Bjartsýni hjá skagfirskum fyrirtækjum þrátt fyrir ástandið
Í byrjun vikunnar bárust af því fréttir að Standard og Poor´s hefði fyrst greiningarfyrirtækja lækkað lánshæfismat á Rússlandi niður í svonefndan ruslflokk. Nokkur fyrirtæki í Skagafirði eru í umtalsverðum viðskiptum við Rússland en forsvarsmenn þeirra eru þrátt fyrir ástandið bjartsýnir á viðskipti þangað.
„Það hefur áhrif á sölu á öllum mörkuðum sérstaklega óvissa sem leiðir yfirleitt til að menn halda að sér höndum lengur,“ sagði Gunnsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri Loðskinns, í samtali við Feyki í vikunni. „Yfirleitt opnast leiðir í viðskiptum þegar tíminn líður en það verða í það minnsta tafir á sölu vegna ástandsins. Ég er svo sem ekki viss um að færsla í ruslflokk hafi haft úrslita áhrif þar, en ofan á annað bætir það ekki stöðuna.“
Loðskinn selur einkum mokka til Rússlands, óbeint með viðkomu á Ítalíu þar sem framleiddir eru jakkar. Þá á fyrirtækið aðild að sölu sláturhúsanna á hráum gærum til Rússlands. Gunnsteinn segir að ástandið í Rússlandi snerti lítið viðskipti með roð.
Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri Fisk Seafood, segir áhrifin lítil þar sem fyrirtækið eigi ekki í miklum viðskiptum við Rússland.
Ágúst Andrésson framkvæmdastjóri Kjötafurðamiðstöðvar KS, segist mjög bjartsýnn á viðskipti við Rússland. „Það er heilmikið að gerast hjá okkur á Rússlandsmarkaði, við erum einmitt að taka þátt í stórri matvælasýningu í Moskvu eftir viku,“ sagði Ágúst í samtali við Feyki. „Auðvitað hefur ástandið með rúbluna áhrif á peningaflæði, það verður að hafa aðeins meira fyrir hlutunum, en fólk þarf eftir sem áður að borða.“
Í greiningu Standard og Poor´s segir að slæmar horfur séu í efnahagslífi Rússlands vegna lækkandi olíuverðs, refsiaðgerða vegna deilunnar í Úkraínu og gengis rúblunnar. Talið er að veikar vonir séu um hagvöxt og reiknað með enn frekari samdrætti. Moody´s og Fitch höfðu fyrr í mánuðinum einnig lækkað lánshæfismat landsins og hjá þeim stendur Rússland einum flokki ofar ruslflokknum. Bæði gáfu fyrirtækin út að til greina kæmi að lækka Rússland enn frekar.