Ágrip af sögu Lionsklúbb Sauðárkróks í 60 ár

Fyrsta stjórn Lionsklúbb Sauðárkróks 1964.MYND AÐSEND
Fyrsta stjórn Lionsklúbb Sauðárkróks 1964.MYND AÐSEND

Lionsklúbbur Sauðárkróks varð 60 ára 20. nóvember 2024

Þegar fara á yfir sögu Lionsklúbb Sauðárkróks s.l. 60 árin er af mörgu að taka og erfitt að velja og hafna. Á þessu tímamótum er fjöldi starfsfunda að nálgast 1000 og margt hefur drifið á daga klúbbsins á þessum tíma. Hér verður aðeins stiklað á stóru í þessu ágripi bæði í máli og myndum. Samkvæmt heimildum hafa 142 menn gengið í klúbbinn frá stofnun hans. Einn stofnfélagi hefur verið alla tíð í klúbbnum, hann Ingvar Gýgjar Jónsson, og það hlýtur að teljast einstakt. Í dag er 37 félagar skráðir í Lionsklúbb Sauðárkróks. Þegar best lét voru 53 félagar skráðir í klúbbnum, í maí 1994. En vindum okkur í upphafsár klúbbsins.

Það var miðvikudaginn 4. nóvember 1964 að það komu saman 20 menn á Hótel Villa Nova og var þar til umræðu að stofna Lionsklúbb á Króknum. Sæmundur Hermannsson og Marteinn Friðriksson og nokkrir aðrir áhugasamir menn áttu mesta frumkvæðið að þessum fundi.

Lionsklúbbur Sauðárkróks var í kjölfarið stofnaður föstudaginn 20. nóv. 1964. Stofnfélagar voru 30. Í fyrstu stjórn voru kosnir þeir Sæmundur Hermannsson, Marteinn Friðriksson og Bragi Jósafatsson. Marteinn sagði á stofnfundinum að tilgangur með stofnun klúbbsins væri að menn kæmu saman að skemmta sér og að láta gott af sér leiða í mannúðar- og menningarmálum. Las síðan upp markmið og siðareglur Lionshreyfingarinnar.

Á fyrstu 35-40 árunum voru starfsfundir haldnir á föstudagskvöldum. Þeir voru síðan færðir yfir á miðvikudagkvöld og er það fyrirkomulag enn við lýði í dag. Fyrstu starfsfundirnir fóru í að móta klúbbinn og ræða hugsanlegar fjáraflanir og finna verkefni við hæfi. Ákveðið var að funda tvisvar í mánuði yfir vetrartímann. Það leið ekki að löngu að Lionsmenn létu fljótt að sér kveða í menningar og mannúðarmálum. Þennan fyrsta vetur var lagður grunnur að fundarsköpum og hefðum sem hafa fylgt félagsstarfi klúbbsins alla tíð. Ein af þeim er að hefja fund alltaf með söngi. Fyrsta fjáröflunin var 100.00 krónur framlag hvers félaga til gróðurverndar í Sauðárkróksbæ haustið 1964. Fyrsta sjálfboðaliðastarfið var að hreinsa rusl í bænum og fjörunni. Árið 1965 var aðal fjáröflunin það árið miðasala á landsmóti hestamanna á Hólum -Settur var upp ljósabúnaður í sjálfboðavinnu í kirkjugarðinum og afhentur sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju. Klúbburinn var þegar farinn að leggja lið til nærsamfélagsins.
 

Árið 1966- var fyrsta perusalan undirbúin og var hún framvegis árviss fjáröflun í meira en 50 ár. Fjáraflanir hafa verið margskonar hjá klúbbnum frá upphafi. Haldnar voru tombólur, áður nefnd perusala , dragnótaveiðar frá árunum 1969 – 1973. Landanir úr togarum Útgerðarfélags Skagfirðinga 1973 - 1974. Unnið var að mála togara fyrir Útgerðarfélagi Skagfirðinga, Hegranes, Skafta og Drangey á árunum 1975-1977. Félagar unnu u.þ.b. 600 vinnustundir í hverjum og einum togara fyrir sig og var málningarvinnan gríðarlega góð fjáröflun fyrir klúbbinn. Hellulagnir og málningarvinna komu svo síðar. Á þessum tíma var skíðalyfta keypt og gefin UMFT og sett upp á Laxárdalsheiði. Á næstu árum fóru langflestu framlögin frá klúbbnum til Sjúkrahússins á Sauðárkróki og björgunarsveitanna í Skagafirði og hefur það verið gegnumgangandi í sögu klúbbsins. Árið 1974 var björgunarsveitinni afhentur snjóbíll.

Árið 1985 stóð klúbburinn fyrir söfnun á kaupum á 25 sjúkrarúmum fyrir dvalarheimili aldraða við sjúkrahúsið svo eitthvað sé nefnt. . Girðingarvinna og uppsetning sýningarpalls vegna þjóðhátíðar á Hólum var þó nokkuð stór fjáröflun. Árið 1974 var fyrsta landsöfnunarátakið undir heitinu: Rauða fjöðrin og hafa þær verið á 3 til 4 ára fresti eftir það. Lionsklúbburinn stóð fyrir barnaballi í mörg ár og hélt áramótadansleiki sem fjáröflun.

Árið 1994 var gefið út Lionsblað, 1600 eintök – 30 ára saga Lionsklúbbs Sauðárkróks í máli og myndum. Stefán Pedersen var ritstjóri og auglýsingar dugðu fyrir kostnaði og gott betur, 400 þús. krónur afrakstur af blaðinu voru gefnar í byggingu endurhæfingarsundlaug við heilbrigðisstofnunina.'

Lionskvöldin líða fljótt,

leika bros um kinnar.

Hlaupa má ég harla skjótt,

heim til konu minnar.

Fleiri fréttir