Áramótabrennur og flugeldasýningar á Norðurlandi vestra

MYND AF PEXELS.COM
MYND AF PEXELS.COM

Gamlársdagur er á morgun og það má reikna með að margur hugsi sér gott til glóðarinnar og fíri upp flugeldum af miklum móð. Björgunarsveitirnar eru með sölu á slíkum varningi víðast hvar á þéttbýlisstöðum – ef ekki hreinlega öllum. Engir eru snjóskaflarnir til að stinga flugeldunum í áður en þeim er skotið á loft en það er jákvætt að útlit er fyrir skaplegt veður annað kvöld.

Norðanvindur verður framan af degi en þegar myrkrið færist yfir á ný lægir og má reikna með breytilegri átt á Norðurlandi vestra, 2-5 m/sek. Það kólnar þegar líður að helgi en áfram er spáð hægum vindi.

Áramótabrennur og flugeldasýningar

Að sjálfsögðu verða brennur og flugeldasýningar um víðan völl; áramótabrenna verður á Móhól ofan við Hofsós og hefst kl. 17:00. Flugeldasýning hefst 17:30. Á Hólum í Hjaltadal verður áramótabrenna kl. 20:30 og á slaginu 21:00 hefst flugeldasýning. Í Varmahlíð verður flugeldasýning á túninu neðan Varmahlíðar kl. 17:00. Á Sauðárkróki verður síðan áramótabrennan sunnan við leikskólann Ársali kl. 20:30 en flugeldasýningin hefst kl. 21:15.

Í Húnaþingi vestra verður flugeldasýning björgunarsveitarinnar Húna við Hvammstangahöfn á milli kl. 21 og 22 á gamlárskvöld. Þar verður síðan þrettándabrenna á nýju ári.

Í Húnabyggð verður áramótabrenna og flugeldasýning uppi á Miðholti á Blönduósi sem Björgunarfélagið Blanda annast. Kveikt verður í brennunni kl. 20:30 og hefst flugeldasýningin skömmu síðar.

Þá hefur Feykir upplýsingar um að brenna og flugeldasýning verður á Skagaströnd.

Fleiri fréttir