Skagstrendingar kveikja ljósin á jólatrénu í dag
Víðast hvar á Norðurlandi vestra hafa ljós á jólatrjám sveitarfélaganna verið tendruð en þó með undantekningum. Í dag, mánudaginn 8. desember kl. 17:00, stökkva Skagstrendingar hinsvegar til og tendra ljósin á jólatrénu á Hnappstaðatúni.
„Þær upplýsingar hafa borist skrifstofu sveitarfélagsins að nokkrir jólasveinar muni eiga leið um Skagaströnd á þessum tíma og munu þeir líta við. Sveitarfélagið býður upp á grillaða sykurpúða líkt og fyrri ár,“ segir í tilkynningu á vef Skagastrandar.
Oft þykir okkur jólalegra að hafa snjó þegar ljós eru tendruð á jólatrjám en það er lítið af honum þessa dagana og ekki útlit fyrir að breyting verði á því í dag en veðrið verður væntanlega með ágætum, gert er ráð fyrir stilltu veðri og hita um frostmark.
