Það situr enginn kyrr með Gibba-gibb í eyrunum / HAUKUR FREYR

Tón-lystar-spekingurinn í þetta skiptið er Haukur Freyr Reynisson, oft kenndur við Bæ á Höfðaströnd. Haukur er fæddur á fyrsta ári áttunda áratugarins, fyrstu árin alinn upp í Hveragerði en síðan í skagfirsku sælunni. Haukur segist spila á svuntuþeysi (gamalt orð yfir hljóðgerfil eða hljómborð) og hans helstu afrek í tónlistinni eru að vinna ekki hljómsveitakeppni í Húnaveri, komast ekki í úrslit í músíktilraunum en spila svo á dansiböllum um allt land.

Uppáhalds tónlistartímabil?  Ég á nú ekki beint neitt uppáhaldstímabil.  Það hafa verið hæðir og lægðir þar eins og  í veðrinu. En alltaf verið pínu veikur fyrir 80´s en rokkið á milli 60 og 70 er líka alveg að gefa manni helling. En vel að merkja þá var ég með sítt að aftan!

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?  Of Monsters and Men eru ofarlega þessa dagana

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?  Í gamla daga rámar mig eitthvað í Simon og Garfunkel, og jafnvel Cliff Richards og Shadows.  Glímt við þjóðveginn með Brimkló var líka tímamótaplata, ég minnist þess  að hafa vætt kinnar við það að hlýða á Skólaball, „Ég sá hana á skólaballinu í gær” ...þvílíka dramagelgjan maður!

Hvað var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér?

Fyrsta platan var einhver Best of plata með 80´s poppstjörnum, fyrsti diskurinn var Best of DOORS, man ekki eftir fyrstu kasettunni, en ég  niðurhalaði svakalega mörgum Rásar 2 vinsældalistum niður á kasettur á sínum tíma og á meira að segja einhverjar ennþá.

Hvaða græjur varstu þá með? Glæsilegt, eldrautt Hitatci kasettutæki!

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Ég hef það fyrir sið að þegja og hugsa frekar um landsins gagn og nauðsynjar þegar eg fer í sturtu.

Bítlarnir eða Bob Dylan?  Það er bara málið að Dylan er stundum of djúpur fyrir mig en ég elska aftur á móti allar þessar frábæru lagasmíðar þeirra Palla og Jóns, maður getur alltaf uppgötvað eitthvað nýtt á þeim bænum.

Uppáhalds Júróvisjónlagið (erlent eða innlent eða bæði)? Waterloo með ABBA flokknum tvímælalaust  og síðan kemur Hubba hulle, með þeim ísraelsku Dattner og Kushnir, sterkt inn. Gleðibankinn hans Magga Eiríks og ekki má gleyma Nínu með Stebba og Eyfa.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð?  Það  klikkar sjaldan að smella einhverju góðu diskói í gang. Það situr engin kyrr með Gibba gibb í eyrunum eða Mikka Jackson heitinn.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra?

Fuglasöng í e moll fyrir utan gluggann.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Mundi skreppa til Rio í Brasiliu með minni ástkæru og sjá ellilífeyrisþegana í Rolling Stones  og taka svo risatónleika með U2 á Wembley á heimleiðinni. Konan gæti verslað á Oxford Street í leiðinni. Gott plan?

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera?  Nú kemur stóra sannleiksstundin….Sko, þegar ég var ungur þá veggfóðraði ég herbergið mitt með myndum af gaurunum í Duran Duran, og ég svaf með mynd af Nick Rhodes við höfðagaflinn,  svona létt sjúkur!  En í stuttu máli þá dreymdi mig um að vera hljómborðsleikarinn í bandinu, vá þetta var erfitt…en miklu síðar fékk ég að upplifa gömlu goðin á tónleikum í Egilshöll, sællar minningar, en þá var ég búinn að skipta Nick út fyrir mynd af konunni, ég segi bara vel valið!

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Nú er valið orðið erfitt, enda mjög huglægt mat á tónlist að segja hvað er nákvæmlega  best.  Ég er nú svo mikill Ragnar Reykás í þessum efnum en til að nefna eina plötu þá segi ég  Sgt. Peppers Lonely Heart Club Band með Bítlunum.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Því miður á ég ekkert tæki sem gefur mér tækifæri til að gera playlista, þannig að lítið verður um svör enda færi það bara eftir dögum hvað væri vinsælast í það og það skiptið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir