Litli prinsinn :: Áskorendapenninn Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir Kollsá Hrútafirði

Hún Kristín Árnadóttir, vinkona mín, sendi mér áskorendapennann og þó mér fyndist ég vera hálf tímalaus í haustönnunum þá varð ég við því. Hvað gerir maður jú ekki fyrir vini sína. Ég dró skrifin á langinn enda vön frá fjarnámi mínu við Háskólann á Hólum að sjá tímasetninguna 23:58 á verkefnum mínum á skiladegi. Ekkert lá nú á eða þannig.

Mögulega tengja einhverjir sem hafa stundað nám með vinnu við þessa lýsingu. Ég braut heilann um hvar ég ætti eiginlega að bera niður í umfjöllunarefni. Bókin góða „Litli prinsinn“, sem kom út árið 1943 og er eftir franska flugmanninn og rithöfundinn Antoines de Saint-Exupérys, leitaði á hugann og sá boðskapur sem þar er að finna. Hún er ein mest selda bók allra tíma og var, sem dæmi, valin besta bók 20. aldarinnar í Frakklandi. Hún er hugleiðing um lífið, hvernig menn kjósa að lifa því og hvernig þeir ættu að lifa því. Því sem höfundurinn vill koma til skila er komið á framfæri á nokkuð naíviskan hátt. Það er með einfaldleika og því að minna er meira.

En hvers vegna skyldi Litla prinsinum skjóta upp í mínum kolli um þessar mundir? Jú, ég fann og finn hvernig óvægin orðræða sem allt of oft, að mínu mati, á sér stað í þjóðfélaginu og þá framar öðru á samfélagsmiðlum getur þreytt og daprað mann. Það eru orðnir svo margir dómararnir þarna úti. Nær engum má verða á hvorki í ræðu né riti og ofan í kaupið krefjumst við allt að því fullkomnunar hvert af öðru og fyrirgefum fátt. Samt er það nú einhvern veginn svo að í ófullkomleikanum kemur mennskan hvað skýrast fram.

Á lífið að vera svona? Boðskapur Litla prins rennur ekki í þessum farvegi. Hann er hvatning til fullorðins fólks um að taka sig á. Endurheimta barnið í sér, því það sé sannasta og einlægasta manneskja sem til er, og lifa í sátt og skilningi við sig og aðra. „Allir fullorðnir menn hafa fyrst verið börn. En fáir muna eftir því“ segir í inngangsorðum bókarinnar. Hvernig væri þá að vinna að því að varðveita betur barnið í sér og bæta með því heiminn? Það að maður sjái ekki vel nema með hjartanu því það mikilvægasta sé ósýnilegt augunum er hinn fallegi og einfaldi boðskapur bókarinnar góðu. Ef okkur finnst hlutirnir betur mega fara verum þá sjálf breytingin sem við viljum sjá. Ég ætla að byrja hjá mér.

Ég sendi pennann áfram til Arons Stefáns Ólafssonar frá Reykjum í Hrútafirði BS í umhverfisskipulagi, húsasmiðs og nema.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir