Skældi yfir lögum söngkonunnar Carrie Underwood / HREINDÍS YLVA

Það er Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm sem svarar lipurlega Tón-lystinni að þessu sinni. Hún er alin upp í Mosfellsdal, dóttir Huldu Jónasar sem er frá Sauðárkróki og er dóttir Erlu Gígju og Ninna. Hún er söngkona en spilar einnig á þverflautu, piccolo flautu og gítar.

Spurð um helstu tónlistarafrek sín svarar Hreindís Ylva: „Ætli það beri ekki helst að nefna plötuna mína sem kom út 2011 og dásamlegu lögin tvö sem ég hef sungið í Söngvakeppni Sjónvarpsins.“ Þá má geta þess að Hreindís Ylva var stúlkan sem komst ekki heim um jólin og brenndi við matinn í jólaauglýsingu Icelandair árið 2014. Hver gat horft ósnortinn á þá auglýsingu?

Hvaða lag varstu að hlusta á? 80s Mercedes – Maren Morris. Get ekki hætt að hlusta á það.

Uppáhalds tónlistartímabil? Ég á ekkert uppáhalds tímabil, kann eiginlega einmitt bara mest að meta það að geta leitað í mismunandi tímabil og hvað þau eru ólík.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég sperri alltaf eyrun þegar mér er boðið að hlusta á nýtt efni frá fólkinu mínu, t.d. hljómsveit bróður míns, Vio, eða vinkonum mínum, en hið minnsta þrjár þeirra eru einmitt að vinna plötur um þessar mundir.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var hlustað á allt frá ABBA til Led Zeppelin og Dolly Parton til Deildarbungubræðra þó svo að íslensk tónlist, dægur, popp og rokk, hafi kannski skipað stærsta sessinn. Bjöggi, Stjórnin, Sálin, Todmobile, Mannakorn og ýmis önnur frábær tónlist náði að smjúga vandlega inn að beini og ég set þetta allt enn í gang í dag og syng hástöfum með.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég man ekki hver sú allra fyrsta var en ég á ofsalega sterka minningu um að kaupa aðra plötu söngkonunnar Carrie Underwood í fríhöfninni og þurfa svo að fela það vel og vandlega á leiðinni út í fríið hvað ég skældi mikið yfir sumum lögunum. Ég var samt orðin unglingur þá og löngu byrjuð að versla tónlist.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég fékk svaka flottar græjur í jólagjöf eitt árið, nokkrum árum fyrir fermingu, þær eru enn til og í fínu lagi.

Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? ‘Eitt lag enn’ með Stjórninni, ‘Blue’ í flutningi LeAnn Rimes og ‘Runaway’ með The Corrs.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Þau eru tvö.‘Country Girl’ með Luke Bryan og ‘Somebody’ með Natalie La Rose og Jeremih – þegar ég heyrði það í fyrsta sinn var ,,Má þetta?” það eina sem ég hafði að segja.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég er með mjög ó-partívænan tónlistarsmekk og kem engum í stuð með mínum lagalista svo ég læt yfirleitt einhvern annan sjá um að velja lög í partíið.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Röddin hans Chris Stapleton er besta leiðin til að vakna á sunnudagsmorgni eða ljúfari hliðin á Zac Brown Band.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég er búin að vera dugleg við að merkja í box á tónleika ,,bucket-listanum” undanfarin ár, og þar standa upp úr t.d. Carole King, Carrie Underwood, The Corrs, LeAnn Rimes, Dixie Chicks og Martina McBride. Ég á samt fullt eftir, t.d. Shania Twain, Dolly Parton, Beyonce, Justin Timberlake og Britney. Fyrir mér skiptir svo mestu að sá sem er með mér fíli tónlistina jafn vel og ég og sé sama þó ég lifi mig svolítið inn í það sem er að gerast og gleymi stund og stað. 

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Í fyrsta bílnum mínum var bara kasettutæki svo ég gerði alskonar mixtape. Flest þeirra innihéldu country og aftur country.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera (eða haft mest áhrif á þig)? Mig hefur aldrei dreymt um að vera nein önnur en ég er en margir haft áhrif, t.d. Karen Carpenter, Carole King, Guðrún Gunnars, Ellen Kristjáns og svo þeir sem ég hef lært hjá og unnið með.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út (eða sú sem skiptir þig mestu máli)? Þetta er eiginlega jafntefli milli Tapestry með Carole King og Jolene með Dolly Parton.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
You’ve Got a Friend – Carole King
Rainy Days and Mondays – The Carpenters
Wide Open Spaces – Dixie Chicks
The House That Built Me – Miranda Lambert
Engill – Regína Ósk
Something in the Water – Carrie Underwood

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir