Gleðigosinn Teitur - Áskorandapenninn Þorsteinn Snær Róbertsson

Þorsteinn Snær Róbertsson heiti ég frá Hvalshöfða. Júlíus bróðir minn skoraði á mig að skrifa pistil og hér læt ég flakka. Það sem mér er efst í huga er smá frásögn um gleðigosann Teit. Hann var rosalega stór og klunnalegur hundur sem færði gleði og hamingju í líf mitt.

Teitur var einstakur karakter sem var óhugnanlegur í útliti en með rosalega lítið hjarta. Þessi stóri hundur var hræddur við fáránlegustu hluti sem maður botnar eiginlega ekki í, en kannski vissi hann eitthvað meira en við. Sem dæmi má nefna þurfti pabbi að útbúa sérstakar stál umgjörð yfir hurðarhúnar á öllum útidyrahurðunum heima. Ástæðan fyrir því var að Teitur átti það til að hoppa á hurðarhúnar og hleypa sér inn þegar það var fullt tungl eða norðurljós úti, því hann var að einhverjum ástæðum mjög hræddur við þau.

Eins og kom fram áður var hann óhugnanlegur í útliti. Mér þótti mjög gaman að sjá þegar ferðamenn snigluðu sér niður á hlað heima en leist þeim ekki á blikuna þegar Teitur birtist. í allmörg skipti ætlaði fólk að stíga út úr bílnum en hætti við þegar gleðigosinn Teitur kom rosalega ánægður að bílnum. Fyrir fólk sem þekkti hann ekki leit hann hreinlega út eins og flökkuhundur. Þrátt fyrir að Teitur var klunnalegar og lúkkaði fyrir að vera svolítið vitlaus, þá var hann mjög greindur hundur. Hann vissi nákvæmlega hvað hann vildi og heyrði bara það sem hann vildi heyra. Sem dæmi má nefna var orðið ,,góðgæti´´ heilagt fyrir honum. Stundum þegar maður reyndi að ná athygli hans með því að kalla nafn hans aftur og aftur með engum viðbrögðum, þurfti einfaldlega bara að segja ,,góðgæti´´ þá varð öll athyglin á manni.

Teitur var í lífi mínu í 13 ár og mér þótti óendalega vænt um hann. Það var mikil sorg fyrir rúmum 2 árum þegar hann fór í móðuna miklu eftir slys á þjóðvegi 1. Ég hugsa til hans á hverjum degi með hlýju í hjarta. Ég gæti skrifað heila bók af sögum um gleiðgosann Teit en ég ætla ekki að hafa þetta lengra.

Ég þakka fyrir mig og skora á móður mína Hafdísi Brynju Þorsteinsdóttir að skrifa næsta pistil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir