Hlustar á allt frá 16 aldar madrigölum til þungarokks / HELGA RÓS

Helgu Rós Indriðadóttur frá Hvíteyrum í hinum aldna Lýtingsstaðahreppi ættu nú flestir tónlistarunnendur að kannast við. Helga Rós, sem er sprenglærð söngkona, er fædd 1969, dóttir Rósu og Indriða á Hvíteyrum, býli sem stendur undir Mælifellshnjúknum fagra. Hún kennir söng á eigin vegum og er með barnakór í Tónadansi, nýstofnaðri listasmiðju í Skagafirði. Hún stjórnar tveimur kórum; Skagfirska kammerkórnum og kvennakórnum Sóldísi.. Hljóðfæri Helgu Rósar eru röddin og píanóið.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Best í Lýdó – en það er íslenska útgáfan af Despasídó.

Uppáhalds tónlistartímabil? Ég er alæta á tónlist. Vinnunnar vegna hlusta ég á allt mögulegt, allt frá 16. aldar madrigölum til þungarokks. En það er ofboðslega mikið til af fallegri tónlist og sumt þarf að hlusta mjög oft á til að byrja að kunna að meta það og þolinmæði til að leyfa tónlistinni bara að virka á sig án þess að ákveða strax hvort manni finnst hún annað hvort rosa skemmtileg eða ótrúlega leiðinleg – skalinn er svo stór.

Helstu tónlistarafrek? Ætli það hafi ekki verið þegar ég var að syngja fyrir smiðina á bænum, þá fjögurra ára gömul.  Það var lagið Dansi dansi dúkkan mín – man þetta eins og það hefði gerst í gær. En það er spurning hvað flokkast undir afrek? Ég hafði óperusöng að atvinnu við mjög stórt óperuhús í átta ár og hóf þar störf beint úr skólanum þar í borg og byrjaði á að syngja hlutverk Freyju í Rínargullinu eftir R.  Wagner sem er aðeins meiri áskorun en Dansi dansi dúkkan mín. En hlutverk Elisabetar Drottningar í Don Carlo er líka alveg á við hálft Grettissund en það söng ég á vegum Íslensku óperunnar í Hörpu haustið 2014.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?  Aðallega einhverjir sólarsöngvar.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Söng, Villa Vill og fleira. Harmoníkutónlist með Gretti Björns og svo damlaði Gufan.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Sennilega platan með Shakin Stevens þar sem hann er í bleika jakkanum [innsk. Shaky frá árinu 1981]. En ég hlustaði líka mjög mikið á upptöku af kóræfingu hjá kórnum Heilsubót en foreldrar mínir voru í þeim kór og það voru lög eins og Ég vitja þín æska og Vel er mætt til vinafunda. Gríðarlegir hittarar!

Hvaða græjur varstu þá með? Líklega lítið flatt ferðakassettutæki.

Hvert var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn?  Örugglega Þrír kettlingar með Hönnu Valdísi ...við höfum tapað hönskunum, ó mamma mamma mamma mamma mjaaaaaaáááá... Seinna kom Af litlum neista með Pálma Gunnars og You Drive Me Crazy með Shaky Stevens

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég hef ekki alveg þolinmæði fyrir rappinu en læt það ekki eyðileggja daginn samt. Kannski þarf ég að hlusta meira á það og gefa því sjens.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Amabadama.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Stundum er gott að hlusta bara á fuglana úti í garði.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér?  Ég tæki Magnús sambýlismann minn með mér til Hamborgar í nýja tónlistarhúsið þar til að hlusta á uppáhalds klassíska verkið mitt, Sálumessu Verdis, í flutningi frábærra listamanna t.d. Jonasar Kaufmann.

Hvaða músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? Dire Straits - Money For Nothing.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Barbara Hannigan er afreksmaður, ég dáist að henni. Hún er bæði söngkona og stjórnandi. Ég hvet ykkur til að skoða hana á YouTube en ég er ekki viss um að ég myndi endilega vilja vera í hennar sporum – harður heimur.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út?  Tja... ég held að allar upptökur af klassískum söngvurum fyrri ára hafi haft mikil áhrif á mig, get eiginlega ekki tekið neitt fram yfir annað, en þetta er ótrúlegur fjársjóður.

Sex vinsælustulögin á Playlistanum þínum? Æ, ég er svo gamaldags. Núna er ég til dæmis að hlusta á þáttinn Á reki með KK, hann er oft með góða playlista :-)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir