Fjárdagur í Fljótum

Í byrjun október var haldinn Fjárdagur í Fljótum, á vegum Fjárræktarfélagsins í sveitinni. Feykir hafði samband við Jóhannes Ríkharðsson á Brúnastöðum og forvitnaðist um hvernig hefði til tekist, en Fjárdagurinn var haldinn í fjárhúsunum þar.

„Dagurinn var vel heppnaður og hjálpuðust allir þeir félagsmenn sem tóku þátt í deginum við framkvæmd hans en við á Brúnastöðum lögðum til aðstöðuna. Það mættu um 120 manns,“ sagði Jóhannes. Dagskráin var tvískipt, frá klukkan eitt til fjögur var hrútasýning vetur gamalla hrúta og lambhrúta, en sá liður var hugsaður fyrir félagsmenn. Aðaldómari á sýningunni var Eyþór Einarsson en meðdómendur Einar Gunnarsson og Halldór Steingrímsson Brimnesi, aðstoðardómari Þórarinn Halldórsson Ytri-Hofdölum.

Klukkan fjögur voru fjárhúsin opnuð almenningi og gestum boðið að skoða verðlaunahrútana, kynbóta lambrúta og gimbrar sem voru til sölu. „Einnig voru til sölu forystulömb en eingöngu til sýnis voru geitur, svín, kanínur og gæsir. Uppboð var á völdum lambhrútum og sá maddama Agnar á Miklabæ um uppboðið og fórst honum það vel úr hendi eins og vænta mátti. Auk þessa var Indriði á Eyrinni með sýningu á tölvustýrði flokkunarvigt fyrir sauðfé sem les örmerki og vakti sú sýning mikla lukku.

Boðið var upp á kaffi, kakó og kaffibrauð að hætti Fljótakvenna en það voru kvenkyns sauðfjárbændurnir sem sáu um þennan lið. Einnig var boðið upp á léttar veitingar í baukum í boði KS Eyri og Sauðfjárræktarfélagsins,“ sagði Jóhannes. En hvernig skildi fé í Fljótum koma af fjalli, eftir stutt og framan af kalt sumar? „Féð er ágætlega holdugt eftir sumarið enda sauðkindin harðgerð skepna eins og við Fljótamenn,“ sagði Jóhannes bóndi á Brúnastöðum.

Fleiri fréttir