Stofnanavætt óargadýr

Eitt sinn hlýddi ég á tal tveggja lífsreyndra manna sem nú eru báðir fallnir frá. Annar var bifvélavirki, en hinn lögfræðingur. Þetta voru rosknir menn, mestu sómakarlar og í vínhneigðara lagi. Þeir höfðu báðir gengið í AA-samtökin og töluðu mjög hlýlega um þann félagsskap, en um SÁÁ töluðu þeir ekki hlýlega og voru hjartanlega sammála um að SÁÁ væru búin að eyðileggja AA-samtökin. Svo einkennilegt sem það var, lagði ég ekki nógu vel við hlustir eða hjó eftir því í hverju sú eyðilegging ætti að vera fólgin og með hvaða hætti hún hefði átt sér stað, en ætla nú að gera vanburðuga tilraun til að ráða eitthvað í það, og bið lesendur um að virða viljann fyrir verkið.

            Við fyrstu sýn virðist framangreind fullyrðing - að SÁÁ séu búin að eyðileggja AA-samtökin - næsta ótrúverðug, ef ekki blátt áfram fáránleg. Meginuppistaða AA-fræðanna er svo kallað tólf spora kerfi sem ekki er hægt að flokka öðru vísi en sem trúarbrögð. Í því er boðuð trú á æðri mátt, kennt að ekki verði unninn bugur á fíkn nema í hópsamstarfi þeirra sem haldnir eru sömu fíkn og fíknin sem er í brennidepli hverju sinni - í þessu tilviki áfengis- og lyfjafíkn - er undantekningarlaust skilgreind sem sjúkdómur. Árið 1950 bjuggu tveir menn vestur í Bandaríkjum til líkan af fíkn á grundvelli þessa hugmyndakerfis, svo nefnt Minnesota-módel, sem SÁÁ styðst alfarið við í meðferðarstarfi sínu, þó með nokkrum heimatilbúnum útfærslum, og hefur þessi íslenska útgáfa stundum verið nefnd ,,íslenska módelið" sem er fullhátíðleg og ýkjukennd nafngift.

            Um eina af þessum heimatilbúnu útfærslum SÁÁ-manna - ,,falska botninn" - er mér kunnugt og tel rétt að gera því atriði skil áður en lengra er haldið. Ekki síst vegna þess að það varpar skýru ljósi á þá áráttu SÁÁ-manna að beita blekkingum og láta tilganginn helga meðalið til að ná fram markmiðum sínum.

            Samkvæmt erfikenningum AA-samtakanna hættir áfengis- og lyfjafíkillinn ekki neyslu sinni fyrr en hann er kominn ,,á botninn" (þ.e. að líf hans er komið í rúst á öllum sviðum). Til að forða meðferðarþegum sínum frá slíkum hörmungum suðu Þórarinn Tyrfingsson og félagar hans í SÁÁ saman ,,falska botninn" sem felst í því að (sumum) meðferðarþegum er talin trú um að þeir séu komnir ,,á botninn" þó svo sé ekki í raun. Í þeim tilgangi er sett upp útspekúlerað leikrit í kringum viðkomandi meðferðarþega með aðkomu vina og vandamanna, séu þeir tilleiðanlegir. (,,Við höfum fært botninn eilítið upp", er haft eftir Þórarni).

            En þó þessi útfærsla sé ekki sem ráðvendnislegust, er tæpast hægt að nota hana - eða aðrar ámóta - til að réttlæta þá staðhæfingu að SÁÁ sé búið að eyðileggja AA-samtökin. Og í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið fer það ekkert á milli mála að AA og SÁÁ eru grundvölluð á nákvæmlega sömu hugmyndafræðinni. Við verðum að leita betur!

            Eftir því sem mér var tjáð af gömlum og áreiðanlegum AA-mönnum, hefur það verið útbreitt og viðtekið viðhorf innan samtakanna - í öllu falli fyrir tilkomu SÁÁ - að enginn maður ætti, mætti eða gæti með réttu sagt það um annan mann að hann væri alkóhólisti. Nýliðar í AA-samtökunum greindu sig sjálfir. Þeir kæmu ótilkvaddir á fundi, hlustuðu á það sem eldri félagar hefðu fram að færa og ef þeim þætti lýsingar þeirra á áfengisfíkninni eiga við sig, þá stigju þeir í pontu og segðu: ,,Ég er alkóhólisti."

            Þetta viðmið er þverbrotið af SÁÁ, því þar á bæ tekur starfsfólkið sér það vald í krafti ,,sérfræði" sinnar og ,,fagmennsku" að skilgreina hverjir séu alkóhólistar og hverjir ekki. Og ekki nóg með það, því daglega hljóma í samfélaginu slagorð og sleggjudómar frá óbreyttum meðferðarþegum samtakanna og aðstandendum þeirra um að þessi eða hinn sé ,,sjúkur". Þetta hefur viðgengist í mörg ár og færist heldur í aukana en hitt eftir því sem meðferðarþegum hefur fjölgað og þeim vaxið fiskur um hrygg í íslensku samfélagi. En forsvarsmenn AA-samtakanna standa hjá og þegja þunnu hljóði þó þessu fari fram!

            Um áreiðanleika greiningarforsendna SÁÁ er annars það að segja að þessu eru dæmi - fleiri en eitt og fleiri en tvö og fleiri en þrjú ... - að menn sem hafa verið skilgreindir alkóhólistar af ,,fagfólki" samtakanna, hafa eftir alllangt bindindi byrjað aftur að neyta áfengis (oftast bjórs eða öls) og hefur þá tekist að halda drykkjunni í skikkanlegu horfi til frambúðar. En samkvæmt hugmyndafræðilegum grundvelli SÁÁ (og AA) á slíkt ekki að vera mögulegt fyrir alkóhólista!

            SÁÁ-menn eru samt ekki af baki dottnir í slíkum tilvikum og segja einfaldlega að greiningin hafi verið röng (þeirra eigin greining!), því allt er nú betra en að viðurkenna að það brenglaða líkan sem þeir hafa gert sér af áfengisfíkninni - og þar með lífinu og tilverunni í heild - er í mörgum greinum kolgeggjað.

            Og til að fræðast um menntunarstig áfengis- og vímuefnaráðgjafanna hjá SÁÁ er upplagt að grípa niður í æviágrip Sigurðar Gunnsteinssonar, áður forstöðumanns og dagskrárstjóra í Vík á Kjalarnesi, sem birtist í Morgunblaðinu 5. nóvember 2016. Þar segist hann hafa farið ,,í sumarháskóla í áfengis- og vímuefnameðferð í Johnson Institute í Minnesota sumarið 1979." Mikið yrði nú lífið léttara en raun er á, ef þeir sem leggja stund á alvöru vísindi, t.d. jarðfræði eða lögfræði, gætu hespað prófgráðuna sína af í einum litlum og sætum sumarháskóla!

            Þegar kemur að því að greina hvort einhver sé alkóhólisti eða ekki, á greiningarvaldið að liggja hjá einstaklingnum sjálfum sem í hlut á hverju sinni, en ekki hjá utanaðkomandi aðilum, þó faglærðir þykist. Sú tilhögun er réttmætust og affarasælust og hefur gefið góða raun innan AA-samtakanna, eftir öllum sólarmerkjum að dæma.

            Eftir því sem mér var tjáð af gömlum og áreiðanlegum AA-mönnum, gengur það þvert á stefnu samtakanna að fólk sé kúgað til þátttöku í þeim eða til fylgis við hugmyndafræði þeirra. Hins vegar væru allir velkomnir sem hefðu einlægan vilja til að hætta að drekka.

            Í fréttaflutningi undanfarinna ára eru ófá dæmi um að félagsmálayfirvöld hafi sett það skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð við þurfandi fólk, að það færi í meðferð, og dómarar hafi dæmt fólk til að sæta meðferð. Svo sem áður hefur verið áréttað er hugmyndafræðilegur grundvöllur AA og SÁÁ nákvæmlega hinn sami og AA-fundir fastur liður í meðferðarprógrammi SÁÁ. Við svo búið er áðurnefnt fólk blátt áfram neytt til þátttöku í AA-starfi!

            Er ég efins um að stofnendur samtakanna, þeir Bill og Bob, hafi getað séð þessa þróun fyrir, þó þeir kunni annars að hafa haft frjótt ímyndunarafl. En forsvarsmenn AA-samtakanna standa hjá og þegja þunnu hljóði þó þessu fari fram!

            Þegar upp er komin sú staða, að fólk er kúgað í meðferðir þar sem AA-fundir og AA-fræði eru burðarásar í meðferðarprógramminu, er það í mínum huga hafið yfir allan vafa að við svo búið er varla unnt að verða við þeim hefðbundnu tilmælum AA-samtakanna að þeim sé haldið utan við dægurþras!

            Hvað varðar þátt forsvarsmanna SÁÁ í þessu máli, virðist það ekki angra þá hið minnsta þó fólk sé neytt til þess að leita sér meðferðar hjá þeim eða beitt ofurþrýstingi í því skyni og verður ekki betur séð en þeir innræti meðferðarþegum sínum að smala sem allra flestum í þetta sama far.

            Og ekki nóg með það, því eftir fréttaflutningi að dæma velja þeir sér með reglulegu millibili nýja og nýja markhópa til að herja á eða ,,ná til" eins og þeir orða það. Fyrir fáum árum heyrði ég í útvarpi að þá hefði röðin verið komin að öldruðum og öryrkjum. Hefði maður þó ætlað, að ef nokkrir ættu skilið að hafa frið með vímuefnaneyslu sína, þá væri það gamalt og hamlað fólk, sem er orðið löglega afsakað frá því að taka þátt í verðmætasköpun samfélagsins.

            En sagan er langt því frá öll sögð. Ég hef áður í blaðagreinum nefnt SÁÁ sértrúarsöfnuð og stend við þá skilgreiningu. Því auk þess að byggja á trúarlegum grunni, hefur SÁÁ til að bera allt það versta sem einn sértrúarsöfnuð má óprýða; blinda foringjahollustu, hjarðhegðan og múgmennsku og rétttrúnaðarofstæki sem úthýsir gersamlega sjálfstæðri hugsun og skoðanamyndun. Þessu fólki er aldeilis ekki nóg að það sjálft - og aðrir - haldi sér edrú heldur verður það allt að gerast eftir ákveðinni forskrift sem það telur vera hina einu réttu.

            Boðskapur þess er sá að til að geta tileinkað sér þessa einu réttu forskrift, þurfi menn ,,að breyta venjum sínum og viðhorfum“ og hefur það stef æ oftar hljómað í fjölmiðlum eftir því sem meðferðarþegum hefur fjölgað og þeim vaxið fiskur um hrygg í íslensku samfélagi. Þarf þó ekki mikið innsæi til að sjá, að hver sá sem breytir venjum sínum og viðhorfum eftir pöntun eða vegna þrýstings frá öðrum, er að svíkja sjálfan sig.

            Meðferðarþegar SÁÁ fara í gegnum meðferðina með ,,sponsor“ (leiðbeinanda) sér við hlið, hver og einn. Þegar þessu fólki er svo sleppt aftur lausu út í samfélagið að meðferð lokinni, fer sumt af því að ,,sponsa“ upp á sitt eindæmi og troða þeirri brengluðu lífssýn og þeim fölsku lífsforsendum sem það hefur meðtekið hjá SÁÁ upp á allt nærumhverfi sitt - með góðu eða illu - þar á meðal þeirri fráleitu og stórhættulegu grillu að menn eigi fremur að treysta áliti ,,fagfólks“ en sinni eigin reynslu og dómgreind! Og þetta háttalag sitt skilgreinir það þannig að það sé ,,að gefa til baka af því“ sem það hafi ,,þegið“. Siðblindan er algjör!

            Úti í samfélaginu er varla flóarfriður fyrir svona hyski sem stöðugt er að ráðskast í lífi annarra - til þess að halda sjálfu sér edrú - og senda misvel dulin skilaboð í allar áttir. Nær sú afskiptasemi langt út yfir það svið sem með mesta velvilja er hægt að tengja við vímugjafa og/eða neyslu þeirra. Smásmyglin er svo óskapleg að minnstu hlutir, sem hljóta að teljast persónulegt einkamál hvers og eins, geta orðið slíku fólki að ásteytingarsteini, svo sem það hvaða aðferð menn kjósa að nota til að koma matarúttektinni sinni í hús, eins og ég hef áður vikið að í blaðagrein.

            Gerist menn svo djarfir að taka slíkri afskiptasemi með einhverju öðru en ljúfu samþykki og þegjandi þökk, fer þetta fólk undantekningarlaust í píslarvætti og viðkvæðin verða: ,,Ekkert má nú segja við þessa menn!“ eða ,,Ertu eitthvað fúll út í mig núna?“ Siðblindan er algjör!

            Er fyllsta ástæða til að lýsa ábyrgð á hendur þeim stjórnmálamönnum sem hafa með almannafé bakkað SÁÁ upp til að framleiða, nánast á færibandi, mannleg skrímsli sem beita allt nærumhverfi sitt skoðanakúgun og andlegu ofbeldi í hvert einasta skipti sem þau telja sig geta sloppið frá því útlátalaust!

            Ályktanir mínar af því sem að framan hefur verið rakið eru eftirfarandi: AA og SÁÁ hvíla á nákvæmlega sama hugmyndafræðilega grunninum, og er hann trúarlegur. Eðlismunurinn á þessum tveimur samtökum er sá að AA eru laustengd samtök (líkt og söfnuðir frumkristinna) en SÁÁ eru stofnanavædd samtök (líkt og rómversk kaþólska kirkjan).

            Sagan hefur kennt okkur að stofnanavæðing trúarbragða getur verið stórhættuleg. Eitt nærtækasta dæmið um það er stofnanavæðing kristindómsins sem hafði með tímanum í för með sér einhver mestu glæpaverk í sögu mannkyns. Og þó SÁÁ-liðið hafi lítið verið orðað við líkamlegt ofbeldi, er sú tækni sem það hefur tileinkað sér í beitingu andlegs ofbeldis, orðin ærin ögrun við íslenskt samfélag.

            Nú er ég kannski ekki miklu nær um það hvað gömlu sómamennirnir, sem ég gat í upphafi greinarinnar, áttu nákvæmlega við með því að segja að SÁÁ væru búin að eyðileggja AA-samtökin. Það eina sem liggur ljóst fyrir í því máli er að forsvarsmenn AA virðast með þögninni líða SÁÁ-mönnum ýmsar tiltektir sem eru á gráu svæði, svo ekki sé meira sagt. Hugsanlega gætir hér líka aflsmunar eða hvernig á laustengt samband lítilla safnaða að hafa bolmagn til að koma böndum á stofnanavætt óarga dýr?

 

Guðmundur Sigurður Jóhannsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir