Búinn að verka svo oft upp eftir hundinn

Bókin Skagfirskar skemmtisögur eftir  Björn Jóhann Björnsson  hefur heldur betur slegið í gegn en hún er með söluhæstu bókum á markaðnum í dag. Feykir fékk leyfi til að birta nokkrar sögur úr bókinni.

 

Sighvatur P. Sighvats, Hvati á Stöðinni, fór um árið í siglingu ásamt konu sinni, Herdísi, með hinu sögufræga skemmtiferðaskipi, Baltiku. Í siglingunni var komið við í Egyptalandi og pýramídarnir frægu skoðaðir. Landkostir voru þar rýrir að sjá, grjót, sandur og urðir miklar og lítið af grasi. Þarna gat að líta fjárhirða álengdar sem gættu hjarða sinna, líkt og sýnt er á Biblíumyndum.

Hvati, sem hafði auga fyrir því smáa jafnt sem hinu stóra, veitti þessu athygli og aumkaði fjárhirðana að þurfa að nýta svo illt land til beitar. Honum varð hugsað til Íslands með öllum sínum gróðursælu dölum og til þeirra manna í Skagafirði sem hann mundi sem mesta fjármenn. Gengur hann þá að einum fjárhirðinum, klappar honum á öxlina og segir:

„Ja, þetta held ég að Goðdalabræðrum þætti nú léleg beit, elskan mín.“

*

Í þessari sömu ferð með Baltiku háttaði þannig til að karlar deildu saman káetum og konur voru saman í káetum á öðru þilfari. Hvati lenti í káetu með Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi. Þeir náðu vel saman,  karlarnir, enda Þórbergur fljótur að sjá hve mikill og skemmtilegur sögumaður Hvati var. Höfðu þeir þann háttinn á að fara snemma að sofa á kvöldin en risu síðan allra manna fyrstir úr rekkju og gátu sest óáreittir á skipsbarina undir morgun, sem opnir voru allan sólarhringinn. Þó að þeim konum kæmi ágætlega saman fannst frú Margréti, konu Þórbergs, það fyrir neðan virðingu skáldsins að sitja að sumbli með trillukarli og verkamanni að norðan. Hafði hún mikinn metnað fyrir hönd skáldsins. Einhverju sinni kom Margrét að þeim við einn barinn og las Þórbergi pistilinn. Segir þá Hvati við hana:

,,Mætti ég spyrja frúna, á hún þetta skip skuldlaust?“

*

Hvati sótti ekki aðeins sjóinn á smábátum heldur einnig togurum. Skipstjóri í einum túranna var Guðmundur Árnason, síðar hafnarvörður á Króknum, sem talaði jafnan tæpitungulaust. Hvati var staddur í brúnni með Gvendi er skipperinn biður um kaffi að drekka. Hvati fer niður eftir kaffinu en lendir á kjaftatörn á leiðinni og tefst eitthvað. Kemur loks til baka upp í brú til Guðmundar og réttir honum kaffibollann. Þegar hann tekur fyrsta sopann kemur í ljós að kaffið er varla ylvolgt.

,,Ertu að færa mér þetta ískalt maður, þú skalt bara troða þessu upp í rassgatið á þér,“ segir Gvendur við Hvata, heldur ókátur. En Hvati klappar skipstjóranum á öxlina og segir með hægð:

,,Heldurðu að það volgni eitthvað þar, elskan mín?“

*

Símamenn voru við vinnu í Fljótum eitt haustið, sennilega seint á áttunda áratug síðustu aldar. Þórður P. Sighvats var verkstjóri. Með honum voru Svanur Jóhannsson bifreiðarstjóri, Helgi Dagur Gunnarsson, Sigurður Sveinsson og fleiri. Gistu þeir félagar á Hótel Hvanneyri á Siglufirði. Eitt kvöldið sátu undirsátar Þórðar að sumbli uppi á herbergi og vantaði bland. Helgi Dagur er mikill húmoristi og uppátækjasamur og var á þeim tíma stundum með handjárn í fórum sínum. Handjárnaði hann nú meistara Svan og sendi hann með könnu niður í þeim erindagjörðum að sækja vatn. Þegar niður kom hitti hann ekki í fyrstu tilraun á dyrnar að eldhúsinu, en leit í stað þess inn í salinn þar sem stóð yfir aðalfundur Hjóna- og paraklúbbs Siglufjarðar og Bogi Sigurbjörnsson, þá skattstjóri, var í ræðustól.

Bogi er kurteis maður og spurði sí svona:

,,Hvert ert þú að fara, Svanur minn?“

,,Ó, shut up Bósi,“ svaraði höfðinginn og handjárnaður skellti hann hurðinni á eftir sér!

*

Kaupmaðurinn Bjarni Har. hefur löngum bjargað bæjarbúum og ferðamönnum um brýnustu nauðsynjar og verið til þjónustu reiðubúinn allan sólarhringinn ef því er að skipta. Hann getur jafnframt verið hrekkjóttur, ekki síst ef um pólitíska andstæðinga er að ræða.

Eitt sinn var haldinn félagsfundur á laugardegi hjá gamla Alþýðubandalaginu í Villa Nova, skammt frá verslun Bjarna. Var þetta rétt fyrir kosningar á Króknum. Uppgötvaðist þá að ekkert var til með kaffinu og voru menn sendir í innkaupaferð til Bjarna, sem tók vel á móti þeim og fór að tína saman drykki og eitthvað snarl með kaffinu í poka. Lét ekki þar við sitja heldur sagði að hann mætti til með að bæta smá lítilræði við og fór niður í kjallara. Kom þaðan upp með pokann fullan af veitingum og afhenti þeim félögum. Þeir tóku við pokanum, þökkuðu fyrir viðskiptin og sneru aftur til fundarins í Villa Nova. Veitingarnar voru teknar upp úr pokanum og neðst sáu þeir pakkann sem Bjarni hafði bætt við. Opnuðu þeir pakkann og kom þá í ljós að Bjarni hafði sent þeim smáfuglafóður!

*

Jóhannes Haraldsson, kallaður Kóreu-Jói, átti um tíma forláta Lödu Sport jeppa og var eitt sinn á ferð út á Reykjaströnd með hrút aftur í. Á miðri leið trylltist hrúturinn og komst einhvern veginn fram í með þeim afleiðingum að stýrið læstist og Jói missti Löduna út fyrir veg. Skemmdist bíllinn nokkuð og daginn eftir fór Jói til Ragnars Pálssonar, bankastjóra og umboðsmanns Sjóvár, og sagði farir sínar ekki sléttar. Spurði hvort hann fengi ekki bílinn bættan og Ragnar taldi svo vera. Þá fór Kóreu-Jói að lýsa því hvernig hrúturinn hefði tryllst og komist fram í. Þá stoppaði Ragnar hann af og sagði:

,,Uss, uss, Jói minn, ekki minnast á að hrúturinn hafi keyrt!“

*

Albert Magnússon, löngum kallaður Berti krati, var ásamt konu sinni lengi með unga vinnumenn úr héraðinu í fæði á Öldustígnum. Má þar nefna Sigurð Björnsson frá Hólum, eða Bróa, Gunnbjörn Berndsen, Aðalstein Jónsson, eða Steina Putt, Sigurð Frostason og Hofsósinginn Kristján Björn Snorrason. Berti þótti elda góðan mat og var sér í lagi sterkur í soðningunni. Einhverju sinni fengu þeir hins vegar tortuggið hrossakjöt og mælti Brói þá stundarhátt:

,,Þetta hlýtur að vera hjólhestur!“

Þá skaut Steini Putt fram hökunni, kjamsaði aðeins á kjötinu og sagði:

,,Já, ég held að ég sé akkúrat með pedalann núna!“

*

Tindastóll hefur löngum haft yfir að ráða taktískum þjálfurum í meistaraflokki og einn þeirra var Hafnfirðingurinn Daníel Pétursson. Vörnin var m.a. þaulæfð og hafði þá taktík í sóknum andstæðinganna eða aukaspyrnum utan af kanti að þegar einhver kallaði ,,Jói“ þá áttu varnarmenn að hlaupa út allir sem einn og gera mótherjana rangstæða.

Í einum leik hafði þessi taktík ekki alveg gengið upp þar sem Stólarnir voru 4-0 undir í hálfleik. Áttu menn von á þrumuræðu frá Daníel þjálfara, enda gekk hann til búningsklefa þungur á brún. En áður en hann hóf upp raust sína rétti einn varnarmanna upp höndina og spurði:

,,Heyrðu, áður en þú byrjar. Hver er þessi Jói?“

*

Stefán Kemp var lengi verkstjóri hjá Fiskiðju Sauðárkróks. Barn að aldri missti hann sjón á öðru auga en lét það nú ekki aftra sér á lífsleiðinni eða þá berkla sem hann fékk á unglingsaldri. Stefán býr enn á Króknum er þetta er ritað, kominn á tíræðisaldur.

Með honum í Fiskiðjunni var annar verkstjóri, Stefán Skarphéðinsson, einnig eineygður, og undirverkstjóri hjá Kemp var Hulda Sigurbjörnsdóttir. Eitt sinn kom Stefán Skarphéðinsson gustmikill neðan af bryggju út í Fiskiðju og sagði við nafna sinn:

,,Þarf að tala við þig eins og skot, undir fjögur augu.“

Kemp leit þá í kringum sig og svaraði með hægð:

,,Ja, þá verðum við líklega að kalla í Huldu.“

*

Bóndi einn handan vatna, sem ósagt skal látið hver var, tók að sér að aka hópi fólks út á Krók á gömlum Land Rover. Þéttskipað var í bílnum og sátu þrír fram í, þeirra á meðal kona sem sat næst bónda við stýrið. Alltaf er hann setti í annan eða fjórða gír lenti gírstöngin innarlega á milli fóta á frúnni. Í hvert skipti er það gerðist sagði konan upphátt ,,Lúkas 44“.

Bóndinn var nú ekki viss hvað konan átti við með þessu, og er heim kom eftir ferðina tók hann fram Biblíuna á heimilinu og fletti upp á þessum stað í Lúkasarguðspjallinu en þar stóð:

,,Þú ert á réttri leið.“

*

Einu sinni voru þeir staddir á Spáni þeir Haraldur Þór Jóhannsson í Enni í Viðvíkursveit, eða Halli í Enni, og félagi hans, Halldór Hjálmarsson frá Hólkoti. Voru þeir góðglaðir í ferðinni og vissu vart mun á nóttu eða degi.  Þegar vel var liðið á túrinn segir Halldór við félaga sinn:

,,Bölvað kæruleysi er þetta, maður er ekkert búinn að hringja heim og láta vita af sér.“

,,Af hverju hringirðu ekki,“ segir Halli.

,,Hvernig hringir maður?“

,,Þú tekur upp símann, hringir í lobbíið og biður um Hólkot,“ svarar Halli og Halldór fer grunlaus beint í símann og fer eftir þessum leiðbeiningum. En fljótlega segir hann við Halla:

,,Konan segir bara ,,number, number“.

,,Hún er að biðja um hringinguna í Hólkot,“ endurtekur Halli og þá segir Halldór í símann:

,,Tvær langar, ein stutt!“

*

Jóhann Eiríksson, Jói Eiríks, afi Halla í Enni, hélt eitt sinn sem oftar ræðu við hátíðahöld sjómannadagsins á Hofsósi, fyrir framan stóran hóp bæjarbúa og gesta í gamla skólahúsinu. Hófst hún eitthvað á þessa leið:

,,Góðir gestir, nú er sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt. Vissulega hefur Ægir konungur fært okkur góðar gjafir á liðnu ári, en við höfum líka þurft að færa honum miklar fórnir. Fljótt á litið telst mér til að annar hver maður hér inni hafi drukknað á árinu sem leið!“

*

Gísli Einarsson, fréttamaður á Sjónvarpinu, var einu sinni verslunarstjóri í kaupfélaginu á Hofsósi. Svo var það á bolludagsmorgni að komið var brjálað veður og engar líkur á því að hægt væri að fá bollur frá bakaríinu á Sauðárkróki. Gísli ákvað því að hafa samband við Þóri á Óslandi til þess að fara með sér að ná í bollurnar.

Fóru þeir á forláta rússajeppa sem Óslandsbræður höfðu þá nýlega keypt af slökkviliðinu í Varmahlíð. Var hann  keyptur í lágadrifinu og náðist ekki úr því fyrstu mánuðina og fór því ekki mjög hratt yfir. Lögðu þeir félagar nú af stað og versnaði veðrið stöðugt og sóttist ferðin því mjög seint. Komu þeir ekki aftur í Hofsós fyrr en að kvöldi sprengidags og segir sagan að á öskudag hafi Gísli selt bollurnar sem tvíbökur!

*

Þegar Bjarni Maronsson hóf störf hjá Landgræðslunni við gróðureftirlit hafði hann aðsetur á Hólum í Hjaltadal. Sátu þeir oft saman í matsalnum í hádeginu, Bjarni og Gunnar Rögnvaldsson. Bjarni er af gamla skólanum og ekki mjög nýjungagjarn þegar kemur að mat. Einn daginn bar svo við að ráðskonurnar buðu upp á dýrindis lasagna. Gunnar fékk sér vel á diskinn og settist hjá Bjarna. Tók hann þá eftir því að Bjarni var einungis með eina smurða brauðsneið á sínum diski.

,,Hvað er þetta, Bjarni, ætlarðu ekki að fá þér lasagna?“ spurði Gunnar í forundran.

Bjarni horfði á hrúguna á diski Gunnars, ræskti sig ofurlítið og svaraði:

,,Ómögulega, þakka þér fyrir, ég er búinn að verka svo oft upp eftir hundinn!“

*

Sterkt svipmót þykir með þeim Suðurleiðafeðgum, Jóni Sigurðssyni á Sleitustöðum og Gísla Rúnari, yngri syni hans, þótt aldursmunur sé eðlilega nokkur. Starfsmenn Trésmiðjunnar Borgar á Sauðárkróki fóru um árið í starfsmannaferð að Flugumýri, skoðuðu hross og fengu sér í tána. Suðurleiðir önnuðust rútuakstur og ók Gísli Rúnar fram eftir. Með í för var arkitekt að sunnan, myndarkona að sögn. Dvaldist nú Borgarmönnum eitthvað fram eftir við gleðskapinn. Loksins þegar rútan kom að sækja þá sat Jón undir stýri. Þegar arkitektinn leit á bílstjórann brá henni í brún og sagði:

,,Guð minn góður, vorum við svona lengi?“

Fleiri fréttir