Ríkidæmi þjóðar :: Áskorandapenninn Hörður Ríkharðsson Blönduósi

Mér finnst áberandi hve það kemur flatt upp á ýmsa nemendur mína þegar ég segi að Ísland sé í hópi ríkustu samfélaga í heimi. Sýni ég þeim gjarnan einhverja lista þar sem við kannski rólum í kringum fimmtánda sæti og eftir að búið er að taka út einhvers konar borgríki, sjálfstjórnarsvæði og jafnvel olíuríki með mikla sérstöðu blasir við að við erum á topp tíu ef ekki topp fimm meðal samfélaga sem við viljum bera okkur saman við þ.e. Vestræn lýðræðisríki.

Ef litið er til samanburðar sem tekur til fleiri lífskjaraþátta heldur en tekna, þá komum við alla jafna nokkuð vel út þegar litið er til ungbarnadauða, lífaldurs, heilsu, jafnréttis, friðsældar, mannréttinda, menntunar o.fl. slíkra þátta. Í framhaldinu er gott að ræða það hvort sjálfsmynd okkar sem samfélags/þjóðfélags sé með þeim hætti. Erum við alla daga meðvituð um það hvað við höfum það gott?

Þjóðfélagsumræðan, jafnt í hefðbundnum fjölmiðlum sem og samfélagsmiðlum, speglar samfélag sem glímir við ýmis vandamál. Ungt fólk glímir við kvíða, sjálfsmyndarvanda, þunglyndi, óljósa framtíðarsýn, loftslagskvíða og einkum drengir falla frá námi ungir og finna sig ekki heldur á vinnumarkaði. Skortur á getu til að takast á við mótlæti, minni þrautseigja, samfara miklum hraða á öllu og mikilli samfélagsmiðlanotkun orsakar vanlíðan og brottfall úr námi, segja sérfræðingar. Á sama tíma og mörgum fyrirtækjum gengur illa að fá fólk til starfa og þrýstingur er á að flytja inn vinnuafl þurfa stjórnvöld að fjárfesta nokkur hundruð milljónum í verkefni til að ná til ungs fólks sem hvorki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun. 

Í fréttum hafa einnig verið fregnir af auknu ofbeldi eða kannski frekar alvarlegu ofbeldi þar sem gerendur eru sérstaklega ungir. Fíkniefnanotkun virðist síst í rénum þar sem stóralvarlegar afleiðingar ópíóðafíknar hafa blasað við. Þessu til viðbótar má nefna húsnæðisvanda ungs fólks þar sem verðbólguskot það sem geisar um þessar mundir hefur leitt til þess að færri standast greiðslumat og vaxtabyrði hvetur ekki beinlínis til lántöku. Leiguhúsnæði er sem fyrr afar dýrt fyrir flesta m.a. vegna þess að fasteignaeigendur margir hverjir geta nú á nýjan leik leigt ferðamönnum eftir tímabundið hlé á covid-tímabilinu. Þrátt fyrir mikla auðlegð samfélagsins, borið saman við hin tæplega 200 ríkin á jörðinni, þá er það svo að mörg sveitarfélög berjast nú í bökkum og jafnvel er rætt um að höfuðborgin sé á vonarvöl.

Það hlýtur að vera stærsta verkefni okkar allra að reyna með einhverjum hætti að skapa meiri sátt, ró og farsæld í samfélaginu. Eitthvað í samfélagsháttum okkar, menningu og kannski skipting verðmætanna milli íbúanna hlýtur að þarfnast endurskoðunar og ígrundunar. Gildismatið þarf að breytast, fjölskyldan verður að hafa tíma til að ræða lífsgildi, hafa á þeim skoðun og njóta samveru. Skrúfa þarf niður um nokkrar gráður í samkeppnis-, fullkomnunar- og neyslusamfélaginu.

Ég skora á Kristínu Jónu Sigurðardóttur, kennara á Blönduósi, að taka við keflinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir