Úr fortíðinni :: Hrakfarir séra Friðriks Friðrikssonar og annarra skólapilta að norðan - Hrepptu hið versta ferðaveður

Í bók séra Friðriks Friðrikssonar, æskulýðsfrömuðar og stofnanda KFUM, Undirbúningsárin sem kom út árið 1928, er ítarleg ferðasaga Friðriks úr Skagafirði, þar sem hann bjó og starfaði á sumrum, og til Reykjavíkur þar sem hann stundaði nám. Kom hann við hjá vinafólki á Kornsá í Austur-Húnavatnssýslu en þeir Björn og Ágúst bróðir hans, Lárussynir Blöndal, voru miklir mátar og urðu þeim samferða ásamt öðrum. Hrepptu þeir veður vond og var ferðin söguleg sökum hrakfara og vosbúðar. Við grípum niður á bls. 54 þar sem Friðrik er mættur á sýslumannssetrið á tilsettum tíma, stuttu fyrir aldamótin 1900. Millifyrirsagnir eru Feykis.

Jeg var sammæltur þeim Kornsárbræðrum til suðurferðar og átti að koma að Kornsá 23. sept. í síðasta lagi. Jeg kom þangað þann 21. og var mjer vel tekið. Björn var þá aftur veikur og fann jeg að hann varð feginn komu minni. Jeg dreif hann fljótlega á fætur, en samt var hann ekki álitinn ferðafær, þegar leggja átti af stað. Þann 23. sept. komu saman að Kornsá skólapiltar, sem ætluðu að verða samferða suður fjöll. Var ráð fyrir gert að leggja upp þann 24.

Það varð svo afráðið að Björn yrði eftir og færi með pósti suður seinna; en við hann vildi jeg ekki skilja og þótti sýslumanni vænt um. Hann skrifaði svo rektor bæði fyrir Björn og mig.

Síðan lögðu hinir upp að áliðnum hinum tilsetta degi. Átti um kvöldið að fara upp að Gilhaga og þaðan næsta dag yfir Grímstungnaheiði til Kalmanstungu. Sýslumannshjónin fylgdu hópnum fram að Gilhaga. Við Björn urðum eftir. En um nóttina skall á blindöskrandi norðanhríð með mikilli snjókomu. Næsta dag kom svo sýslumaður heim með allan flokkinn. Voru nú fjallvegir alls ófærir, og ekki um annað að gjöra en halda suður sveitir. Sátum við nú hríðteptir í 3 daga 9 skólapiltar. En nóg skemtun var á Kornsá og glaðar umræður og söngur mikill. Á þeim dögum hrestist Björn svo vel, að fært var álitið að hann færi með hinum. Var svo lagt af stað frá Kornsá miðvikudaginn 28. september.

Ferðin gekk seint, því öll gil og skorningar voru fullir af snjó; voru víða skaflar stórir og kafhlaup. Þó komumst vér um kvedið vestur í Víðidal og skiptum oss á bæina Lækjarmót og Þorkelshól. Það voru góðir bæir. Lækjamót hefur lengi verið annálað gestrisnisheimili. Jeg var með þeim flokknum er gisti á Lækjamóti, og höfðum vjer ágætisnótt. Næsta morgun lögðum vjer af stað, er félagarnir voru komnir frá Þorkelshóli. Fyrsti farartálmi var Víðidalsá, því svo stóra skafla hafði lagt að vaðinu, að erfitt var að koma hestunum niður í ána. Síðan var haldið þar sem leiðir liggja yfir Miðfjarðarháls. Voru þar þá illir vegir og seinfarnir. Í Miðfirðinum áðum vjer að Staðarbakka. Þar var prestssetur og var prestur þar sjera Lárus Eysteinsson frá Orrastöðum. Þar var oss vel tekið og drukkum vjer þar kaffi, vel og rausnarlega úti látið. Það var tekið að rökkva er vjer lögðum þaðan.

Er brattur háls og mikill á milli Miðfjarðar og Hrútafjarðar. Nýlega hafði vegur verið lagður yfir hálsinn og lá hann þráðbeint upp brattann. Himininn var þrunginn af skýjum, enda fengum vjer á hálsinum dynjandi rigningu og óveður mikið. Vjer komum að Þóroddstöðum í Hrútafirði og vorum þar um nóttina; þar var gestgjafastaður. Um kvöldið var glatt á hjalla og urðu einstaka dálítið hýrir, en alt var það samt í hófi. Húðarigning var alla nóttina og hvarf snjór allur í bygðum og gerðust flóð mikil. Á Þóroddstöðum bættust oss fjelagar í hópinn. Það voru þeir Sæmundur Bjarnhjeðinsson og Halldór Júlíusson, læknis á Klömbrum. Hann var þá aðeins 10 ára gamall eða svo og var að fara suður til læringar hjá afa sínum, Halldóri yfirkennara Friðrikssyni. Þótti víst sumum hann vera fullsmár í slíkt ferðalag með fyrirsjáanlega illa færð og vatnavexti, en hann reyndist hinn röskasti, og brá sjer hvorki við bleytu eða vosbúð.

Friðrik 18 ára, á þeim árum sem umrædd ferðasaga gerist.

Holdvotir í óveðri upp í Norðurárdal
Nú var lagt af stað frá Þóroddstöðum þann 30. sept. Óveðrið hjeltst látlaust, og svo hafði Hrútafjarðará vaxið, að vjer urðum að sundhleypa hana. Halldór litli hafði orð á því, er upp úr ánni kom, hve hestur hans hefði verið þýður í ánni. Vjer komum við á Melum og fengum þar bestu viðtökur. Var oss sagt frá því, að áin í Miklagili á Holtavörðuheiði mundi líklega vera bráðófær á vaðinu, enda vaðið mjög tæpt, en kunnugir vissu af broti nokkru ofar, sem kynni að vera fært. Vjer hjeldum svo þaðan og komum að Grænumýrartungu, því í ráði var að fá þar fylgd yfir heiðina.

Fengum vjer þar mann til fylgdar og hjetum að borga honum krónu á mann fyrir fylgd alla leið yfir heiðina; voru Það 12 krónur og þótti allmikið fje i þá daga. Fylgdarmaður reið efldum og óþvældum hesti. Þegar kom að Miklagili, fór hann yfir á vaðinu og komst nauðulega yfir. Vjer sáum að það yrði ofraun flestum vorra hesta, eins slæptir og þeir voru, að fara þar yfir. Hrópuðum vjer á fylgdarmann og hjetum á hann að vísa oss á brotið, en hann hrópaði á móti, að vjer skyldum koma yfir á vaðinu. Lauk því svo að vjer brutumst mesta tröllaveg upp með ánni, þar til er vjer fundum brot og fórum þar yfir, þótt ekki væri það árennilegt. Alt komst þó klakklaust af, enda höfðum vjer duglega og gætna fyrirreiðarmenn.

Vil jeg þar sjerstaklega nefna Guðmund Guðmundsson, síðar prest í Gufudal. Var hann vor elstur og sjálfkjörinn foringi fyrir dugnaðar sakir. Fleiri voru þar og vaskir menn og bárum vjer yngri og linari mikið traust til þeirra. Er vjer komum yfir, hittum vjer fylgdarmann vorn og fjekk hann hnútur nokkrar. Síðan var nú haldið ferðinni áfram í stöðugu óveðri og verstu færð. Gerðist þá og margt sögulegt í viðureign við gil og skorninga og aðrar torfærur. Hleyptum vjer ofan í hestunum er á undan voru reknir. Á miðri heiði þótti mönnum slík löðurmenska komin í ljós hjá fylgdarmanni, að Guðmundur skipaði honum að ríða aftast, að öðrum kosti mundum vjer ekki greiða honum fylgdarkaupið. Síðan gekk alt greiðar. Vjer náðum í myrkri að Fornahvammi allir rennblautir inn að skinni, því engar hlífar hjeldu. Á Fornahvammi fengum vjer hinar bestu viðtökur og mikið og gott að borða.

Voru borin inn stór trog af ágætis kjötkássu og voru þau hroðin hvert af öðru, Fylgdarmaður mataðist með oss. Hann var drjúgmontinn og ekki vitur að sama skapi. Gerðum vjer oss dælt við hann og höfðum hann að skopi miklu. Var það ærin skemtun, og þóttumst vjer vinna með því upp, það er oss fanst áfátt í fylgdinni. Hann tók því öllu með jafnaðargeði; var víst gæðakarl í raun og veru. Hann spurði, hvað kjötrjettur sá hjeti, er vjer borðuðum, og sögðum vjer hann heita „bomsaraboms“, og hann var hreykinn af þessu merkilega orði og notaði það óspart við borðið til mikillar skemtunar fyrir oss, gárungana.

Skárri er það nú vondskan
Að morgni þess 1. október lögðum vjer af stað frá Fornahvammi. Var enn hið versta hrakveður. Hugsuðum vjer þá til skólasetningarinnar, sem þann dag færi fram í Reykjavík, en vjer holdvotir í óveðri upp í Norðurárdal. Vjer komum að Hvammi. Þar bjó sjera Jón Magnússon og tók hann og frú hans móti oss opnum örmum. Vjer drukkum þar ilmandi kaffi með ágætum kökum. Síðan lánaði prestur oss tvo röska pilta til þess að fylgja oss yfir Norðurá, sem var í afarmiklum vexti. Þeir voru vel kunnugir og völdu oss gott vað. Þó vantaði ekki mikið á að sund væri. Jeg bað einn af samferðamönnum mínum, sem var ramur að afli og jeg treysti betur en sjálfum mjer, að ríða við hliðina á Birni Blöndal, því að hann var talsvert utan við sig enn þá, og reið jeg rjett í kjölfar þeirra.

En er út í miðja á var komið og straumurinn kolmórauður svall upp á lend á hestinum, sá jeg þann, er átti að ríða með Birni, taka annari hendi í reiða og hinni í fax hesti sínum og tók þá klár hans að vaða örara, er taumhaldið slakaðist, og var þá Björn eftir. Það kom þá geigur að honum og ætlaði hann að snúa við rangstreymis. Jeg varð svo hræddur um Björn, að jeg gleymdi hvar jeg var og sló í Skjóna minn og stýrði honum niður fyrir hest Björns. Jeg sagði hægt og einbeitt við hann: „Ef þú snýr ekki hestinum upp í strauminn og heldur áfram, læt jeg svipuna ríða um hausinn á þjer“.

Jeg held að þetta hafi verið einustu vondu orðin, sem milli okkar fóru nokkru sinni. Hann svaraði stilt: „Skárri er það nú vondskan“, en gerði eins og jeg sagði fyrir. Jeg reið svo við hliðina á honum til lands. En jeg var svo reiður, er upp á bakkann kom, að jeg reið beint að þeim, er hafði brugðist mjer, og sló hann vænt högg með svipunni. Við stukkum af baki og hefðum ráðið hvor á annan, ef aðrir hefðu ekki hlaupið á milli. Það var nú víst gott fyrir mig, því hann var mjer miklu sterkari og hefði haft í öllum höndum við mig. Við vorum látnir lofa því hátíðlega að eigast ekki ilt við á ferðinni. Það entum við, en lengi var fátt í vinfengi okkar þaðan af; þó býst jeg við að fáleikinn hafi aðallega verið á mína hlið.

Breiðargerði í Tungusveit í Skagafirði en þar bjó Friðrik með foreldrum sínum 1875 - 1878.

Svo skall myrkrið á
Nú hjeldum vjer ferðinni áfram yfir Grjótháls, og komum klukkan 6 að Norðtungu. Sama var óveðrið og var áin þar ekki fær, svo að vjer settumst þar að. Þar var þá bóndi gamall og blindur, Jón að nafni, og var þar mikið og rausnarlegt heimili. Rjett á eftir oss komu þangað 4 piltar að norðan og slógust í förina. Vorum vjer þá orðnir 16. Vjer fengum um kvöldið kjötsúpu ljúffenga mjög með nýju kjöti. Matarlystin var feikileg og ríkulega fram borið. Að máltíð lokinni umdi allur bærinn af söng og skemtun.

Jón bóndi var skemtinn og fróður og vel kátur. Mjer finst alt af, er jeg hugsa til hans, að jeg sjái einhvern tignarljóma hvíla yfir öldungnum blinda, svo mikið fanst mjer til um hann. Vjer fengum allir góð og vel upp búin rúm og vorum tveir og þrír í rúmi; en hvað gerði það? Það var aðdáanlegt að geta tekið á móti 16 gestum á einu sveitaheimili og farið með þá eins og gert var við oss.

Næsta dag, sunnudaginn annan október, hjeltst enn sama veðrið, en slotaði þó nokkuð er á daginn leið, en áin var ófær. Vjer sátum þar um kyrt í miklu yfirlæti til kl. 3 síðdegis. Húslestur var lesinn. Alt heimilisfólkið og gestirnir voru þar saman. Guðmundur Guðmundsson las lesturinn. Jeg man að fólkið talaði um, hve hátíðlegt hefði verið og mikill söngur. Því margir í förinni voru afbragðs raddmenn.

Með því að heldur virtist draga úr ánni, var lagt af stað kl. 3 og voru tveir menn fengnir oss til fylgdar; var farið yfir ána alllangt fyrir ofan vað, á krókóttum brotum og vandrötuðum. Var svo haldið áfram og hugðumst vjer að ná yfir Hvítá á Langholtsferju. Á leiðinni komum vjer við á Lundum og drukkum þar kaffi. Blöndalsbræður voru náskyldir fyrirfólkinu þar. Í rökkurbyrjun komum vjer niður að Hvítá, gegnt Langholti. Þar hrópuðum vjer á ferju og öskruðum af öllu megni í heilan klukkutíma. Heyrðust þau óhljóð um hálfan Borgarfjörð, nema að Langholti. Það kom engin ferja.

Svo skall myrkrið á og var aftur tekið að rigna. Allir vorum vjer ókunnugir á þeim slóðum. Svo var tekið til ráðs að halda niður með ánni, ef ske kynni að vjer rækjumst á bæ. Það varð og. Neðranes hjet bærinn, er vjer hittum fyrir oss í myrkrinu. Þar voru víst fremur lítil húsakynni þá. Lítil stofa var þar frammi í bænum, með einu allstóru rúmi og bekkjum í kring. Þar ljetum vjer fyrir berast; háttuðu 4 niður í rúmið, en vjer hinir sátum á bekkjunum. Inn af stofunni var eldhús með eldavjel. Þar var óspart kynt alla nóttina og við og við hitað kaffi handa oss.

Reynt var líka til að þurka vetlinga og sokka eftir megni. Fólkið var oss svo dæmalaust gott og sparaði ekkert, er það gat gert oss til þæginda. Var víst ekki næðissamt þar þá nótt. Annað slagið var verið að syngja og á milli dottuðu menn fram á borðið. Jeg fór eitt sinn inn í eldhús og settist á bekk við stóna. Þar var svo hlýtt og notalegt og sofnaði jeg þar og svaf um hríð. Lengi á eftir stríddu fjelagar mínir mjer á þessari eldhúsveru.

Séra Friðrik á fullorðinsárum.

Gátum ekki fengið fylgd
Kl. 6 eða 7 var svo lagt af stað um morguninn. Veðrið var þá kyrt og regnlaust, en loftið þrungið af skýjum. Nú fengum vjer greiðlega ferju og gekk ferðin yfir ána vel; en mikið var það sund er hestarnir fengu. Var nú og riðið greitt og fagnað þurviðrinu; en upp úr dagmálum fór að hvessa og gerði afspyrnurok og seinna hrakviðri. Vjer komum að Grund í Skorradal um miðjan dag. Þar snæddum vjer og fengum mjög góða máltíð og hinar bestu viðtökur, eins og við mátti búast á slíku sæmdarheimili. Óveðrið óx og var talið ófært bæði að ríða Andakílsá og komast yfir á ferju. Var þá um tvent að velja, að setjast þar að og bíða byrjar, eða ríða fram með öllu Skorradalsvatni að norðanverðu og fara yfir Botnsheiði.

Sá kosturinn var upp tekinn í trausti til þess, að fá mætti fylgd yfir heiðina frá Vatnshorni. Fram með vatninu er löng leið og var riðið niður við fjöruborðið, en vindur stóð af vatninu og skóf í hrinum vatnið upp yfir oss í viðbót við hrakviðrið. Vjer riðum þegjandi lengst af, hver á eftir öðrum, og var slagviðrið og vatnsausturinn svo mikill, að þeir sem aftarlega riðu sáu varla þá fremstu. Ekki var unt að ríða nema fót fyrir fót. Tók ferðin að Vatnshorni oss eitthvað um 3 tíma. Þegar að Vatnshorni kom, var þar ekki karla heima nema einn maður og gátum vjer ekki fengið fylgd; þó gekk sá er heima var með oss upp á brúnina og sagði oss til vegar.

Er upp á heiðina var komið, var tekið að skyggja en storminum farið að slota. Vegir voru þar aðeins óglöggar og slitróttar götur. Týndum vjer þeim brátt, og leiðarmerkjum líka, þeim sem oss hafði verið skýrt frá, því þegar lygndi, skall á þoka og fór fyrir oss alla útsýn. Fyr en varði vorum vjer því komnir afleiðis út í forarflóa, þar sem vjer einatt þurftum að draga upp hestana úr keldunum. Síðan fórum vjer yfir holt og móa og melabreiður og vissum hvorki stefnu nje stíg. Loks komum vjer fram á brún eina og var þar sótmyrkur fyrir neðan. Þar stigum vjer af baki og hjeldum ráðstefnu. Síðan rjeðust tveir efldir menn til niðurgöngu að kanna hvað við tæki. Það voru þeir Steingrímur frá Gautlöndum og Guðmundur Guðmundsson.

Loks heyrðum vjer til þeirra djúpt niðri og kölluðu þeir, að unt mundi vera að fara þar niður, væri það grasbrekka allbrött. Vjer teymdum svo hestana þar niður snarbratta brekku, en fyrir neðan tóku við sandar. Brátt komum vjer að á einni, eigi breiðri, en hún valt þar fram með beljandi straumfalli. Vjer riðum svo niður með ánni og höfðum hana á, vinstri hönd; það var fremur greiðfær vegur. Áin óx eptir því sem neðar dró. Alt í einu vissum vjer ekki fyrri til, en vjer vorum komnir á stall nokkurn og fjell áin þar niður í gljúfri allmiklu. Þar urðum vjer að nema staðar og kanna leiðina.

Þar fundum vjer skeið eina mjóa niður, rjett svo að hestur mátti fóta sig á henni. Þar selfluttum vjer hestana niður. Niður komumst vjer heilu og höldnu og hjeldum áfram niður með ánni og voru þar sandar og gróðurleysi. Fyrir handan ána sáum vjer í myrkrinu gnæfa upp snarbratta hlíð, en vor megin var fjallshlíð, ekki mjög brött að því sem virtist.

Er vjer höfðum riðið þannig um stund, komum vjer að áarsprænu eða læk, sem kom ofan úr fjallshlíðinni vor megin og rann niður í aðalána. En sprænan var nú svo bólgin af ilsku og beljaði fram með gný og grjótkasti, að eigi virtist gerlegt að leggja út í hana í dimmunni. Nú var ekki um annað að gera, en að nema þar staðar, binda saman hestana, því ekki var þar gras, og láta svo fyrir berast á melnum. Rennblautir vorum vjer inn að skinni og ekkert til að hressa sig á. Tveir fullorðnir lágu hvor sínu megin við Halldór litla og var hlaðið yfir þá hnökkum og reiðingum. Halldór bar sig hið besta og ljet engan bilbug á sjer finna. Þrátt fyrir slydduhríð og alt, sofnuðum vjer þar á berum melnum, og vöfðum um oss blautum kápunum.

Hve lengi vjer sváfum þar man jeg ekki, en hitt man jeg, að vjer vöknuðum í birtingunni skjálfandi af kulda. Var þá úrkomulaust en komið ofurlítið frost. Vjer börðum oss eins og vjer gátum til að fá úr oss skjálftann og fórum svo að leggja á hestana. Allir báru sig karlmannlega, enda þótt sumir væru svo loppnir, að þeir gátu ekki girt á hestum sínum. Áarsprænan, sem hafði stöðvað oss, var nú orðin talsvert minni og var hún örmjó. Vjer fundum vað rjett fyrir framan bunu eina, en rjett fyrir neðan var strengur. Svo straumhart var, að yfir skall. Minsta hestinn hrakti niður að strengnum. Það var hestur Ágústs Blöndal. Var um stund tvísýnt, hvernig fara mundi. Hlupu þá sumir niður á klöppina til þess að vera viðbúnir að ná í Gústa, ef hann bærist þar að. En til þess þurfti þó ekki að taka, því Ágúst var mjög röskur drengur og kunni lag á hestum, og komst hann klakklaust úr ánni.

Nú hjeldum við áfram eins og áður niður með aðalánni. Kl. var um 5, er vjer lögðum af stað. Eftir skamma reið vorum vjer alt í einu komnir niður að sjó. Þá gátum vjer fyrst áttað oss. Vjer vorum komnir niður að Hvalfirði, rjett fyrir utan Þyril. Það hafði þá verið Þyrillinn fjallið bratta hinum megin við ána. Kl. 7 komum vjer heim að bænum Þyrli um fótaferðartíma. Þar bjó bóndi sá er Þorkell hjet, tók hann vel á móti oss og ljet oss heimila bæði hvíld og mat.

Votir inn að skinni í samfleytta viku
Var nú háttað ofan í volg rúm heimamanna, þeir sem þar komust. Frammi í bænum var stofa og lítið herbergi fyrir framan, og sitt rúmið í hvoru. Í innri stofunni sváfum vjer fjórir, og áður vjer færum upp í rúm undum við 2 og 2 nærföt okkar; var stofugólfið líkast tjörn. Vjer sváfum nú sætt og vært til kl. 2 síðdegis, risum þá úr rekkjum og fengum heita máltíð góða. Meðan vjer sváfum hafði hlaðið niður töluverðum snjó.

Nú var farið að svipast að hestum. Þá vantaði 3 hesta; það voru hestar Blöndalsbræðra og Guðmundar Guðmundssonar. Þorkell bóndi rjeðist til fylgdar yfir að Reynivöllum, til þess að finna fyrir oss einstig það er liggur niður brattan Reynivallahálsinn. Lögðu svo 12 af stað með Þorkel í fararbroddi, en vjer 4 urðum eftir, þeir þrír, er hestana vantaði, og jeg, því jeg vildi ekki skilja við þá bræður, Björn og Ágúst. Skömmu seinna fundust hestarnir og vjer lögðum af stað.

Það var hásjáva, svo vjer urðum að fara alveg fyrir fjarðarbotninn og riðum vjer eins greitt og vjer gátum til þess að ná hinum. Það var orðið skuggsýnt, er vjer komum að Botnsá. Hún var blá og virtist ekki mikil. Var asi á oss, svo að vjer riðum í ána þar sem vjer komum að, en þar var hylur og hreptum vjer þar hrokbullandi sund. En nokkrum föðmum neðar var vaðið og þar var áin ekki öllu meira en í kvið. Vjer náðum fjelögum vorum rjett fyrir ofan Fossá. Þegar upp á hálsinn var komið, tók að hvessa og gerði skafhríð. Bar svo mikinn snjó í

veginn að Þorkell gat ekki fundið stíginn ofan að Reynivöllum. Þegar vjer komum fram á brúnina, sáum vjer ljósin í gluggunum á Reynivöllum, er sýndust beint fyrir neðan. En tvo tíma tók það, að komast ofan hálsinn. Það var langversta raunin á allri ferðinni. Loks komust vjer að prestssetrinu og þar enduðu allar þrautir. Presturinn, hinn nafnkendi fræðimaður, sjera Þorkell Bjarnason og hans ágæta frú tóku á móti oss með miklum höfðingskap og gestrisni. Voru vosklæði dregin af oss og komið með þur föt af heimamönnum; síðan var matur á borð borinn og snætt með mikilli gleði. Allir fengum vjer ágætis rúm. Um nóttina var þurkuð af oss hver spjör. Það voru viðbrigði eftir að hafa verið votir inn að skinni í samfleytta viku.

Næsta dag, 5. október, fengum vjer besta veður, fyrsta sinn á allri ferðinni. Svo ljettir og kátir í lund höfðum vjer aldrei verið, og þó hafði gleði og kátína aldrei brugðist í öllum hrakningunum. Við vörðuna á Svínaskarði fanst flaska full af svensku bankó og gekk hún á milli þeirra, sem ekki voru bindindismenn. Það var fyrsti áfengisdropinn, er menn höfðu smakkað á allri leiðinni frá Þóroddstöðum. Að aflíðanda degi komum vjer svo til Reykjavíkur og var oss tekið eins og menn þættust hafa oss úr helju heimt, og var þetta ferðalag lengi síðan allfrægt. Mörgum árum seinna, er jeg var á ferð í Borgarfirði og þessi ferð barst á góma, var oftast viðkvæðið: „Jæja, svo þú ert einn af þeim sextán“.

Nú lýkur svo þessari ferðasögu. Jeg hef haft hana svo ítarlega, bæði af því að þessi ferð er mjer svo minnisstæð og af því að lýsingin á henni getur; að jeg hygg, gefið mynd af haustferðalagi pilta á þeim árum, þótt þessi ferð væri að vísu óvenjulega viðburðarík. En þessar ferðir í stærri og minni flokkum norður og norðan voru meðal annars það, sem í þá daga knýtti skólabræður svo föstum fjelagsböndum og heyrðu til skólalífinu í þá daga. Þær voru líka þroskandi bæði líkamlega og andlega. Margir telja líka ferðaminningar skólaáranna meðal bestu minninga æsku sinnar.

Áður birst í 48.tbl. Feykis 2020

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir