Bryndís Rut Haraldsdóttir í Varmahlíð er Maður ársins 2020 á Norðurlandi vestra

Maður ársins á Norðurlandi vestra, Bryndís Rut Haraldsdóttir. Mynd:ÓAB
Maður ársins á Norðurlandi vestra, Bryndís Rut Haraldsdóttir. Mynd:ÓAB

Líkt og undanfarin ár stóð Feykir fyrir kjöri á manni ársins á Norðurlandi vestra. Blaðinu bárust sjö tilnefningar og gafst lesendum kostur á að velja milli þeirra. Þátttaka var góð og varð niðurstaðan sú að Bryndís Rut Haraldsdóttir í Varmahlíð hlaut flest atkvæðin í kosningunni.
Bryndís er fyrirliði kvennaliðs Tindastóls sem sigraði Lengjudeild kvenna með miklum glæsibrag í sumar. Þar fór Bryndís fyrir sínu liði í hjarta varnarinnar sem fékk aðeins á sig sjö mörk í 17 leikjum. Í tilnefningu sem blaðinu barst segir meðal annars að Bryndís Rut hafi verið jákvæð og hugrökk, stjórnað sínu liði með góðu fordæmi og talanda og vart stigið feilspor á vellinum. „Hún er fyrsti fyrirliði knattspyrnuliðs í sögu Tindastóls sem leiðir lið sitt upp í efstu deild.“

Bryndís er tæplega 26 ára Skagfirðingur, uppalin í Brautarholti í Skagafirði, yngst sex barna þeirra Ragnheiðar Gísladóttur Kolbeins og Svavars Haraldar Stefánssonar. Nú býr Bryndís í Varmahlíð ásamt kærasta sínum, Alex Má Sigurbjörnssyni og starfar hálfan daginn í þjónustumiðstöð áhaldahúss sveitarfélagsins en þjálfar einnig yngri flokka í fótboltanum.

Frekjaðist með á æfingar

Bryndís segist ekki hafa verið eldri en fjögurra til fimm ára þegar fótboltaáhuginn kviknaði. Bræður hennar sóttu fótboltaæfingar í Varmahlíð hjá Ungmennafélaginu Smára og var hún mjög ósátt við að fá ekki að fara með þeim. „Ég náði einhvern veginn að frekjast og fá að fara með þó ég væri alltof ung. Svo var ég alltaf úti á túni með bræðrum mínum að spila og var auðvitað eina stelpan en hafði ofboðslega gaman af.“ Eftir fyrsta fótboltamótið þegar Bryndís var um sex ára gömul segir hún að áhuginn hafi svo kviknað fyrir alvöru og keppnisskapið vaknað.

Bryndís hefur verið fyrirliði kvennaliðs Tindastóls síðastliðin þrjú ár. Spurð að því hvert sé leyndarmálið bak við það að vera góður þjálfari segir hún að það sé líklega að vera jákvæður og hvetjandi. „,Ég hugsa oft: „Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra,“ það er þessi gullna regla að koma fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig, að hrósa og vera jákvæður.

Það sem að mati Bryndísar stendur upp úr frá þessum árum er að hafa kynnst skemmtilegum liðsfélögum, t.d. útlendu stelpunum sem hafa spilað með liðinu, og að sjá framfarirnar hjá hverjum og einum. „Það hefur gefið mér mikið þegar maður veit að maður hefur verið að leggja tíma og vinnu í eitthvað gott, það gleður mann alltaf. Ég hafði alltaf fulla trú á að við færum upp í Pepsi deildina, það væri bara tímaspursmál. Á þessum tíma hefur margt breyst til hins betra og allt gengið upp einhvern veginn.“ Bryndís segist líka hafa haft góða þjálfara sem allir hafi haft áhrif á hana, bara á mismunandi, jákvæðan hátt. „Ég er mjög þakklát fyrir þá þjálfara sem ég hef verið með. Þetta snýst líka mikið um hugarfar hjá leikmönnum, hvernig þeir ætla að tækla mótlæti og hvernig maður ætlar að bæta sig. Ef maður hefur þjálfara sem getur hjálpað manni að bæta sig þá getur maður verið mjög ánægður.

Barátta framundan

Framundan er barátta við að halda liðinu uppi í Pepsi-deildinni. „Það er okkar fyrsta markmið,“ segir Bryndís. „Við tókum stökk fyrir tveimur árum þegar við fórum úr annarri deild upp í fyrstu og náðum þriðja sæti í fyrstu leiktíð. Þá fengum við trú á að við kæmumst alveg upp en þetta verður erfiðara stökk núna. Við erum mjög hungraðar að halda okkur í Pepsi-deildinni.“

Að lokum segist Bryndís ánægð með þann aukna meðbyr sem liðið hafi fengið frá fólkinu í kringum það. „Fólk er að fyllast áhuga á kvennafótboltanum sérstaklega og það er mjög skemmtilegt og gott að finna að fólk vill fylgjast með okkur. Ég hvet alla til að mæta á völlinn í sumar því við þurfum á öllum stuðningi að halda og við viljum líka fá fólk til að fagna með okkur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir