Ályktun fundar sauðfjárbænda

Sauðfé í rétt. Mynd: KSE
Sauðfé í rétt. Mynd: KSE

Eins og sagt var frá á Feyki.is í gær stóðu Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda og Félag sauðfjárbænda í Skagafirði fyrir opnum umræðufundi á Blönduósi í fyrrakvöld. Svohljóðandi ályktun var lögð fyrir fundinn og hún samþykkt. 

"Sameiginlegur fundur Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda og Félags sauðfjárbænda í Skagafirði skorar á sláturleyfishafa, stjórnvöld og forystumenn bænda að taka á þeirri grafalvarlegu stöðu sem nú er uppi.

Á Norðurlandi vestra og Ströndum eru um 420 sauðfjárbú og á þeim fer fram um 30% af sauðfjárframleiðslu í landinu. Það liggur því fyrir að sauðfjárrækt er þessu svæði gríðarlega mikilvæg atvinnugrein. Ef verðlækkanir sem boðaðar hafa verið á sauðfjárafurðum, verða að veruleika eru allar forsendur í rekstri sauðfjárbúa brostnar. Hætt er við að afleiðingarnar verði hrun í búgreininni og í framhaldinu stórfelld byggðaröskun.

Tekjuskerðing sem sauðfjárbændur á þessu svæði standa nú frammi fyrir, að viðbættri tekjuskerðingu síðasta árs, nemur skv. upplýsingum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins að meðaltali um 1,5 milljón kr. á bú. Það liggur því fyrir að stór hluti sauðfjárbænda mun ekki ná endum saman að óbreyttu." 

Fleiri fréttir