Dýravakt MAST - Ný fésbókarsíða í loftið
Matvælastofnun hefur tekið í notkun nýja Fésbókarsíðu undir yfirskriftinni Dýravakt Matvælastofnunar en tilgangur síðunnar er að skapa gagnvirkan vettvang til að miðla upplýsingum um heilbrigði og velferð dýra milli Matvælastofnunar, dýraeigenda og almennings. Um er að ræða upplýsingagjöf frá stofnuninni til dýraeigenda um dýravelferðarmál og hins vegar með upplýsingagjöf frá almenningi til Matvælastofnunar þegar grunur leikur á illri meðferð á dýrum.
Á Fésbókarsíðunni verða meðal annars birtar upplýsingar til dýraeigenda um hvernig auka megi velferð og heilbrigði dýra, hvaða reglur gilda um dýrahald og hvernig brugðist er við þegar þeim er ekki fylgt.
Í tilkynningu frá MAST segir að opið verði fyrir athugasemdir undir hverri færslu en Fésbókarsíðan sé hins vegar hvorki ætluð til þess að veita ráðgjöf um sjúkdóma, greiningu eða meðhöndlun, né til að komast í samband við dýralækni á vakt.
Fésbókarsíðan býður upp á að hafa samband við Matvælastofnun í gegnum ábendingakerfi stofnunarinnar. Það er gert til að tryggja eftirfylgni og sér gæðastjóri til þess að öllum ábendingum sé lokið. Það er einnig gert til að halda yfirlit yfir ábendingar, fyrirspurnir og kvartanir til Matvælastofnunar. Fjöldi ábendinga, fyrirspurna og kvartana er tekinn saman og birtur eftir málaflokkum í ársskýrslum Matvælastofnunar.
Finna má síðuna HÉR