Gvendur loki - Byggðasögumoli

Gengið milli bols og höfuðs í bókstaflegum skilningi. Mynd úr Byggðasögu Skagafj.
Gengið milli bols og höfuðs í bókstaflegum skilningi. Mynd úr Byggðasögu Skagafj.

Fáheyrð tíðindi gerðust í Goðdölum árið 1598 sem 11 árum síðar urðu tilefni bréfaskrifta og forboðs frá konungi. Svo segir í Skarðsárannál 1598: ,,Uppgrafinn af Hólamönnum Gvöndur Þorkelsson loki, afstungið höfuðið, síðan brenndur.

Kom það til af því, að sá Guðmundur var gamall orðinn, illorður og leiðendur; vildi eiga hreppsvist í Hjaltadal, en Þorkell Gamlason Hólastaðarráðsmaður var hreppsins forsvar með öðrum hreppstjórum, og náði sagður Gvöndur ekki hreppnum. Hafði hann þá heitingarorð við Þorkel eður hans niðja. Dó svo Loki fram í Skagafjarðardölum, grafinn í Goðdölum.“

Þorkell átti dóttur unga er Sigríður hét. Eftir dauða Loka fékk hún aðsókn og hörmulega ónáðan. Bráði að sögn helst af stúlkunni er séra Arngrímur lærði hafði hana í fangi sér heila nótt, ,,með guðsorðalestri og góðum bænum.“ Nokkru síðar varð það er séra Arngrímur reið leið sína norður tröðina frá staðnum að hestur hans féll og hann sjálfur svo að hann fékk

áverka af steini í andlitið og bar af því ör alla daga síðan. Er mælt að sést hafi sú vonda mynd Loka ganga á hestinn og kollkasta öllu.

Svo mögnuð varð afturganga Gvendar loka að Hólamenn fóru fram í Goðdali og grófu upp líkið af Gvendi loka, tóku það ráð sem ,,í fyrri öldu tíðkað var, að þessir heitingaskálkar

voru uppgrafnir og afhöfðaðir, og skyldi svo sá, sem fyrir hefði orðið, ganga milli bols og höfuðs.“ Mælt er, að stúlkunni hafi batnað eftir þessar aðgerðir, en ,,þessa tiltekju lögðu óvinir Hólamanna þeim til lýta, líka svo herra Guðbrandi [biskupi] sem Þorkeli sjálfum.“

Við lestur þessarar frásagnar verður ljóst hvað þýðir í bókstaflegum skilningi að ganga milli bols og höfuðs á einhverjum.

En nú er allt með felldu í kirkjugarðinum í Goðdölum. Samt eru framliðnir ekki með öllu enn lausir við ónæði í sínum reit. Oddvitinn frá Sveinsstöðum var vanur að slá þennan garð og kannske var hann einmitt að hjakka á leiði Gvendar gamla loka þegar Sigurjón Sveinsson frá Bakkakoti kom þar að og varpaði á hann þessari vísu:

Oddvitinn er eins í flestum greinum,
alla að flá.
Djöflast nú yfir dauðra manna beinum
með dreginn ljá.

Byggðasaga Skagafjarðar 3. bindi bls. 371.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir