Frá Tónlistarskóla Skagafjarðar

Rögnvaldur Valbergsson og Thomas R. Higgersson. Aðsendar myndir.
Rögnvaldur Valbergsson og Thomas R. Higgersson. Aðsendar myndir.

Lokatónleikar og skólaslit Tónlistarskóla Skagafjarðar voru haldnir Í Frímúrarasalnum 20. maí kl.16. Þar komu fram nemendur með fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Þá voru tveir kennarar kvaddir vegna starfsloka, þeir Rögnvaldur Valbergsson, eftir 43 ár í kennslu, og Thomas R. Higgersson, eftir 30 ár við kennslu.

Þá var veitt úr minningarsjóðum Aðalheiðar Erlu Gunnarsdóttur frá Syðra-Vallholti og Jóns Björnssonar frá Hafsteinstöðum. Úr minningarsjóði Aðalheiðar Erlu fengu þær Agla Rut Egilsdóttir og Þórunn Ásdís Fjólmundsdóttir viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Arna Þorsteinsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan námsárangur úr minningarsjóði Jóns Björnssonar.

Þrír nemendur luku stigsprófi í píanóleik tveir í 2. stigi og einn 1. stigi. Agla Rut Egilsdóttir lauk grunnprófi í píanóleik, þá luku einnig þær Arna Þorsteinsdóttir og Þórunn Ásdís Fjólmundsdóttir miðprófi í tónfræðagreinum.

Hljóðfærahringekjan er alveg ný grein innan skólans, en hún byggist á því að nemendur læra undirstöðuatriði á mörg hljóðfæri yfir veturinn. Farið er með þau í gegnum blásturs-, strengja og rythmísk hljóðfæri (slagverk, rafbassa og gítar) á þremur tímabilum yfir veturinn, átta vikur í senn. Kennt er í litlum hópum, þrennt saman í tíma í 30 mínútur, einu sinni í viku. Þá skal geta þess að ný kennslugrein hljóðfærahringekja hentar mjög vel fyrir byrjendur, þar sem þrír nemendur koma saman í tíma og fá kynningu á öllum þeim hljóðfærum sem kennt er á í skólanum.

Alls stunduðu 164 nám við skólann í vetur og voru haldnir fjölmargir tónleikar og tónfundir sem sjá má á meðfylgjandi myndum.

Kveðja Sveinn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir