Tíminn er hraðfleygur fugl Sauðárkrókskirkja á tímamótum

Sauðárkrókskirkja, með þrjár kúlur upp af turni, mynd tekin á árunum milli 1953 til 1956. Myndasmiður ókunnur. Aðrar myndir fengnar úr bókinni Sauðárkrókskirkja og formæður hennar, eftir Kristmund Bjarnason.
Sauðárkrókskirkja, með þrjár kúlur upp af turni, mynd tekin á árunum milli 1953 til 1956. Myndasmiður ókunnur. Aðrar myndir fengnar úr bókinni Sauðárkrókskirkja og formæður hennar, eftir Kristmund Bjarnason.

Fyrir um þrem áratugum kom Bragi Skúlason, byggingameistari, að máli við mig og spurði hvort ég ætti mynd af kirkjunni þar sem að kúlurnar þrjár á turni kirkjunnar kæmu skýrt og afdráttarlaust fram. Svo fór að engin mynd fannst í fórum mínum.

Bragi var yfirsmiður endurbyggingar og stækkunar á þessum árum og var allt þetta sérlega vel heppnað. Almenn ánægja í samfélaginu á Króknum og víðar með frábæra útkomu á verkinu. Kirkjan mikið stækkuð og formfögur sem fyrr og kross kominn á turninn í stað kúlnanna þriggja sem bentu til himins. Svo er sagt að krossar séu ekki hafðir á kirkjuturnum í Evrópu en ástæðan ekki kunn. Svo gerist það nú á haustdögum að mér barst í hendur mynd af gömlu kirkjunni minni sunnan úr Reykjavík eins og himnasending.

Svona leit kirkjan út allt frá vígslu 1892 en tröppurnar voru upphaflega úr bjálkum og timbri. Árið 1908 er ákveðið að steypa vandaðar tröppur og í skoðunargjörð 1914 er þeim lýst af Birni Jónssyni, prófasti á Miklabæ, eins og þær eru á birtri mynd. Girðingin var sett upp sumarið 1953 og tímasetur myndatökuna en turninn var rifinn 1957 og endurbyggður fram á árið 1958. Vilhjálmur Hallgrímsson og Litla trésmiðjan önnuðust verkið. Litla trésmiðjan er formóðir Trésmiðjunnar Borgar.

Til er mynd frá 1957 þar sem séra Helgi Konráðsson kemur gangandi frá útför og sýnir kúlurnar þrjár hanga niður norðan megin á turninum. Skömmu síðar að sú mynd var tekin, hófst niðurrif á turninum. Myndin af kirkjunni sem hér er til umfjöllunar er því tekin að sumarlagi á árunum 1953 til 1956. Ókunnur ljósmyndari.

Kirkja á miðri síðustu öld

Gaman er að greina myndina nokkuð. Gluggarnir á suðurhlið eru fjórir en urðu fimm eftir endurbyggingu turnsins 1957 til 1958. Þrjátíu árum síðar urðu þeir sex á suðurhlið er kirkjan var stækkuð til vesturs. Á myndinni í suðurglugganum á turninum sést stiginn upp á kirkjuloftið, stiginn var brattur og sagt var að konum væri ekki vel við að fara hann. Það sæist jafnvel upp undir pils kvenna úr anddyrinu. Nýi turninn bætti úr þessu.

Tröppurnar að anddyri kirkjunnar voru mjög fallegar með útskot til suðurs og norðurs þar sem hægt var að staldra við. Tröppurnar síðan bogadregnar bæði til suðurs og norðurs með ágætum járnhandriðum. Aðkoman að kirkjunni var mjög myndræn og falleg.

Við fermingarsystkinin gengum þessar tröppur 30. maí 1957 eftir að séra Helgi Konráðsson hafði fermt okkur með aðstoð séra Björns Björnssonar á Hólum í Hjaltadal, áður en allt var brotið niður síðar um sumarið. Núverandi tröppur kirkjunnar standast engan vegin formfegurð og tígurleik þeirra gömlu en kannski var nálægðin við götuna of mikil að svo gæti orðið.

Myndin sýnir hús Friðriks Hansen vinstra megin en hús Jóns Þ. Björnssonar hægra megin. Þá sést hjallurinn á lóð Jóns vel en í honum leyndist margt. Kirkjan hefur verið helgust allra húsa á Króknum um mína daga, sálin og sameiningin í samfélaginu. Síðan Bifröst, Templó og ilmurinn úr Bakaríinu.

Miklar blíður og sólardagar hafa glatt okkur mikið þessa síðustu haustdaga októbermánaðar. Kirkjumyndin er djásnið.

Dálítil saga úr samfélagi

Tímamót verða 18. desember 2022 er 130 ár verða frá vígsludegi Sauðárkrókskirkju. Vinna við endurnýjun kirkjunnar hófst 15. ágúst 1989 til og með 1990 síðan var hún endurvígð með mikilli viðhöfn 9. desember 1990. Á Króknum voru 60 íbúar árið 1880. Höfuðkirkjan í Sauðárhreppnum hinum forna var á Fagranesi allt frá 1255 til 1893 eða í 638 ár. Fagranesprestakall var sérstök sókn. Lokamessa í Fagraneskirkju var fyrsta sunnudag í jólaföstu 1892 en kirkjuhúsið rifið vorið 1893.

Hvern hefði grunað að 130 árum síðar væri kominn nútíma „kirkjuvegur“ að Fagranesi þar sem skógarmaðurinn Grettir Ásmundarson á legstað utangarðs þar sem slíkir menn fengu ekki legstað í kirkjugarði. Kirkjan á Sjávarborg, í eigu Péturs Sigurðssonar, var tekin til skuldalúkningar 27. ágúst 1889 til verslunar fyrirtækisins B. Muus & Co í Kaupmannahöfn. Hinn 20. júní 1891 auglýsti landshöfðingi með bréfi niðurlagningu kirknanna á Fagranesi og Sjávarborg. Sauðárkrókskirkja þjónar nú þessum gömlu sóknum.

Hörður Ingimarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir