Bílaþjónusta Norðurlands - Veitir hjálparþurfi vegaaðstoð

Baldur hefur yfir öflugum tækjum að ráða og vílar ekki fyrir sér að keyra langa vegu til að aðstoða fólk í neyð. Mynd: PF.
Baldur hefur yfir öflugum tækjum að ráða og vílar ekki fyrir sér að keyra langa vegu til að aðstoða fólk í neyð. Mynd: PF.

Á Sauðárkróki rekur Baldur Sigurðsson fyrirtæki sitt Kvíaból sem heldur utan um rekstur útibús bílaleigunnar AVIS á staðnum. Fyrir stuttu bætti hann við umfangið og ákvað að bjóða upp á vegaaðstoð og fyrirtækið Bílaþjónusta Norðurlands varð til. Í síðustu viku fékk Baldur í hendurnar bílaflutningakerru. sem ætti að koma í góðar þarfir við þjónustuna og Feykir ákvað að kanna málið örlítið.

Baldur segir að rekstur Bílaþjónustu Norðurlands snúist um það að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi á þjóðvegum landsins. „Þá er ég ekki eingöngu að tala um bílaflutninga heldur aðstoða ég fólk líka með alls kyns vandamál. Reyni t.d. að gera það sem þarf áður en skipta þarf um bíl. Ég skipti t.d. um eldsneyti á bílum ef dælt er röngu á, redda sprungnum dekkjum, losa bíla sem eru fastir og flyt bíla þangað sem þurfa þykir, o.fl.“

Aðspurður um hvort eingöngu sé verið að þjónusta bílaleigubíla segir hann ekki svo vera. „Þetta er fyrir alla, konur og kalla. Fólk bara hringir í mig og ég mæti á staðinn,“ segir Baldur en síminn hjá honum er 8933515, bara svona ef lesendur rata í ógöngur.

Þjónustan er enn að slíta barnsskónum því Baldur fór af stað með hana þann 1. maí sl. Hann segir þetta nuddast af stað en tekur fram að það muni taka tíma að koma þessu áfram.

Baldur segir þessa starfsemi fína meðfram bílaleigu AVÍS enda  hugsunin sú að að hafa með til að styðja reksturinn.

Þeir sem lenda í vandræðum á vegum úti geta hringt í Baldur sem segir að engin mörk séu á því hvert hann fer „Það eru engin landamæri á Íslandi og ég fer þangað sem ég er beðinn um að fara. En auðvitað er þetta fyrst og fremst hugsað fyrir Norðurland og ég get vel sinnt svæðinu frá Vopnafirði og norður á Strandir,“ segir hann að lokum.  

(Í 26. tbl. Feykis 2018 birtist rangt símanúmer hjá Baldri. Er beðist velvirðigar á því.)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir