Dýrbítur í Fitjárdal
Tófur hafa ráðist á sauðfé á bænum Fremfi-Fitjum í Fitjárdal. Bitu þær nokkrar kindur mjög illa svo þurfti að aflífa þrjár skepnur strax og hugsanlega þarf að lóga fleirum. Frá þessu var greint í fréttum Ríkisútvarpsins í vikunni.
Rætt var við Helgu Rós Níelsdóttur á Fremri-Fitjum í fréttum RUV og segir hún að vart hafi orðið við að kindur, sem voru á gjöf á túni nokkur hundruð metra frá fjárhúsunum, hafi komið heim að húsum, bitnar í framan. Í fyrstu var talið að hundarnir á bænum ættu hlut að máli en þegar farið var að kanna málið nánar kom í ljós að mikið var um spor eftir tófu á túninu. Helga segir að 26 kindur séu bitnar eftir tófuna og sumar mjög illa. „Þetta er flestallt neðan í kjálka, eða í munnvikjum og framan á trýni. Bitið framan af snoppum, bitið úr vör, bitið mikið í kjálka,“ segir hún.
Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir í samtali við RUV að greinilega sé að aukast að dýrbítur leggist á fé heima á túnum og hafi það gerst á fleiri bæjum í sveitarfélaginu í vetur. „Það er aðeins óvenjulegt að tófan er eiginlega bara komin upp við bæi, það er ekki verið að bíta féð sem er á beit uppi á heiðum. Það hefur auðvitað alltaf verið eitthvað um þetta, en það virðist vera að tófan sé að færa sig upp á skaftið,“ segir hún.
Mismunandi er hvaða fyrirkomulag er á refaveiðum hjá sveitarfélögum. Grenjaskyttur fá mismikið greitt fyrir veiðarnar og á sumum svæðum er minna greitt fyrir vetrarveiði á ref. Guðný segir að hugmyndir hafi verið uppi um að færa tímabilið til. „Við eigum eftir að taka þetta til alvarlegrar umfjöllunar. Hvort að greiðslufyrirkomulaginu verður breytt eða ekki, á eftir að koma í ljós. En að sjálfsögðu tökum við þessu mjög alvarlega.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.