Krithóll í Lýtingsstaðahreppi :: Torskilin bæjarnöfn

Krithóll I 24. september 2001. Borgaráin (áður Álgeirsvallaá) kemur niður í gili sunnan við bæinn til vinstri. Í baksýn eru Vatnsfjall á Efribyggð til hægri en Moshlíðarhnjúkur til vinstri. Mynd úr Byggðasögu Skagafjaraðar, III bindi bls. 52.
Krithóll I 24. september 2001. Borgaráin (áður Álgeirsvallaá) kemur niður í gili sunnan við bæinn til vinstri. Í baksýn eru Vatnsfjall á Efribyggð til hægri en Moshlíðarhnjúkur til vinstri. Mynd úr Byggðasögu Skagafjaraðar, III bindi bls. 52.

Til forna hefir bærinn heitið Gegnishóll. Bezta heimild fyrir því er í kaupbrjefii frá árinu 1445. Þar segir svo: „ Hér með seldi greindr Torfi (þ.e. Torfi Arason) jörðina Gegnishól, er nú er kallaðr Kryddhóll“ (Dipl. Ísl. IV., bls.666). Nafnbreytingin hefir því líklega orðið á öndverðri 15. öld.

Ekki verður sagt  með vissu, hvernig Gegnishólsnafnið er til komið. Það gæti verið leitt af mannsnafni, því að mannsnafnið Gegnir er til. Gegnir Illugason, einn af beztu fylgismönnum Brands Kolbeinssonar, hefir án efa búið einhversstaðar þar í umliggjandi

sveit. Við hann gat bærinn verið kendur, hafi hann búið þar (sjá Sturlungu III., bls. 103 og víðar). Og Gegnishólmi heitir engjahólmi lítill nálægt Stokkhólma, ekki mjög langt frá Haugsnesi, þar sem Gegnir fjell (Gegnishólar í Flóa og Þjórsárdal geta átt eitthvað skylt við gegningar, þ.e. fjárhirðingar, sbr. talsháttinn „að gegna fje“, en þá hefði t.d. orðið að heita Gegningshólar. Sbr. og Gegnislæk og Gegnisvík á Melrakkasljettu). Áðurgreint kaupbrjef felur líka í sjer þá vissu, að bærinn heiti rjettu nafni Kryddhóll, enda er nafnið þannig rìtað árið 1525 og sjálfsagt 16. öldina út (Dipl. Ísl. IX. b., bls. 301).

Nú er ávalt sagt og ritað Krithóll, og það hefir líka verið gert um 1200, því að Árni Magnússon ritar Krithóll (Árni nefnir líka Krithólsgerði Efra- og Neðra- ; sjá Johnsens Jarðatal, bls. 263). Það er skiljanlegt, að dd hertist Í t í framburði, enda samkvæmt málsreglum, sbr. sögnina eta af lat. edo. Sbr. líka um Íbeitshól hjer að framan [Sjá umfjöllun um Íbishól í 47. tbl. Feykis 2019.].

(Merkileg undantekning frá „tillíktum“ bæjanöfnum er Titlingur í Kræklingahlíð. Greinagóðir menn hafa sagt mjer, að sá bær heiti með rjettu Tyllingur, komið af því, að bærinn stæði framan í hæðarbrún, þ.e. tylt í brúnina). Sennilega er nafnið dregið af kryddjurtarækt einhverskonar, t. d. lauk-gresi eða piparrót. (Eða á nafnið nokkuð skylt við fjölskrúðugt og kjarngott land? Beit er mjög góð í landi jarðarinnar). Telja má nokkurnveginn víst, að orðið

krydd (það er á lágþýzku krüdö) hafi borist allsnemma inn í íslenzkuna. Og vitaskuld er nafnið Kryddhóll rjett ritað þannig, því ástæðulaust er að breyta því í Gegnishóll úr þessu.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 14. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir