Bárukliður frá Blönduósi

Sigurjón Fossamaður, Björn í Hlíð og IHJ í orlofi við Blönduós.
Sigurjón Fossamaður, Björn í Hlíð og IHJ í orlofi við Blönduós.

Þessar fyrstu vetrarvikur njóta orlofsdaga við Blönduós, hjón komin sunnan af Selfossi, áttu sumarið sitt uppi á Skeiðum, einnig orðin amma og afi en sú kynslóð notar síður þetta vinnutengda orð, orlof.

Hvítbrotnandi báran tók fagnandi móti þeim hér við sandinn, skjalaverðir á héraðsskjalasafninu sömuleiðis og svo býr aldin móðir upp á Héraðshæli A-Hún sem þau heimsækja og stundum kemur hún með handavinnuna sína til þeirra út í orlofshúsið í Brautarholti að masa og prjóna með tengdadótturinni. Ekki vantar þau samkomur að sækja, síðast kvöldmessa – styrkleikamessa með fermingarbörnum s.l. sunnudagskvöld.

Gönguferðir er auðvelt að stunda og bókakallinn tók með nokkur eintök af nýrri bók Sveins Torfa Skagstrendings, Með grjót í vösunum og fleiri nýjar bækur frá Sæmundi/Bókakaffinu á Selfossi að bjóða kunningjum og bókamönnum.

Að loknum vel sóttum fundi með sagnfræðingum tveim um þrif og smit í Heimilisiðnaðarsafninu lau. 30. okt., buðu orlofshjónin heim tveimur reynsluboltum í Kanaríferðum, gamalgrónum bændum, sem horfið hafa að kyrrlátara sýsli á efri árum sínum. En til sólarlanda sóttu þeir sér gæfu og gleði og sýndu áðurnefndum íhaldssömum bókakalli hve ráðlegt er að taka sér tíma til breytinga, fara í nokkrar vikur suður til hlýrri landa eða þá til bóka, handrita og bárugjálfurs norður við Blönduós.
Þannig miðlast sögur og reynsla. Og Feykir og Fésbók leggja því lið.

/Ingi Heiðmar Jónsson

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir