Vaglar í Blönduhlíð :: Torskilin bæjarnöfn

Vaglar 17. ágúst 2006. Fjósið til vinstri. Sér á stafn vélaskemmunnar ofan við heyrúllurnar. Miðsitjuskarðið í baksýn. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar.
Vaglar 17. ágúst 2006. Fjósið til vinstri. Sér á stafn vélaskemmunnar ofan við heyrúllurnar. Miðsitjuskarðið í baksýn. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar.

Þannig mun nafnið rjett ritað (ekki Vaglir). Því að í Ljósvetningasögu segir: „Arnórr ríðr á Vagla“ (Ljósvetningasaga, bls. 5). Og Prestssaga Guðmundar góða segir svo frá: „Þá fór Ingimundur fóstri hans á Vagla at búa“ (Sturl. I., bls. 171). Á báðum stöðum er orðið (kk.) í þolfalli, og tekur af öll tvímæli um, að nefnif. hefir verið Vaglar. Þolf. Vagli finst fyrst við árið 1452, en í öðru brjefi sama ár, er það ritað Vagla (Dipl. Ísl. V. b., bls. 89 og 91 og víðar).

Eftir það bregður rjettu beygingunni sjaldan fyrir, en rangbeygingin Vagli í þolf. (kk. fleirt,) finst víða; ennfremur Vaglir nefnif. kvk. (beyg. eins og hæðir). Breytingin hefir því orðið á 15. öld. Á. M. ritar Vaglar samkvæmt uppruna, en Johnsens Jarðatal hefir Vaglir (Saln t. s. Ísl. IV., bls. 574), eins og almenn málvenja nú. Bæjarnafnið þekkist í fjórum sýslum (Safn t. s. Ísl. IV., bls. 574), en aðeins á einum stað hefi jeg sjeð það í eintölu: Vagli í Hallárdal (O. Olavii Öekon. Reise, bls 218). Mjer þykir sennilegt, að orðið vaglar sje fleirt. af vagall, sem að vísu þekkist ekki nú, myndað eins og hagl af hagall (þ. e. rúnaheitið forna h) og baglar af bagall. Þótt orðið þekkist ekki, er það engin sönnun fyrir því, að það hafi ekki verið til, enda er margt af orðum glatað úr málinu (sbr. Finnur Jónsson: Málfræði ísl. tungu, bls. 80 og 81).

Vagall hefir að líkindum verið skylt sögninni að vega, þ. e. að lyfta, hefja, því að orðið er æfagamalt í þeirri merkingu, sbr. Njálu, bls. 148: „Gunnar vegr hann upp á atgeirinum.“ Eins og kunnugt er, tengdi stutt þverslá efri sperruendana í gömlu baðstofunum. Slár þessar kölluðust vaglar og af því talshátturinn: að vagla saman (sperrur), þ. e. setja vagla á milli. Hver einstök „slá“ hefir því upphaflega kallast vagall. Í samsetningum höfum vjer til vaglskora af líkingunni við skoru, sem gerð var í vagla yfir fjárhús. „Vagallinn“ hlaut að vega uppi efsta hluta þaksins, rjáfrið. Hann er efstur af húsgrindinni. Grundvallarmerkingin í Vaglar hlýtur því að vera það sem ber hátt, stendur hátt (lyft), bygt uppi á hæð, og er það í ágætu samræmi við Vagla í Blönduhlíð, sem standa mjög hátt og gnæfa yfir aðalbæjaröðina neðra. Sömuleiðis standa Vaglar á Þelamörk hátt. Um aðra Vaglabæi veit jeg ekki, en fróðlegt væri að vita, hvort þeir standa hátt, eins og mig grunar.

Samkvæmt þessu er rjetta nafnið Vaglar (sjá að öðru leyti um þetta nafn í ritgerð prófessors Finns Jónssonar, Safn t. s, Ísl. IV., bls. 576) og ætti enginn að rita það öðruvísi (sjá innganginn).

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir