Fyrsta plata Megasar best / GÍSLI ÞÓR

Bubbi áritar Nóttina löngu fyrir Gísla í Skaffó 1989. Kannski fær Bubbi einhverntímann áritaða plötu hjá Gísla?
Bubbi áritar Nóttina löngu fyrir Gísla í Skaffó 1989. Kannski fær Bubbi einhverntímann áritaða plötu hjá Gísla?

Nýr þáttur í Feyki er Tón-lystin þar sem tónlistaráhugi og lyst viðfangsefnis á tónlist er könnuð. Fyrstur í sviðsljósið er Gísli Þór Ólafsson til heimilis í Hlíðahverfi á Sauðárkróki og alinn upp á sömu slóðum. Gísli er árgangur 1979, með kassagítar sem sitt hljóðfæri en hann telur þó (kontra)bassaleik í hljómsveitinni Contalgen Funeral sitt helsta afrek á tónlistarsviðinu.

Uppáhalds tónlistartímabil? Er dáldið svag fyrir tímabilinu 1965-1969 og vil ég meina að (jákvæð) samkeppni manna á borð við Bítlana (innbyrðis) og Brian Wilson (sem vildi gera plötur sem væru betri en Bítla-plöturnar), hafi skapað af sér framúrskarandi meistaraverk. Ýmsar aðrar hræringar í loftinu höfðu einnig áhrif. Ég vil nefna í beinu framhaldi af þessu þá leikhústengdu sköpun sem varð til með böndum eins og Queen, Pink Floyd og David Bowie á 8. áratugnum. Svo eru menn eins og Tom Waits og Leonard Cohen sem náðu að halda 80´s draugnum niðri (sem Bob Dylan átti erfiðara með).

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Hljómsveitin Valdimar og nýja Tom Waits lagið.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Móðir mín keypti Bítlaplötu (The Beatles 1967-1970) meðan hún gekk með mig og hlustaði á hana áður en ég fæddist án þess að hafa neinn sérstakan smekk fyrir þeim. Ég á plötuna enn. Að öðru leyti var það spóla með tónlist með mamma tók uppúr útvarpinu og ég hlustaði mikið á og söng með. Ég man eftir lögum eins og „I want to break free“ með Queen sem kom út árið 1984 og „Handle with care“ með The Traveling Wilburys sem kom út þegar ég var 9 ára.

Hver var fyrsta platan/diskur-inn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Þegar ég var 10 ára þá fékk ég áritaða kassettu af plötunni Nóttin langa með Bubba Morthens. Árið 1991 keypti ég plötuna Achtung Baby! Með U2 (í upprunalegri vínýlútgáfu) í Skagfirðingabúð. Mér fannst mjög leiðinlegt þegar menn hættu að gefa út LP plötur árið 1992 (og kannski fannst tónlistarmönnum það líka því mikið af mjög góðum plötum komu út árið 1991).

Hvaða græjur varstu þá með? Fisher.

Hvað syngur þú helst í sturt-unni? Pólskar (frumsamdar) aríur.

Wham! eða Duran? Duran Duran hefur alltaf fylgt mér. Ég man að ég var með Begga bróður þegar það kom í útvarpinu árið 1985 (eða kannski árið 1986) að tveir meðlimir bandsins væru hættir.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ziggy Stardust and the Spiders from Mars (helst á VHS) og The Black Rider með Tom Waits.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Vanalega er Cohen settur á, stundum Bob Dylan og mjög oft Tom Waits.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Okkur Andra og bandinu langar á tónleika með Tom Waits, kannski einhversstaðar í Frakklandi. Ég myndi einnig vilja hafa bróður minn Óla Þór með.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Þegar ég var krakki var það John Lennon en í dag er málið heldur flóknara nema ég lít mikið upp til manna eins og Roy Orbison og Leonard Cohen. Tom Waits hefur haft mest tónlistarleg áhrif á mig seinustu ár en öskrar það líka hátt að maður eigi að halda í sérstöðu sína og sérvisku.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Fyrsta plata Megasar, Megas sem kom út árið 1972.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir