Af kynbótum :: Áskorandapenninn Ármann Pétursson Neðri-Torfustöðum í Húnaþingi vestra

Ég vil byrja á því að þakka Elísabetu fyrir þessa brýningu á mikilvægi þess að velja barninu nafn sem er til þess fallið að dóttir bóndans hinum megin við ána geti loks varpað öndinni léttar.

Hreint út sagt þá veit ég þó alls ekkert hvað barnið á að heita. Þó hafa nöfn eins og Smyrill, Valur, Lómur og Skúmur leitað á hugann undanfarið. Ekki vegna þess að mér sé í mun að valda fjaðrafoki á mínu heimili eða að láta hana Elísabetu standa á öndinni, en af einhverjum ástæðum, sem mér eru ókunnar, virðast byggyrki úr smiðju Jónatans Hermannssonar ekki fá önnur nöfn en fuglsnöfn.
En nóg um það, á meðan yrkin heita ekki gæs eða álft kvarta ég ekki.

Bændur þekkja allir mikilvægi kynbóta og hafa þeir eldri séð umtalsverðan afrakstur ræktunarstarfs síðustu áratuga, bæði á búfé og nytjaplöntum. Aðferðirnar hafa verið fjölbreyttar, afurðamælingar, ómskoðanir, útlimamælingar o.s.frv. Öll þessi vinna hefur skilað auknum afurðum, betra sköpulagi og líklega fallegri gripum. Nú mega nautgriparæktendur líklega vænta einhverra mestu framfara sem orðið hafa í nautgriparækt hér á landi með innleiðingu erfðamengisúrvals. Það er nútímaleg og mjög skilvirk aðferð til kynbóta sem hefur sannað gildi sitt víða um heim.

Með það í huga hvað svo til einn maður hefur náð miklum framförum í kynbótum nytjaplantna með hefðbundnum aðferðum síðastliðna áratugi ættu bændur að velta fyrir sér hvaða árangri mætti ná ef blásið væri til stórsóknar í kynbótastarfi nytjaplantna. Það væri til að mynda bylting fyrir sveitirnar og landsmenn alla ef hægt væri að auka uppskeruöryggi í byggrækt sem og annarri kornrækt. Magn og gæði uppskeru gætu farið úr því að vera afleit í verstu árum og góð í þeim bestu í að vera viðunandi í verstu árum og frábær í þeim bestu.

Ég skora á Þorgrím Guðna Björnsson, íþróttafræðing að koma með pistil í Feyki.

Áður birst í 35. tbl.  Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir