Ekki beinlínis ágætis byrjun

Davis Geks og Valur Króksari Valsson takast á í gær. MYND: BÁRA
Davis Geks og Valur Króksari Valsson takast á í gær. MYND: BÁRA

Fyrsti leikur karlaliðs Tindastóls í úrslitakeppninni fór fram í Smáranum í Kópavogi í gærkvöldi. Ekki ráku meistararnir beinlínis af sér slyðruorðið með frammistöðu sinni þrátt fyrir að hafa skorað 88 stig því Grindvíkingar gerðu 111 og synd að segja að varnarleikur Stólanna hafi verið upp á marga fiska. Það voru tapaðir boltar sem reyndust dýrkeyptir að þessu sinni. Venju samkvæmt voru Stólarnir vel og dyggilega studdir en það var fátt til að gleðja þá þegar á leið.

Það vantaði svo sem ekki að leikurinn var fjörugur. Fyrsti leikhluti var jafn og staðan 22-22 þegar ein og hálf mínúta var eftir en Grindvíkingar leiddu að honum loknum, 29-25. Tindastólsmenn héldu vel í heimamenn framan af öðrum leikhluta, staðan 39-36, þegar þrjár og hálf mínúta var liðin en þá náðu Grindvíkingar undirtökunum og komust mest 17 stigum yfir fyrir hlé. Staðan í hálfleik 56-41 og Stólarnir í erfiðri stöðu.

Ekki skánaði staðan í upphafi síðari hálfleiks þar sem Grindvíkingar gerðu fyrstu tíu stig síðari hálfleiks og þar með búnir að ná 25 stiga forystu. Reyndar var staða Stólanna svo sorgleg að þegar tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik hafði Dedrick Basile gert 19 stig – eða jafn mörg stig og allt byrjunarlið Tindastóls. Staðan var 86-63 að loknum þriðja leikhluta en mest varð forysta heimamanna 28 stig í upphafi fjórða leikhluta og úrslitin löngu ráðin.

Raunar var skotnýting liðanna á svipuðu róli og bara ansi góð en munurinn var sá að lið Grindavíkur tók talsvert fleiri skot í leiknum – sennilega vegna þess að Stólarnir töpuðu 18 boltum en Grindvíkingar sjö. Þetta leiddi til þess að þeir gerðu 21 stig í hraðaupphlaupum gegn sex stigum Stólanna og 27 stig eftir að Stólarnir töpuðu boltanum á meðan okkar menn gerðu fimm stig eftir að Grindvíkiingar töpuðu boltanum. Og þar lá hundurinn grafinn að þessu sinni.

Jacob Calloway var stigahæstur í liði Tindastóls með 18 stig og Davis Geks gerði 16 stig. Lawson og Drungilas gerðu 13 stig hvor en Drungilas var með sjö fráköst líkt og Þórir sem gerði að auki sjö stig og átti ellefu stoðsendingar.

Þetta er auðvitað bara einn sigur hjá Grindvíkingum og Stólarnir hafa tíma og lið til að bregðast við. Þá þurfa strákarnir auðvitað að stíga upp og það hefur nú ekki gengið sérlega vel í vetur og augljóslega ekki einhver takki sem hægt er að ýta á. Stólarnir verða að koma enn einbeittari og ákafari til leiks á mánudaginn í Síkinu. Svavar þjálfari lofar í það minnsta betri frammistöðu þá. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir