Borðspil - 1830: Railways & Robber Barons

1830: railways & robber barons er eitt af fjölmörgum spilum í 18xx seríunni og er allajafna notað sem viðmið fyrir önnur spil í seríunni. Spilið gengur út á að græða pening, sem leikmenn gera með því að stofna (og stundum setja á hausinn) lestarfyrirtæki og senda lestir milli borga. En leikmenn þurfa líka að vera klókir á hlutabréfamarkaði spilsins.
18xx spilin virðast oft flókin í fyrstu, en eftir að spila það einu sinni í gegn ætti allt að vera komið á hreint. Þó svo að allar reglur séu komnar á hreint þýðir það ekki að spilið sé einfalt, það er nóg af brellum og klækjum sem lærast með tímanum og fyrir nýliða að spila við reyndan leikmann getur verið ansi strembið. Hver leikur tekur 180 – 360 mínútur.
Spilið er hannað af Francis Tresham og myndskreitt af Mike Atkinson, Jared Blando, Charles Kibler, James Talbot og Mark Zug. 18xx spilin eiga mjög harðan og dyggan aðdáendahóp sem spilar helst ekkert annað, það er þó nóg af fólki sem spilar 18xx spil sem ekki fellur í þann hóp.

Spilið byrjar á því að það er fundið út hver byrjar. Svo er boðið í einkafyrirtæki, sem síðar geta verið keypt inní lestarfyrirtækin. Einkafyrirtæki hafa ýmsa eiginleika, sum þeirra þéna pening í hverri umferð á meðan önnur gefa þér leyfi til að leggja lestarteina á ákveðnum merktum reitum og enn önnur gefa þér hlutabréf í ákveðnu lestarfyrirtæki. Þegar búið er að kaupa öll einkafyrirtækin þá er komið að fyrstu verðbréfaumferðinni, í henni kaupa leikmenn hluti í lestarfyrirtækjum. Til að stofna lestarfyrirtæki þarf að kaupa að minnsta kosti 60% í því, þó einn leikmaður þurfi ekki að eiga öll 60%. Sá leikmaður sem á stærstan hluta í lestarfyrirtæki er forstjóri þess, það getur þó breyst hratt í komandi verðbréfaumferðum, þegar leikmenn kaupa og selja hluti í hinum ýmsu fyrirtækjum.
Þegar verðbréfaumferðinni er lokið er komið að rekstrarumferð og þá eru lagðir lestarteinar, settar niður lestarstöðvar, lestir látnar ganga og lestir keyptar. Þegar lestir fara á milli staða græða þær á þeim stoppistöðvum sem eru á leiðinni og þarf forstjóri þess lestarfyrirtækis að ákveða hvort hann heldur þeim peningi í fyrirtækinu eða borgar hann út til þeirra sem eiga hlutabréf í fyrirtækinu.
Þegar öll lestarfyrirtæki hafa gert er komið aftur að verðbréfaumferð og nú kaupa leikmenn og selja hlutabréf að vild, leikmönnum er þó einungis leyfilegt að kaupa eitt hlutabréf í einu og verða svo að bíða eftir að röðin komi aftur að sér. Þegar kemur að sölu hlutabréfa má leikmaður selja eins mikið af hlutabréfum og hann vill, en þó má aldrei selja forstjórabréfið nema ef annar leikmaður á að minnsta kosti tvö hlutabréf í fyrirtækinu því þá getur hann tekið við forstjórabréfinu sem er jafn mikils virði og tvö venjuleg hlutabréf.
Vert er að taka það fram að leikmaður getur átt hlutabréf í mögum fyrirtækjum án þess að eiga nokkurt forstjórabréf, sem þýðir að sá leikmaður hefur enga stjórn á því sem gerist í rekstarumferðum.
Rekstrar- og verðbréfaumferðir eru endurteknar þar til bankinn springur og þá er sá leikmaður sem á mestan pening sigurvegari.

Leikmenn: 2-7
Ætlað fyrir: 14 ára og eldri
Hönnuður: Francis Tresham
Útgefandi: Avalon Hill
Útgáfuár: 1986 (endurútgefið 2011)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir