Saga hrossaræktar – hrossasalan :: Kristinn Hugason skrifar

Hundruð hrossa voru rekin inn á hafnarsvæðið í Reykjavík og skipað út. Myndin er tekin um 1910 og er m.a. áður birt í bókinni Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH, 2004, Ljm: Karl Nilsen.
Hundruð hrossa voru rekin inn á hafnarsvæðið í Reykjavík og skipað út. Myndin er tekin um 1910 og er m.a. áður birt í bókinni Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH, 2004, Ljm: Karl Nilsen.

Ágætu lesendur, áður en ég vík að efni greinarinnar vil ég óska ykkur gleðilegs og farsæls nýs árs en þetta er fimmta árið sem birtast munu reglulega greinar hér í Feyki frá Sögusetri íslenska hestsins. Í þessari grein verður fjallað um hrossasöluna hér innanlands fyrr og nú og útflutninginn sem á sér lengri og fjölskrúðugri sögu en margur hyggur. Í næstu grein verður svo fjallað sérstaklega um uppbyggingu reiðhrossamarkaða erlendis.

Hrossasala innanlands í gegnum aldirnar

Sú augljósa staðreynd liggur fyrir í ljósi þess fjölþætta og ómissandi hlutverks sem íslenski hesturinn hefur haft á öllum tímum Íslandsbyggðar, að hrossaþörf hefur verið ákaflega mikil til samgangna og fjölþættrar vinnu. Hrossaþörf á meðalbýli og hvað þá stórbýlum hefur þannig verið umtalsverð. Nægir í því sambandi að gera sér í hugarlund heybandslestirnar sem þurftu að vera nokkuð stórar svo ekki gengi heimflutningur heys alltof hægt eða þegar afurðir búsins, s.s. ull og fleira var flutt í kaupstað og verslað inn og flutt heim, s.s hertur fiskur, smíðaviður o.m.fl.

Endurnýjunarþörf á hestakosti hefur þannig verið umtalsverð; víða fór uppeldi hrossa fram á bæjunum sjálfum og bændur þar voru algerlega sjálfbærir með hestakost allan en annars staðar háttaði svo til sakir landþrengsla, en þó einkum snjóalaga á vetrum, að útigangur var torveldur. Þarna kom því aldeilis til kasta lögmálsins kunna um hlutfallslega yfirburði, þetta lögmál er megin drifkraftur verslunar og viðskipta innan og á milli landa: Vara er framleidd þar sem best hagar til og seld þangað sem eftirspurn er. Hvað hross varðar er hér um að ræða snjóléttar sveitir þar sem uppeldið fór fram á landmiklum jörðum og varð oft stórtækt þar sem bændur voru hneigðir til hrossa og áttu góðan stofn.

Þekktist vel að farið var með söluhross um langan veg til að koma þeim á markað og varð úr þessu mikið brask á stundum en það er eflaust miklað upp því í heildina var þetta ómissandi atvinnuvegur sem stundaður var af heiðarleik og árvekni. Viðmiðunarverð hafa örugglega fest í sessi en töluvert fór fyrir sjálfstæðri verðmyndun; orðið metfé varð einmitt þannig til. Talað var um að menn ættu metfé í stóði, merking sú sem í það er lögð nú til dags er að þarna sé um hreina úrvalsgripi að ræða sem það vissulega var en upphafleg merking var sú að um gripi væri að ræða sem sjálfstæð verðmyndun yrði að fara fram á.

Þó sala almennra brúkunarhrossa væri viðamest var töluvert um það að ræða á öllum öldum að reiðhross gengju kaupum og sölum, sum þeirra algert metfé sem sportáhugi manna hvatti til viðskipta með. Sú þróun ágerðist vissulega mikið eftir að dráttarvélar og landbúnaðarbifreiðar gerðu brúkunarhestinn að mestu óþarfan og hestamennskan varð að mestu drifin áfram af ástríðu en ekki grunnþörf. Lögmálið um hlutfallslega yfirburði gilti þó enn þá; stóðbændur seldu þannig tamningamönnum lítið gerð eða alveg ótamin hross, eins var folaldasala töluverð. Vettvangur þessara viðskipta voru iðulega stóðréttirnar að haustinu. Enda var lengi svo litið á að hrossauppeldi væri hin mesta ósvinna landlausum mönnum.

Þetta allt hefur nú breyst mikið, áhugi á hrossarækt sem sjálfstæðu viðfangsefni hefur vaxið mikið og kostnaðartilfinning margra í sambandi við hrossaræktina tekið breytingum; sumir einfaldlega haft áhuga á og fjárhagslega burði til að stunda hana án þess að endar næðu saman. Þetta sem ég segi hér má þó alls ekki skiljast sem nein alhæfing um greinina í heild. Því hrossaræktin hefur tekið stórstígum framförum í gegnum áratugina; kynbótaframförin verið ævintýraleg, kunnátta í greininni sem og aðstaða öll tekið jafnmiklum ef ekki enn meiri framförum og hrossabúskapurinn skapar umtalsverða atvinnu víða um land og skilar tekjum bæði innanlands sem og gjaldeyristekjum vegna útflutningsins sem verður vikið að hér á eftir.

Innanlandssala hrossa er þannig umtalsverð þrátt fyrir alla heimaræktun og um afskaplega fjölbreytileg hross að ræða á víðu verðbili. Almennt séð er ekki vafi á að almennur reiðhestakostur er á uppleið. Getu- og aldurflokkaskiptar keppnir, áhugamannadeildir auk vitaskuld atvinnumannadeilda, ýmsar vetraruppákomur sem og jákvæð þróun hjá fólki almennt m.t.t. krafna um gæði hrossa, m.a. ferðahrossa, virkar allt í rétta átt.

Útflutningur

Til eru sagnir af því að til forna hafi íslenskir hestar verið fluttir utan og gefnir erlendum höfðingjum síðan eru og sagnir til um það í gegnum aldirnar, studdar ýmsum heimildum, að íslenskir hestar hafi verið eftirsóttir hjá stöku höfðingjum utanlands. Verslun var þó lítil, enda mikil áþján og margháttuð verslunarhöft lengur við lýði en í nágrannalöndunum og var verslunarfrelsi ekki veitt að fullu fyrr en um miðja 19. öld, þó danska einokunarverslunin hafi verið afnumin seint á 18. öld. Árið 1851 var breskum skipum fyrst veitt leyfi til að sigla hingað til lands, með því skilyrði þó að þau flyttu enga vöru með sér, og hófst þar með reglulegur útflutningur. Í blaðinu Þjóðólfi birtist árið 1858 tilvitnun í verðlaunaritgerð Húss og bústjórnarfélagsins (undanfari Búnaðarfélags Íslands), þar segir: „að stóðhrossaræktin megi verða landsmönnum ábatasamr atvinnuvegr og til mikills arðs í mörgum sveitum, því ár frá ári eykst eptirsókn útlendra manna eptir hrossum héðan“.

Þetta gekk í ýmsu tilliti mjög eftir og fór útflutningurinn úr nokkur hundruð hrossum á ári í þúsundir og varð salan mest 5700 hross á einu ári. Á árunum 1851 til 1900 voru flutt úr landi liðlega 65 þúsund hross og fram til 1949 voru flutt út héðan í allt 150.400 hross; flest til Bretalands 107 þúsund, til Danmerkur 41 þúsund en talið er að fjöldi hrossa sem skráð eru á Danmörk hafi þaðan borist til Svíþjóðar og jafnvel Þýskalands en á þessu tímabili voru bara skráð 450 útflutningshross á Þýskaland. Í þriðja sæti var svo Pólland með 1.600 hross en þangað voru flutt vinnuhross í stórum stíl undir lok þessa tímabils. (Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH, 2004, bls. 286 til 290, í kaflanum Á erlendri grund eftir Þorgeir Guðlaugsson).

Þessi gríðarmikli hrossaútflutningur skipti verulegu máli fyrir afkomu bænda en hann auk sauðasölunnar gerði að þá kom lausafé fyrst svo nokkru nam í sveitirnar en peningar eru jú afl þeirra hluta sem gera skal. Þetta gerði mörgum bóndanum fært að eignast ábýlisjörð sína enda jókst sjálfseignarábúð bænda mjög er á nítjándu öldina leið. Þessi mikli útflutningur ýtti vitaskuld um leið undir að bændur sem þess áttu nokkurn kost hleyptu upp stóði sínu og sauðahjörð svo stundum lá við felli eða enn verr fór. Útflutningshrossin voru flest hver ótamin en fengu tamningu er út kom og voru nýtt sem vinnuhross, s.s. í kolanámum Bretlandseyja, þó fjölmörg dæmi séu til um annað.

Niðurlagsorð

Í næstu grein verður útflutningi íslenska hestsins sem reiðhests gerð skil.

Kristinn Hugason
forstöðumaður  Söguseturs íslenska hestsins

Áður birst í  1. tbl.  Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir