Stórhuga framtíðarsýn?

Það verður seint sagt að „endurbæturnar“ á Sundlaug Sauðárkróks, sem staðið hafa yfir um nokkur misseri, einkennist af stórhug eða framtíðarsýn. Endurbætt sundlaug Sauðárkróks eins og hún blasir við íbúum nú, er algerlega úrelt mannvirki, hvort sem litið er til þess út frá sjónarhóli sundíþróttarinnar eða óska almennings. Fjölskyldur með börn sækjast gjarnan eftir grunnum heitum barnalaugum og yfirsýn úr heita pottinum yfir í barnalaugina.

Í nágrannasveitarfélögum, hvort sem litið er til vesturs á Hvammstanga og Blönduóss eða norður á Siglufjörð og Ólafsfjörð, þá hafa breytingar á sundlaugum miðað við að tengja þær við líkamsræktarstöðvar íbúa. Eitt nýjasta dæmið er ný og endurbætt Íþróttamiðstöð á Hvammstanga sem þegar er orðin að hjarta samfélagsins. 

Til framtíðar litið er æði undarlegt að tengja ekki endurbæturnar á Sundlauginni á Sauðárkróki við líkamsræktina Þreksport. Það er ljóst að slík tenging hefði tryggt aukna aðsókn og ánægju íbúa.

Nýlega bar Álfhildur Leifsdóttir, frá Keldudal, upp fyrirspurn í byggðarráði Skagafjarðar sem leiddi í ljós að kostnaður við endurbæturnar stefnir verulega fram úr kostnaðaráætlun. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart þar sem erfitt getur verið að sjá fyrir alla verkþætti í endurbótum á gömlu húsnæði. Það sem kom verulega á óvart er að upplýst var að ekki var leitað eftir áliti eða ráðgjöf eins né neins úr sundhreyfingunni eða sérfræðinga sem tengist henni.

Hvernig ætli standi á því? Hvað yrði sagt um endurbætur á körfuknattleiks- eða golfvelli ef ekki væri haft neitt samráð um hönnun við þá sem íþróttina stunda eða þekkja til þarfa íþróttagreinanna að einhverju marki?  

Það er ljóst að sú vegferð sem meirihluti Sveitarstjórnar Skagafjarðar hefur verið með þessar sýndarendurbætur á, er vís leið til að klúðra málum. Það þarf að fá fleiri sjónarmið að hönnuninni m.a. fastagesti í lauginni, gamla og góða gufubaðshópa, rekstaraðila Þreksports og síðast en ekki síst fólk úr sundhreyfingunni. Ég vona að það gerist sem allra fyrst svo íbúar sitji ekki uppi með algerlega úrelt mannvirki næstu áratugina.

Sigurjón Þórðarson, fyrrum sundþjálfari UMF Tindastóls og formaður UMSS

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir