu jólasveininn. Síðar tók plata Brunaliðsins, Með eld í hjarta, við sem jólaplatan en hún var stútfull af stöffi sem nú teljast til klassískra íslenskra jólalaga. Þar má nefna Yfir fannhvíta jörð, Lítið jólalag, Einmana á jólanótt og Náin kynni. Svo er jólaföndrið í Gagganum 1984 brennimerkt á sálina en á meðan kreppappírinn var tekinn til kostanna var nýjasti jólasmellurinn, Last Christmas með Wham!, spilað fram og til baka í kassettutækinu. Já, og er enn spilað fram og til baka en í öðruvísi græjum.

Gúdd tæms – góðar minningar!

Óli Arnar Brynjarsson, ritstjóri

Fleiri fréttir