Alþjóðlegi Downs-dagurinn er í dag

Alþjóðlegi Downs-dagurinn er í dag en það var árið 2011 sem Sameinuðu þjóðirnar lýstu því formlega yfir að 21. mars væri alþjóðadagur Downs-heilkennis með það að markmiði að auka vitund og minnka aðgreiningu. Dagsetningin er táknræn þar sem hún vísar til þess að Downs-heilkenni er orsakað af aukaeintaki í 21. litningi, þ.e. þrjú eintök af litningi 21 - 21.03.
Á Íslandi fara um 80 prósent kvenna í fósturskimun fyrir Downs-heilkenni og er það hlutfall með því hæsta sem gerist í heiminum. Þróunin hefur því orðið sú að æ færri börn fæðast með Downs heilkenni þar sem fóstrum sem greinast með heilkennið hefur markvisst verið eytt og hefur það vakið upp áleitnar siðferðislegar spurningar um hvort þar sé um réttlætanlegt inngrip að ræða.
Félag áhugafólks um Downs-heilkenni gaf í gær út upplýsingabækling um fósturskimanir fyrir Downs-heilkenni. „Þarna eru fyrst og fremst upplýsingar og hvatning til foreldra að íhuga vel afstöðu sína til fósturskimana. Ekki er tekin afstaða með eða á móti þeim,“ segir Þórdís Ingadóttir, formaður Félags áhugafólks um Downs-heilkenni, í samtali við mbl.is í dag. „Við veitum verðandi foreldrum ráðrúm, tækifæri og þekkingu til að taka upplýsta, sameiginlega ákvörðun um það hvort fara eigi í skimun og hvað skuli gera með niðurstöður úr þeim,“ segir Þórdís ennfremur.
Í dag klæðist fólk um allan heim mislitum sokkum til að fagna og sýna samstöðu með margbreytileikanum. Börnin á Leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki létu ekki sitt eftir liggja eins og meðfylgjandi mynd sýnir en það var Ásbjörg Valgarðsdóttir sem sendi okkur hana.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.