Áhersla lögð á umhverfisvernd á Eldi í Húnaþingi

Heill gámur af plasti, fiskineti og ýmsu öðru var fylltur. Mynd: Elsa Rut Róbertsdóttir.
Heill gámur af plasti, fiskineti og ýmsu öðru var fylltur. Mynd: Elsa Rut Róbertsdóttir.

Strandhreinsun að Söndum fór fram í gærmorgun á Eldi í Húnaþingi. Sagt er frá þessu á vef Rúv.is en í samtali við Gretu Clough, listrænan stjórnanda Elds í Húnaþingi, kom fram að fólk á öllum aldri hafi tekið þátt í viðburðinum í fallegu veðri.

Fylltur var heill gámur af plasti, fiskineti og ýmsu öðru. Sérstök áhersla var lögð á umhverfisvernd á hátíðinni í ár og endurvinnanlegir kaffibollar, skálar og hnífapör verið í boði. Hátíðargestir voru hvattir til að tína upp rusl vegna þess að rusl safnist jafnan fyrir á svona útihátíðum. „Við höfum reynt að hvetja fólk til að tína upp rusl í kringum sig. Auðvitað safnast fyrir mikið rusl á svona hátíðum. Fólk virðist taka þessu vel og sýna þessu áhuga,“ segir Greta.

Þetta var í 16. sinn sem hátíðin var haldin en um 3.000 manns sóttu hátíðina heim í ár sem er meira en undanfarin ár. Aðsókn á hátíðina er að aukast á ný og ungt fólk sýnir henni áhuga í auknum mæli. Greta segir að um ellefu hundruð manns hafi sótt tónleikana í Borgarvirki á föstudagskvöld og hafi aldrei verið fleiri. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir