Hefur þú öskrað?

Aðalheiður Alenu Jóhannsdóttir. AÐSEND MYND
Aðalheiður Alenu Jóhannsdóttir. AÐSEND MYND

Réttur og geta til mótmæla

Hefurðu tekið þátt í mótmælum?

Verið með skilti og öskrað?

Tekið þátt í samstöðufundum?

Flest svara játandi, enda eiga Íslendingar heimsmet í mótmælum miðað við okkar frægu höfðatölu.Rétturinn til mótmæla er líka sterkur hér og flest fara mótmæli friðsamlega fram.

Núna, næstkomandi laugardag 23. júlí, verður Druslugangan gengin í fyrsta sinn á Sauðárkróki. Gangan fer af stað frá Árskóla klukkan 12:00 (mæting 11:30 og nánari upplýsingar má finna á Facebook). Þema göngunnar á landsvísu þetta árið er; Valdaójafnvægi.

Raddleysi

-Hundsun á röddum- er það sem heldur hópum fólks á jaðri samfélaga. Hvort sem um er að ræða í sögulegu tilliti eða heimsmyndin í dag.

Fólk með annan bakgrunn en Valdið; konur, börn, litað fólk, hinsegin&kynsegin, innflytjendur og svo framvegis. Óþægilegar raddir eru þaggaðar, sér í lagi ef raddirnar vilja tala um misbeitingu valds, innbyggð kerfislæg valdbeiting, ofbeldi og þegar kemur að kynferðisofbeldi þá er þagnarmúrinn nánast ókleifur.

Raddleysi kvenna er svo samofið sögu mannkyns að það er nánast ófrávíkjanleg regla. Það er ekki hægt að rekja þann prjónaskap upp í stuttri grein leikmanns í fræðunum.

En hópurinn sem ég ætla að ræða um er fatlað fólk og þá sérstaklega konur innan þess mengis. Því það er varla til sá hópur sem hefur minna vald yfir eigin lífi.

Hvernig innvafið valdaójafnvægi er normið í ÞJÓNUSTU yfirvalda, það meira að segja er hluti af orðinu yfirVALDA.

Nú og hið ógnvænlega ÞÁ

Flest höfum við séð í fréttum undanfarnar vikur hvernig valdakerfin haf níðst á þessum hópi fólks með „góðan vilja“ að vopni. Hvort sem um er að ræða fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir án upplýsts samþykkis hér á landi eða lykkjumálið á Grænlandi sem danska ríkið stóð fyrir.

Við sjáum fréttir sem þessar og hugsum kannski; „fokk hvað þetta var mikið ógeð í gamla daga!”

En fæst hugsum við lengra. Því það er örugglega ekkert svona í gangi lengur, það er svo gott að búa á Íslandi sko ... (ég reyndi en...) Mér var bent á að oft væri gott að hafa húmor í svona pistli en ég sé ekkert fyndið í þessu.

Eini brandarinn sem kemur upp í hugann: Sagnfræðingur, heimsspekingur og Jesús labba inn á Kaffi Krók...

En aftur að pistlinum. Á sama tíma og við erum að sjá baklsag í réttindamálum, t.d. kvenna og hinsegin fólks, þá erum við bara rétt að byrja að skrapa skítinn ofan af ofríki og ofbeldi gegn fötluðum. Og ég óttast að það verði látið staðar numið. Því þessi mál eru sár, bæði á persónulegan hátt sem og samfélagslegan. Uppgjörin eru hjartaskerandi.

Geturðu tjáð þig með orðum?

Það eru fáir sem hugsa út í það að raddleysið getur verið algjört. Sum okkar geta ekki talað, eru mállaus, hvernig geta þau sagt frá? Mótmælt ofríki og ofbeldi?

Flest þeirra mállausu geta það ekki. Oft á tiðum hafa þau ekkert að segja um líf sitt yfirhöfuð. Ekkert vald.

Og það sem óhugnanlegt er, er að þau sem geta talað geta oft ekki heldur sagt frá.

 

Því. Þau. Kunna. Ekki. Orðin.

 
*Ég á fatlaðan son, hann þarf mikla aðstoð og allt hans líf, 21 ár, höfum við foreldrarnir þurft að treysta ókunnugu fólki fyrir honum, hann talar lítið sem ekkert. Hann hefur okkur vitanlega ekki orðið fyrir alvarlegu ofbeldi.

En hann er heppinn, ekki bara að vera karlkyns, því mun líklegra er að stelpur og konur með fötlun verði fyrir ofbeldi (pælið í því að hugsa „sem betur“ fer er hann ekki kona) heldur líka það að við biðum ekki eftir því að skólinn og kerfin væru tilbúin að veita honum kynfræðslu! Við sáum um það sjálf, sem betur fer!

Því hann fékk enga kynfræðslu í skólakerfinu, hann útskrifaðist úr grunnskóla án þess að fá nokkurs konar fræðslu um heilbrigð sam-skipti, kynheigð, virðingu fyrir sjáfum sér og öðrum.

Af hverju er ég að ræða jafn persónulegt mál og kynfræðslu sonar míns... Því það virðist vera normið að börn og ungmenni með fatlanir fái ekki fræðslu við hæfi.

- Sem veldur því að þau kunna enn síður að setja mörk, vita jafnvel ekki að þau megi/geti sett mörk í kynlífi.
- Þau vita ekki hvað kynlíf getur verið frábært.
- Þau kunna ekki orðin.
- Svo þau geta þar af leiðandi síður sagt hvað þau vilja og hvað þá sagt frá ofbeldi.

Aðalástæðan sem ég held að liggi þarna að baki er feimni samfélagsins í að sjá og viðurkenna kynhvöt fatlaðra, að þau hafi kynhvöt, séu kynverur, að þau séu hinsegin og hvað þá trans!!

Ég hef margoft heyrt af þvinguðu skílífi, drusluskömmun, þvinguðum getnaðarvörnum, af starfsfólki sem kemur inn skömm (jafnvel bara varð-andi sjálfsfróun), ekki vegna þess að þau séu að reyna að vera vond, heldur fær starfsfólk ekki fræðsluna sem til þarf.

Allt þetta samanlagt eykur hættuna á kynferðisofbeldi gegn fötluðum, sérstaklega þeirra sem eru með leggöng. En fatlaðar konur eru í mun meri hættu á að verða þolendur kynferðisofbeldis en nokkur annar hópur. Þau alast upp í skömm þegar kemur að kynlífi, þau fá ekki fræðslu og leiðbeiningar, fræðslu er jafnvel haldið frá þeim.

Allt þetta eykur ekki bara líkurnar á að þessi raddlausi hópur verði fyrir kynferðisofbeldi, heldur minnkar þetta einnig líkurnar á að þau geti sagt frá, þau kunna ekki orðin. Þetta er á ábyrgð KERFANNA, fólksins þar inni og okkar allra!

Gefum fötluðu fólki orðið!!!

Og Druslumst til að hlusta!

Aðalheiður Alenu Jóhannsdóttir DRUSLA
* birt með leyfi sonar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir