Bleikt og blátt

Heyrúllur í Óslandshlíð. Mynd:FE
Heyrúllur í Óslandshlíð. Mynd:FE

Nú er heyskapur víðast hvar kominn á fullt og eitthvað er um það að bændur séu búnir með fyrri slátt. Það vekur sérstaka athygli nú, þegar ekið er um sveitir, að túnin eru óvenju skrautleg þetta sumarið.

Í fyrrasumar stóð framleiðandinn Trioplast, ásamt dreifingaraðilum og bændum, fyrir átakinu "Bleikar heyrúllur" og var tilgangurinn að minna á árvekni um brjóstakrabbamein og styrkja rannsóknir á því. Lagðar voru 425 krónur af hverri bleikri plastrúllu sem seld var í sjóð og söfnuðust 900 þúsund krónur. Voru þær notaðar til endurnýjunar tækja til brjóstamyndatöku fyrir Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. 

Í sumar má einnig sjá bláar heyrúllur og er markmiðið með sölu bláa heyrúlluplastsins að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein. Munu þrjár evrur af sölu hverrar blárrar og bleikrar rúllu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á blöðruhálskrabbameini og brjóstakrabbameini.

Þess má geta að í tilefni af átakinu verður haldin myndasamkeppni á Instagram um skemmtilegustu og frumlegu myndirnar þar sem bleiku og bláu rúllurnar eru í aðalhlutverki. Allir geta tekið þátt í samkeppninni en myndirnar skal merkja #bleikrulla eða #blarulla.

Nánar má lesa sér til um átakið á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.

 

Fleiri fréttir