Vísindin efla alla dáð og mennt er máttur - Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember 2019

Jónas Hallgrímsson var snillingur á marga vegu. Hann var fjölhæfur, listrænn, athugull og framsýnn. Hann var mikill vísindamaður og ólst upp í náinni snertingu við náttúruna í sínum heimahögum. Eftir fyrsta árið við nám í Kaupmannahöfn fann hann sína réttu hillu, náttúruvísindin. Hann helgaði líf sitt skrifum um náttúruvísindi og rannsóknum á náttúru Íslands en einhvern veginn hefur það hlutverk hans fallið í skugga skáldsins, þjóðskáldsins.

Eðlilegt má telja að skáldsins sé minnst fyrst og fremst. Orðið var máttur hans og með orðum og skáldskap breytti hann íslenskri bókmenntahefð. Jónas unni landi, þjóð og tungu jafnt. Hann lagði fyrir sig nýyrðasmíð og efldi á þann hátt íslenska tungu. Hann endurvakti forna bragarhætti eins og eddukvæðahætti og blés nýju lífi í bókmenntahefðina með því að yrkja undir erlendum bragarháttum og kynna þá þannig fyrir þjóð sinni. Hann skrifaði fyrsta nútíma ritdóminn um bókmenntir og fyrstu íslensku nútíma smásöguna. Hann var vel að sér í sögu lands og þjóðar og það endurspegla kvæði hans. Bókmenntaarfurinn svalaði þó ekki forvitni hans að fullu. Þegar hann kom til Kaupmannahafnar og hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla kynntist hann náttúrufræðideild skólans og má segja að náttúruvísindin hafi verið lífsstarf hans. Náttúran og vísindin heilluðu hann ekki síður en bókmenntirnar, heilluðu hann svo mjög að hann var frumkvöðull að hugmynd og baráttu fyrir stofnun náttúrudeildar við Lærða skólann í Reykjavík sem ekki varð að veruleika fyrr en komið var fram í 20. öldina.

Það má segja að Jónas hafi verið brautryðjandi á sviði bókmennta og náttúruvísinda meðan hann lifði og afrekaði hann ótrúlega margt á sinni stuttu ævi. Hann var hugsuður sem hvort í senn horfði til baka á sögu lands, þjóðar og tungu og fram á við til framtíðar þrenningunni til heilla. Í ljóði sem Jónas orti og flutti í veislu sem haldin var í Kaupmannahöfn til heiðurs vísindamanninum Pål Gaimard segir hann: Vísindin efla alla dáð, orkuna styrkja, viljann hvessa, farsældum vefja lýð og láð.  Jónas hefur trú á því að vísindin færi manninum, íslensku þjóðinni farsæld. Við sem lifum hraðar breytingar 21. aldarinnar getum velt því fyrir okkur hvort draumar Jónasar um farsæld þjóðar hafi orðið að veruleika.

Íslenska þjóðin í takti við alþjóð upplifir nú undur fjórðu iðnbyltingarinnar sem svo er kölluð. Iðnbyltingar þar sem tækni tekur yfir störf manna og hefur sífellt meiri áhrif til að stýra lífi fólks. Gervigreind og algóritmar þróast hratt og hafa áhrif á hugsun og viðhorf manna. Óttinn við að maðurinn missi stjórn og gervigreindin verði honum yfirsterkari er farinn að bæra á sér. Spurt er hvort við stjórnum tækjum okkar eða þau okkur. Maðurinn sem virðist hafa beislað náttúruna óttast nú mest að hún snúist gegn honum. Taka má orð Jónasar sér í munn og spyrja: Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Spyr sá sem ekki veit en náttúran hallar undir flatt og veit sínu viti.

Jónas Hallgrímsson hafði trú á vísindunum eins og fram kemur í ljóði hans og hann vildi sjá að alþýðufræðslu yrði komið á fyrir alla þannig að allir landsmenn gætu gengið í skóla og lært. Jónasi var alla tíð mikið í mun að mennta þjóð sína. Seinni hluti ljóðsins, Til Pål Gaimard, er eftirfarandi: Tífaldar þakkir því ber færa þeim, - sem að guðdómseldinn skæra vakið og glætt og verndað fá - viskunnar helga fjalli á. Um leið og Jónas þakkar þá má finna þann undirtón að guðdómseldinn þarf ekki bara að glæða heldur líka að vernda og til þess er þekkingin. Því er hægt að taka undir eftirfarandi sannindi: Vísindin efla alla dáð og mennt er máttur.

Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir, íslenskukennari við FNV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir