Snjalltæki og skólastarf :: Áskorandinn Sólveig Zophoníasdóttir brottfluttur Blönduósingur

Sólveig með ömmustelpunum sínum þeim Sólveigu Þulu og Þyrí Rún í flugdrekaveðri í Gásafjöru við Eyjafjörð.
Sólveig með ömmustelpunum sínum þeim Sólveigu Þulu og Þyrí Rún í flugdrekaveðri í Gásafjöru við Eyjafjörð.

Síðastliðinn vetur sótti ég námskeið í orðræðugreiningu. Markmið orðræðugreiningar er, líkt og annarra rannsóknaaðferða, að varpa ljósi á og/eða skapa nýja þekkingu, auka og dýpka og jafnvel breyta skilningi fólks á fyrirbærum. Mig langar í þessum pistli að segja stuttlega frá æfingu í orðræðugreiningu sem ég gerði á námskeiðinu og helstu niðurstöðum.

Nútímasamfélag byggir að stórum hluta á stafrænni tækni og almenn notkun snjalltækja fer vaxandi á flestum sviðum. Það þýðir að skólastarf nú á dögum stendur frammi fyrir miklum kröfum um að auka snjalltækjanotkun og kennarar eru undir þrýstingi um að innleiða notkun snjalltækja í kennslu. Á sama tíma sýna rannsóknir að töluverðar áskoranir fylgja því að nýta snjalltæki í kennslu og breyta kennsluháttum og námsumhverfi. Í ljósi þessa er áhugavert að skoða hvað einkennir orðræðu meðal skólafólks um snjalltækjanotkun í skólastarfi og hvernig hún hefur birst á samfélagsmiðlum.

Af orðræðunni að dæma þá eru skiptar skoðanir á því hvort áhrifin og breytingarnar sem fylgja snjalltækjum eru þess eðlis að bæta skilyrði til náms og kennslu. Það sem drífur umræðuna áfram eru kröftug skoðanaskipti og skiptast þeir sem taka þátt í umræðunni alla jafnan í tvo hópa eða lið, með eða á móti. Í umræðunni er jafnvel gert lítið úr skoðunum þeirra sem eru á öndverðum meiði, þær sagðar gamaldags og úreldar eða „útópískar“ og ógnandi. Orðræðan einkennist öðru fremur af ágreiningi, eins konar varnartali þar sem áhersla er lögð á að verja ákveðin sjónarmið, hugmyndir og skoðanir og sóknartali þar sem áhersla er lögð á að vekja athygli á og tala fyrir nýjum tækifærum og leiðum í námi og kennslu.

Ágreininginn sem birtist í orðræðunni má rekja til þeirra togstreitu sem jafnan hefur mátt greina á milli hugmynda um „hefðbundið“ skólastarf og „óhefðbundið“. Þá er annars vegar vísað til kennarastýrðra kennsluhátta sem einkenndu skólastarf lengst af á 20. öld og hins vegar kennsluhátta sem hægt er að tengja við hugmyndir um „opinn“ skóla, framsækið og nemendamiðað skólastarf. Orðræðan gefur til kynna að þeir sem eru hlynntir snjalltækjanotkun telji kennslufræði sem byggir á hugmyndafræði „opna“ skólans betur sniðna að snjalltækjanotkun og þeir sem vilja fara hægar í sakirnar eða draga úr snjalltækja notkun í skólastarfi leggi frekar áherslu á „hefðbundna“ kennsluhætti. Í orðræðunni kemur fram að notkun snjalltækja geti ógnað heilsu og velferð nemenda og einnig kemur fram að ef snjalltæki eru ekki notuð þá ógni það framtíðarmöguleikum og samkeppnishæfni nemenda.

Orðræðan um snjalltæki í skólastarfi einkennist þannig af átakapunktum, andstæðum sjónarmiðum og togstreitu á milli þeirra. Í henni birtast kennslu- og hugmyndafræðileg átök um kjarna skólastarfs, nám og kennslu. Lærdómurinn sem draga má af orðræðuæfingunni er kannski helst sá að mikilvægt er að rannsaka betur hvernig hægt er að nota tækni til að styðja við og efla góða kennsluhætti. Að lokum er vert að hafa í huga að það er ekki tæknin sjálf sem veldur skaða eða stuðlar að árangri heldur hvernig við notum hana, það er málið.

Ég skora á samstarfsmann minn Þorlák Axel Jónsson að koma með pistil.

Áður birst í 41. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir