Sperrir eyrun yfir Bach / JÓN ÞORSTEINN

Tónlistarneminn Jón Þorsteinn Reynisson býr þessa dagana á Mozartsvegi í Kaupmannahöfn. Hann er fæddur 1988 og segist hafa verið heppinn „...að alast upp í Mýrakoti á Höfðaströnd, sem almennt er talinn fallegasti staður jarðarinnar.“ Harmonika er hljóðfæri Jóns Þorsteins en er líka partýfær á píanó og blokkflautu.

Helstu tónlistarafrek: Yfirleitt lít ég á það sem tónlistarafrek þegar ég er búinn að æfa nýtt verk og flytja það á tónleikum, enda er sú tilfinning frábær. En ef maður hugsar um sérstaka viðburði að þá er það líklega tónleikaferðin sem ég fór um Ísland árið 2012 þar sem ég spilaði 17 tónleika á 14 dögum, sem var mjög sérstök og skemmtileg ferð en tók á bæði líkamlega og andlega. Það að komast inn í Det Kongelige Danske Musikkonservatorium var einnig stórt skref fyrir mig, og þó að ég geti ekki gert upp á milli allra þeirra tónleika sem ég hef spilað að þá voru tónleikar sem ég spilaði í CCOM í Peking í vor mjög sérstakir, enda ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að spila þar.

Uppáhalds tónlistartímabil? Mest af minni uppáhalds tónlist er frá barokk og rómantíska tímabilinu, svo því er líklega auðsvarað. Svo þegar ég vil fá smá refreshment að þá hlusta ég á sjöunda og áttunda áratugs rokk og jazz. 

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ekki margt nýtt sem er að ná mér þessa dagana, en í augnablikinu er ég að æfa Bach svo líklega sperri ég mest eyrun þegar hann fer á fóninn.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Í Mýrakoti var gríðarlega mikið hlustað á Rás 1, og voru yfirleitt a.m.k. 3 útvörp í gangi í einu á báðum hæðum hússins, svo að þar fór ekkert fram hjá manni. Þar fékk maður alla flóruna í tónlist. Svo hefur maður einnig drukkið í sig kirkjutónlistina þar sem að mamma er organisti. Ég á góðar minningar frá því þegar ég sofnaði útfrá spilinu hennar á kvöldin.   

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég held án djóks að fyrsti diskurinn sem ég keypti mér fyrir minn eigin pening hafi verið Pottþétt 97. Það hefur líklega verið þegar ég var gjörsamlega búinn að fá nóg af Rás 1… Ég man hinsvegar fyrst eftir mér nokkrum árum fyrr fá æði fyrir Queen plötu sem var til á heimilinu, og vildi ég óska þess að það hefðu frekar verið mín fyrstu kaup, enda væri það svar töluvert betra.

Hvaða græjur varstu þá með? Mig minnir að Queen platan hafi verið spiluð á gömlum plötuspilara með hvítri marmaraplötu, tengdum í Kenwood magnara með stórum hátölurum. Pottþétt 97 var svo líklega mest spilaður í ferðageislaspilaranum mínum.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Það er mjög breytilegt, og fer allt eftir því hvernig ég vakna áður en ég fór í sturtu. Í morgun var það Bohemian Rhapsody.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Lagið í Stubbunum, klárt mál.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Það er Nína. Ég tók ástfóstri við þetta lag árið sem það var í Eurovision og mínir fyrstu opinberu tónlistargjörningar voru þegar ég stóð upp á kökudós á ganginum heima og söng lagið hástöfum fyrir gesti. Ég fór þó afar frjálslega með textann og snérist hann yfirleitt út í óð um skítadreifara og traktora þegar ég mundi ekki meira. 

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég myndi dúndra gömlu rokkhundunum Jerry Lee Lewis, Elvis Presley og svo Harry Belafonte á fóninn. Ef maður kemst ekki í gírinn við að heyra Whole Lotta Shakin á maður bara að vera heima hjá sér.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Píanótónlist er málið á sunnudagsmorgnum. Chopin, Schumann og Bach láta instant kaffið bragðast mun betur.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ætli ég myndi ekki fara með konunni til Prag af því að það eru gríðarlega flott borg, leigja mér bát með pianói og Krystian Zimmerman og láta hann spila það sem mér dytti í hug á meðan við siglum á Moldá með tékkneskan bjór og steik fyrir framan okkur.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Úff, örugglega mjög margir. Held að það sé best að segja sem minnst um það.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Það er eiginlega ómögulegt að nefna bara eina plötu, og í rauninni ósanngjarnt því að það eru til svo margar plötur sem mér finnst alveg ótrúlega góðar. Ef við tölum um klassíska tónlist að þá verð ég að segja að Glenn Gould að spila Goldberg Variations (seinni útgáfan) er mjög ofarlega á blaði.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi)
Ballade nr.1
- Chopin
Prelude í D dúr - Rachmaninov
Intervention - Arcade fire
Traumerei - Schumann
Ensk svíta í g moll - Bach
Perfect strangers - Deep Purple

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir