Allir sáttir eftir kosningar

Efstu menn þeirra flokka sem komu mönnum á þing í Norðvesturkjördæmi svara spurningu vikunnar í Feyki sem kemur út í dag. Spurningin er: Ertu sátt/ur við niðurstöður kosninganna? Allir eru sáttir þó einhverjir hefðu búist við eða viljað betri niðurstöðu sinna flokka.

 

 

 

  

Haraldur Benediktsson

Ég er alltaf sáttur við niðurstöður lýðræðins. En auðvitað stefndum við að betri árangri og þremur mönnum á þing í NV. Ég þakka öllum sem studdu okkur og  tóku þátt í baráttunni.   

 

 

 

Ásmundur Einar Daðason

Við vissum að það var á brattann að sækja en á ferðum okkar um kjördæmið fundum við fyrir mikilli jákvæðni. Við erum því mjög ánægð með þessu úrslit. Þessu fylgir mikil ábyrgð og við munum leggja okkur fram að standa undir henni.  

 

 

 

Bergþór Ólason

Já, ég er virkilega ánægður með niðurstöðuna. Í kjördæminu var ánægjulegt að Miðflokkurinn næði inn tveimur mönnum og á landsvísu tekst okkur að ná hæsta atkvæðavægi sem nýtt framboð hefur nokkurn tímann náð.

 

 

  

 Guðjón S. Brjánsson

Já, ég get ekki verið annað en sáttur. Við tvöföldum fylgi okkar, erum komin á góðan rekspöl með kjördæmakjörna þingmenn í öllum kjördæmum.  Þótt við hefðum viljað enn skýrari niðurstöðu almennt, þá erum við í Samfylkingunni fyrir okkar leyti ánægð og þakklát fyrir stuðninginn.  Fram undan eru krefjandi verkefni á þingi og spennandi uppbyggingarstarf okkar félaga um allt kjördæmið.

 

 

  

 Lilja Rafney Magnúsdóttir

Ég er ánægð með að Vinstri græn á landsvísu bættu við sig manni en það eru vissulega vonbrigði að hafa ekki náð tveim mönnum í kjördæminu þar sem sáralítið vantaði uppá að það næðist og Bjarni Jónsson er öflugur fulltrúi fyrir landsbyggðina. Ég vil þakka öllum sem studdu okkur og heiti því að Vinstri græn munu vinna að heilindum að þeim brýnu verkefnum sem bíða stjórnvalda hvort sem við verðum í ríkisstjórn eða ekki.

 

ATH. Í Feyki er svar Lilju Rafneyjar ekki með þar sem það barst eftir að blaðið fór í prentun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir