Ágrip af sögu Lionsklúbb Sauðárkróks í 60 ár
Lionsklúbbur Sauðárkróks varð 60 ára 20. nóvember 2024
Þegar fara á yfir sögu Lionsklúbb Sauðárkróks s.l. 60 árin er af mörgu að taka og erfitt að velja og hafna. Á þessu tímamótum er fjöldi starfsfunda að nálgast 1000 og margt hefur drifið á daga klúbbsins á þessum tíma. Hér verður aðeins stiklað á stóru í þessu ágripi bæði í máli og myndum. Samkvæmt heimildum hafa 142 menn gengið í klúbbinn frá stofnun hans. Einn stofnfélagi hefur verið alla tíð í klúbbnum, hann Ingvar Gýgjar Jónsson, og það hlýtur að teljast einstakt. Í dag er 37 félagar skráðir í Lionsklúbb Sauðárkróks. Þegar best lét voru 53 félagar skráðir í klúbbnum, í maí 1994. En vindum okkur í upphafsár klúbbsins.
Það var miðvikudaginn 4. nóvember 1964 að það komu saman 20 menn á Hótel Villa Nova og var þar til umræðu að stofna Lionsklúbb á Króknum. Sæmundur Hermannsson og Marteinn Friðriksson og nokkrir aðrir áhugasamir menn áttu mesta frumkvæðið að þessum fundi.
Lionsklúbbur Sauðárkróks var í kjölfarið stofnaður föstudaginn 20. nóv. 1964. Stofnfélagar voru 30. Í fyrstu stjórn voru kosnir þeir Sæmundur Hermannsson, Marteinn Friðriksson og Bragi Jósafatsson. Marteinn sagði á stofnfundinum að tilgangur með stofnun klúbbsins væri að menn kæmu saman að skemmta sér og að láta gott af sér leiða í mannúðar- og menningarmálum. Las síðan upp markmið og siðareglur Lionshreyfingarinnar.
Árið 1966- var fyrsta perusalan undirbúin og var hún framvegis árviss fjáröflun í meira en 50 ár. Fjáraflanir hafa verið margskonar hjá klúbbnum frá upphafi. Haldnar voru tombólur, áður nefnd perusala , dragnótaveiðar frá árunum 1969 – 1973. Landanir úr togarum Útgerðarfélags Skagfirðinga 1973 - 1974. Unnið var að mála togara fyrir Útgerðarfélagi Skagfirðinga, Hegranes, Skafta og Drangey á árunum 1975-1977. Félagar unnu u.þ.b. 600 vinnustundir í hverjum og einum togara fyrir sig og var málningarvinnan gríðarlega góð fjáröflun fyrir klúbbinn. Hellulagnir og málningarvinna komu svo síðar. Á þessum tíma var skíðalyfta keypt og gefin UMFT og sett upp á Laxárdalsheiði. Á næstu árum fóru langflestu framlögin frá klúbbnum til Sjúkrahússins á Sauðárkróki og björgunarsveitanna í Skagafirði og hefur það verið gegnumgangandi í sögu klúbbsins. Árið 1974 var björgunarsveitinni afhentur snjóbíll.
Árið 1985 stóð klúbburinn fyrir söfnun á kaupum á 25 sjúkrarúmum fyrir dvalarheimili aldraða við sjúkrahúsið svo eitthvað sé nefnt. . Girðingarvinna og uppsetning sýningarpalls vegna þjóðhátíðar á Hólum var þó nokkuð stór fjáröflun. Árið 1974 var fyrsta landsöfnunarátakið undir heitinu: Rauða fjöðrin og hafa þær verið á 3 til 4 ára fresti eftir það. Lionsklúbburinn stóð fyrir barnaballi í mörg ár og hélt áramótadansleiki sem fjáröflun.
Árið 1994 var gefið út Lionsblað, 1600 eintök – 30 ára saga Lionsklúbbs Sauðárkróks í máli og myndum. Stefán Pedersen var ritstjóri og auglýsingar dugðu fyrir kostnaði og gott betur, 400 þús. krónur afrakstur af blaðinu voru gefnar í byggingu endurhæfingarsundlaug við heilbrigðisstofnunina.'
Lionskvöldin líða fljótt,
leika bros um kinnar.
Hlaupa má ég harla skjótt,
heim til konu minnar.