Afhjúpuðu mótmælaskilti

Í gær var afhjúpað á Arnarstapa í Skagafirði skilti þar sem fyrirhugaðri lagningu Blöndulínu 3 um héraðið er mótmælt. Það voru Ragnheiður Jónsdóttir frá Víðimýrarseli og sonur hennar Kári Snædal sem afhjúpuðu skiltið, en með góðfúslegu leyfi Jóns Gissurarsonar bónda er skiltið staðfest í landi Víðimýrarsels.

Um fjörtíu manns voru samankomnir á Arnarstapa til að fylgjast með athöfninni. Hrafn Margeirsson flutti tölu og las upp vísur eftir Jón Gissurarson sem honum bárust símleiðis, en Jón forfallaðist á síðustu stundu. Þá flutti Rakel Gylfadóttir vísur eftir Benedikt á Stóra-Vatnsskarði sem hljóða svo:

Við skulum ei að verkum hrapa
verjum okkar samfélag.
Eflaust kvöld á Arnarstapa
okkar styrkir bræðralag.

Glitrar dögg og græn er jörðin
glampar sól við hafsins brún.
Við yfir lítum okkar fjörðinn
með Eylendið og slegin tún.

Vilja jarðstrengi í stað loftlínu
Hópurinn sem að mótmælunum stendur hefur fylgst með áformum um lagningu línunnar og komið með ábendingar um fyrirætlanirnar í því lögformlega ferli sem málið hefur farið gegnum. Bent hefur verið á lagningu jarðstrengs sem vænlegri kost, út frá umhverfissjónarmiði, en umhverfismat gefur til kynna að veruleg sjónræn mengun verði af framkvæmdinni, enda um 30 metra há möstur og línuvegi að ræða.

Í tölu sinni hrósaði Hrafn sveitarstjórnarmönnum fyrir að hafa ekki gert Landsneti kleift að koma fyrirætlunum sínum í framkvæmd með því að setja loftlínur inn á aðalskipulag, en hvatti þá hins vegar til að setja jarðstrengi þar inn í staðinn. Einnig minnti Hrafn á að fyrirhugaðar línur nýttust einkum virkjunum og stóriðjum, þar sem þær ættu að tengja saman virkjanir á suðvesturhorninu og Austurlandi. Þær kæmu íbúum Skagafjarðar ekki að neinum beinum notum.

Að sögn Hrafnhildar Brynjólfsdóttur og Hrafns Margeirssonar á Mælifellsá hefur því verið haldið fram að hálfu Landsnets að lagning jarðstrengs yrði um 5-7 sinnum dýrari framkvæmd en loftlína, en hópurinn hefur undir höndum gögn sem gefa til kynna að kostnaðurinn sé 1,2 til tvisvar sinnum meiri.

.

Fleiri fréttir