Úr sveitinni á Skaga til miðbæjar Reykjavíkur :: Áskorandapenninn – Kristmundur Elías Baldvinsson, Tjörn á Skaga

Ég tók undir mig nokkuð stórt stökk þann 16. ágúst síðast liðinn þegar ég fluttist frá Tjörn á Skaga, þar sem ég hafði alist upp og búið allt mitt líf, og flutti suður í miðbæ Reykjavíkur, þar sem ég átti eftir hefja mína framhaldsskólagöngu í Borgarholtsskóla. Það var gríðar mikið menningarsjokk að fara á milli þessa ólíku heima.

Til að byrja með þurfti ég að taka strætó í skólann, sem var nú svo sem ekki allstór breyting fyrir mig sem var vanur að sitja í klukkutíma í skólabíl alla daga síðustu tíu árin. En í strætó er enginn til að vekja mann þegar maður er kominn í skólann, sem var eitt sem ég þurfti að venjast og vera vakandi fyrir, en það var fljótt að komast í vana. Þar sem ég bjó í miðbæ Reykjavíkur var ekki nema tveggja mínútna gönguleið á Hlemm. Þá var töluvert meiri umferð heldur en heima, sem var nú annað sem var mér ókunnugt þar sem maður þekkti ekki nokkurn mann sem maður mætti, annað en á Skagaströnd þar sem allir þekkja alla. Ég þurfti líka að venjast því að búa í blokk sem mér fannst furðulegt að þurfa að gera að vana.

Lífið í þessari umræddu blokk er vel sturlað til að nefna nokkra einstaklinga, eitt stykki klikkuð kattarkona sem kvartar undan öllu sem gengur og gerist í kringum hana og það eitt að gleyma að slökkva ljósin niðri í kjallara er stór alvarlegt lögreglumál í hennar augum svo það hentaði henni líklega bara vel að búa svona stutt frá lögreglustöðinni, því hún gæti bara labbað yfir ef þess væri þörf að hennar mati. Síðan var það önnur fjölskylda sem ég verð að segja að ég hafi fundið til með því þau voru stanslaust að rífast og það heyrðist hátt og skýrt upp og niður alla blokkina. Ég skildi nú ekki orð af því því það var allt á pólsku. Fyrir neðan mig bjó svo óperukennari sem hélt tímana sína í íbúðinni sinni.

Sjálfur er ég nú ekki menntaður í söngkennslu en ég get þó sagt að flestir tímar líktust meira góli heldur en óperu. Síðan var það ég, sveitalubbinn að norðan sem stóð út úr eins og heimskur hrútur í hænsnakofa þarna í miðbænum. Þetta voru aðeins aðal sögupersónurnar og urðu sögurnar sem þessar persónur smíðuðu svo sannarlega sögur til næsta bæjar. Mér líkar þó ágætlega þarna í þessum sirkus sem kallast miðbærinn og ég veit að ég á nú eftir að staldra örlítið lengur við og allavega klára námið sem mér gengur prýðilega í en ég verð alltaf jafn kátur með að komast heim í sveitina þar sem loftið er tærara og mjólkin ekki í pappakössum.

Ég skora á Benedikt Blöndal Lárusson að koma með pistil.

Áður birst í 22. tölublaði Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir